Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Þegar svo þingreyndir menn eins og þeir þingmenn Vestfjarða og Vesturlands, báðir eru hjarta mínu nálægt, tala hér og gagnrýna það sem hér hefur verið gert, þá kemur mér það á óvart því að vitanlega vita allir menn að þegar dregur að þinglokum þá er leitað eftir samkomulagi. Margir fundir hafa verið haldnir á skrifstofu forseta Sþ. þar sem mættir hafa verið fulltrúar, ég hélt allra þingflokka, m.a. bæði Alþfl. og Alþb. Mér þykir slæmt ef það sem þar hefur farið fram hefur ekki borist til eyrna þessara hv. þm.
    Á þeim fundum féllst ég m.a. á að þingslit yrðu 4. eða 5. maí en ekki 27. apríl eins og talað var um í áætlun þingsins. Hins vegar kom mjög fljótlega í ljós að til að það mætti takast yrði að nást samkomulag um þau mál sem varða stjórn fiskveiða, þ.e. frv. stjórn fiskveiða og frv. um Úreldingarsjóð, sem eru í sjútvn. Ed. Því hafa fulltrúar stjórnarflokkanna og ráðherrar, ekki síst sá ráðherra sem ber fram þau frumvörp, eins og mjög algengt er þegar um deilumál er að ræða, beitt sér fyrir því að samkomulag gæti náðst, fyrst og fremst milli stjórnarflokkanna um þau mál. Og mér kemur það líka á óvart ef sú viðleitni hefur ekki borist til eyrna þessara hv. þm., það eru mér vonbrigði.
    Þetta mál var rætt í gær við stjórnarandstöðuna. Ég hafði nú ekki fengið endanlegt rit þessara mála eins snemma og sjálfstæðismenn þá, ef þeir fengu það kl. 4. Ætli það hafi ekki verið svona um kvöldmatarleytið eða eftir það sem ég sá það sem endanlegt var. Það var skömmu síðan afhent hv. þm. Stefáni Valgeirssyni. Það hefur ekkert verið gengið frá endanlegu samkomulagi, en okkur sýndist í gær að ef tækist að ljúka þessum málum eins og drög voru lögð að, og kom ágætlega fram hér í ræðu áðan hjá hv. fulltrúa Kvennalistans, þá væri unnt að gera samkomulag um önnur mál. Hefur verið stefnt að því að sest yrði yfir það í dag og morgun og þá hægt að ljúka þingstörfum 4. eða 5. júlí --- maí á ég við. Ég er hins vegar tilbúinn að halda þinginu áfram til 4. og 5. júlí ef menn óska. Og ef þessir hv. þm. vilja fá nokkra daga í viðbót er ekkert því til fyrirstöðu af minni hálfu, ekki nokkur skapaður hlutur. Við skulum bara ræða þessi mál í bróðerni á þeim fundum sem verða hér í dag og morgun.