Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Stefán Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Hér er nú allskondin umræða í gangi og vinnst ekki tími til að skýra málin eins og ástæða væri til þannig að sannleikurinn í þessu máli gæti komið sem best fram. Þó vildi ég aðeins fá að skýra málið frá minni hlið.
    Staðreyndin er þessi: Menn töluðu saman í gær og gerðu með sér, að ég taldi, nokkurn veginn samkomulag um það, ég segi nokkurn veginn samkomulag, að hægt verði að afgreiða þetta mál út úr nefnd á morgun, föstudag, ljúka umræðu um málið á laugardag, síðan yrði málið endanlega afgreitt á mánudag í atkvæðagreiðslu. Þetta var það sem menn ræddu um sín á milli, hvort menn gætu fundið þessa leið og leyst málið út frá þessari vinnutilhögun.
    Það kom einnig fram hjá hv. þm. Stefáni Valgeirssyni að þau plögg sem við höfum verið að ræða núna síðustu stundirnar hefðu verið sett á borð þingmanna Sjálfstfl. kl. 4 í gær. Ég verð að segja það við Stefán Valgeirsson að ég harma þetta því hér er farið með rangt mál og ég veit að það vill hann ekki. Ég var með þessi gögn ... ( SV: Viltu endurtaka þetta?) Já, ég sagði: ég veit að hér fer Stefán Valgeirsson með rangt mál. Ég var með þessa pappíra undir höndum, þá nýjustu sem var verið að fjalla um og afhenti þá sjálfur persónulega þingmönnum Sjálfstfl. sem sitja í sjútvn. Ed. ásamt öðrum þingmönnum nefndarinnar. Ég afhenti þessa pappíra sjálfur persónulega hverjum og einum einasta manni sem situr í nefndinni með okkur í Ed., og áheyrnarfulltrúa þar einnig. Fyrr var þetta ekki afhent. Það var upp úr kl. 11 í gærkvöldi sem ég gerði þetta að afloknum fundi þingflokks Alþb. Fyrr vildi ég ekki afgreiða þessa pappíra en allir þingflokkarnir hefðu fengið eðlilega umfjöllun um málið. Þetta er það sanna í málinu.
    Stefán harmar það auðvitað að hafa ekki fengið að fylgjast með málunum. Það er rétt að það komi fram að fulltrúi Stefáns Valgeirssonar sat með okkur alla sameiginlega fundi beggja deildanna þegar við vorum að ræða um málið þannig að þar er nú aðeins málum hallað.
    Þegar þetta lá fyrir í gær þá hafði ég líka samband við alla þá aðila sem sitja í sjútvn., um hugsanlegan framgang málsins. Kl. 9 í morgun sátum við á sjávarútvegsnefndarfundi, fullskipuð nefndin. Þá settum við á blað alla þá aðila sem við óskuðum eftir að fá til viðræðu um málið í dag. Við settum það niður og tímasettum það, komum okkur saman um það hvenær við ætluðum að halda fundi. Það hreyfði enginn andmælum. Það var aðeins beðið um eitt, að ég beitti mér fyrir því að þingmenn sem störfuðu í sjútvn. yrðu ekki boðaðir á aðra nefndarfundi á föstudagsmorgni. Þessu kom ég á framfæri og ég veit ekki til þess að nokkur þeirra sem starfa í sjútvn. hafi verið boðaður á nefndarfund í fyrramálið. Þetta er hið rétta í málinu.
    Hv. 1. þm. Vestf. Einar Guðfinnsson talaði hér áðan um að verið væri að henda inn einhverju máli eins og Úreldingarsjóðnum. Úreldingarsjóðurinn er

búinn að vera hér í þinginu í marga mánuði. Það er það sanna í málinu. Menn þurfa að vita um hvað þeir eru að tala.