Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er rétt sem hv. þm. Stefán Valgeirsson segir að við nefndarmenn í sjútvn. fengum á fundi kl. hálftvö í gær afhentar tillögur eins og þær stóðu þá, samkomulagstillögur sem ráðherrar höfðu komið sér saman um. Þær tillögur fengu sjávarútvegsnefndarmenn afhentar kl. 1.30 og þeim tillögum var síðan dreift á þingflokksfundi Sjálfstfl. kl. 4. En það er líka rétt hjá hv. þm. Stefáni Guðmundssyni að þessi drög voru ekki endanleg. Mér skilst að það hafi verið í morgunútvarpi sem það var tíundað eftir hæstv. fjmrh. hvaða sérstöku setningar Alþb. eigi í þeim tillögum sem sjútvrh. hefur lagt fram. Þetta hef ég eftir einum þingbróður hæstv. fjmrh. Ég veit ekki hvort fjmrh. telur sig enn þá í Alþb., en það var alþýðubandalagsþingmaður sem sagði mér þetta.
    Ég vil í öðru lagi skýra frá því að það er rétt að við áttum viðtal við hæstv. forsrh. og sjútvrh. í gær, við hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, þar sem við töluðum um vinnubrögð. Auðvitað er það svo að stjórnarandstaða hlýtur á lokadögum þingsins hverju sinni að vera til viðtals um vinnubrögð og við hreyfðum ekki athugasemdum við því að frv. um stjórn fiskveiða og Úreldingarsjóð yrðu afgreidd úr sjútvn. á morgun samhliða og samtímis. En á þeirri stundu sem við ræddum við hæstv. forsrh. og sjútvrh. vissum við ekki betur en að þeir væru að tala við okkur í umboði þeirra þingmanna sem eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar í sjútvn.
    Ég vil þess vegna, hæstv. forseti, aðeins lýsa því yfir að okkur fulltrúum Sjálfstfl. í sjútvn. er vandi á höndum ef sú staða kemur upp að fulltrúar ríkisstjórnarinnar eru klofnir í málinu. Annar armurinn telur að frv. hafi ekki fengið nægilega meðhöndlun og hinn armurinn telur að frv. hafi fengið nægilega meðhöndlun.
    Ég vil svo að síðustu aðeins leiðrétta það sem formaður sjútvn. sagði um Úreldingarsjóð fiskiskipa. Eftir þær breytingar sem fyrir liggja hefur Úreldingarsjóðurinn skipt um eðli. Það er ekki lengur verið að tala um sama frv. og ef farið væri að þingsköpum ætti í raun og veru að krefjast þess að nýtt frv. yrði flutt um Úreldingarsjóð, eins og við munum gera ráð fyrir síðar. Það sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um það mál er því öldungis rétt efnislega.