Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Þessar umræður hafa leitt það í ljós að í röðum hv. stjórnarliða, svokallaðra stjórnarþm., eins og þeir kjósa nú að kalla sig, er nákvæmlega engin samstaða um þetta mál, hvorki um efnisatriði þess né á hvern veg á að afgreiða það, hvort heldur er út úr nefndinni eða í hv. deild. Það sem hér liggur fyrir er einfaldlega það að menn eru að ræða gerbreytt viðhorf með því að búið er að umturna stórum þáttum í þessu máli sem ekki hafa verið kynnt með þessum hætti fyrir hagsmunaaðilum og hafa þess vegna ekki hlotið þá umræðu í þjóðfélaginu sem nauðsynleg er. Þetta liggur hér fyrir og það hefur nú verið staðfest af hv. þm. Skúla Alexanderssyni að frv. um Úreldingarsjóð, sem hér hefur verið til umræðu, hefur legið í þinginu án þess að hafa fengið þá umfjöllun sem eðlileg hefði verið. Það er þess vegna ástæða til þess að taka undir með þingflokksformanni Borgaraflokksins, einum af máttarstólpum þessa stjórnarsamstarfs, eins gæfulegt og það nú er og þessar umræður hafa leitt í ljós, það er fullkomin ástæða til að taka undir með honum um það að þetta mál kallar á mun ítarlegri og alvarlegri umræður en þegar hafa átt sér stað. Afgreiðsla þess getur ekki átt sér stað með þeim hætti sem að er stefnt, að því er virðist, með einhverju gervisamkomulagi sem á sér svo enga stoð í raunveruleikanum þegar nánar er skoðað.