Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Það hefur komið í ljós í þessari umræðu að hennar var full þörf, eins og að málum hefur verið staðið. Það hefur ekki farið milli mála. Það var ekki mín meining að vísu að hefja hér upp umræður um efnislega þætti þessara mála heldur vekja athygli á hvaða vinnubrögðum er beitt, hvaða vinnubrögð eru notuð gagnvart okkur, hinum óbreyttu þingmönnum, af hæstv. ráðherrum.
    Ég heyrði að hæstv. forsrh. sagði áðan að það væri ekkert samkomulag við Karvel og mér heyrðist vera í hljómnum að það skipti engu máli. Það er rétt. Það er ekkert samkomulag við mig um svona málsmeðferð eða afgreiðslu. Þannig að það sé á hreinu.
    Ekki vil ég fara í orðaskak við minn gamla nemanda, hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson. Hefur ekki hv. þm. Sjálfstfl. verið ljós mín afstaða í þessum efnum? Ég spyr hv. 1. þm. Suðurl.: Var honum ekki ljós mín afstaða í ráðuneyti hans 1987 til kvótamálsins? Hvað eru menn að tala um breytingu? Ég er sá sem hef haldið sömu skoðun, hvort sem ég var talinn styðja ríkisstjórn eða utan. Það verður ekki sagt um aðra. Þar hafa menn skipt um ... (Gripið fram í.) Já, ég get vel tekið undir það að þessi þaulreyndi þingmaður, forseti með öðru meiru, hefur kannski lengst af haldið bestum taumi innan íhaldsins í þessum efnum. En stundum hefur hann horfið frá. ( ÓÞÞ: Hvað áttu við með taumi?) Taumi. (Forseti hringir.) Virðulegur forseti, ég hlýt að mega svara hv. þm. sem grípa fram í. Ef hv. hrossatamningamaður, þm. Ólafur Þ. Þórðarson, ekki veit hvað taumur er þá ætla ég ekki að útskýra það. Það er hans mál viti hann það ekki.
    Það hefur greinilega komið í ljós í þessum umræðum að það er ekkert allsherjarsamkomulag um að ljúka málinu með þeim hætti sem greint var frá í Ríkisútvarpinu í hádeginu í dag. Það hefur ekki verið samþykkt í þingflokki Alþb. (Forseti hringir.) Já, virðulegi forseti, ég hef nú talað kannski styst af öllum í þessari umræðu. ( Forseti: Hv. þm. hefur þrjár mínútur.) Það hefur ekki verið lamið jafnt stíft í bjöllu hjá öðrum hv. þm. og mér. En ég skal ekki vera lengi. Ég skal ljúka mér fljótlega af.
    Það er greinilegt að ekkert samkomulag hefur verið um þetta. Það liggur fyrir frá þingflokksformanni Sjálfstfl. og frá fulltrúa Kvennalista í sjútvn. Ég hefði gjarnan viljað heyra viðhorf hæstv. ráðherra Alþfl. til þessara mála. Þess virðist ekki vera kostur eins og málum er háttað. (Gripið fram í.) Það kann vel að vera að hæstv. ráðherrar séu á Seðlabankafundi og ekki set ég út á það, en þingstörf eiga nú að mati sumra að ganga fyrir. Og það hlýtur svo að vera.
    Ég ætla ekki að gagnrýna hér frekar neitt í þessum efnum. ( ÓÞÞ: Það er gott.) Já, ég heyri að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sem varð þess valdandi að kvótinn var samþykktur 1987 með því að svíkjast undan merkjum, virðist ætla að bera ábyrgð á þessu áfram. ( Forseti: Forseti hlýtur að benda hv. þm. á að tími hans er löngu liðinn. Umræðan hefur dregist

hálftíma lengur en ætlað var. Hv. þm. hefur nú talað í fimm mínútur en hann hafði þrjár mínútur. Ég bið hann nú lengstra orða að fara að ljúka máli sínu.) Virðulegur forseti. Það verður að virða mönnum það til vorkunnar þegar alltaf er gripið fram í. Menn verða að svara, undan því verður ekki komist. ( Forseti: Samræður eru ekki leyfðar.) Þá er að skamma þá hv. þm. sem eru að hefja upp raust úti í sal en ekki þá sem eru að tala í ræðustól. Það hlýtur að vera verkefni hæstv. forseta að gera slíkt.
    Ég skal, virðulegur forseti, að lokum ekki fara um þetta fleiri orðum. Mér sýnist ljóst að málið, eins og það er núna, verði ekki afgreitt út úr Ed. á laugardegi. Ég spyr áfram: Ætla hv. þm. í Nd. að láta sér nægja einn eða tvo daga í lok þings til umræðu um svo stórt mál? Er málið ekki meira virði en svo, mál sem skiptir sköpum um fjöregg þjóðarinnar í framhaldinu?
    Ég bið, virðulegi forseti, afsökunar hafi ég farið of mikið fram úr tímanum en ég skal ekki hafa þessi orð fleiri.