Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál um þessa tillögu. Ég get samt sem áður ekki á mér setið vegna þessa tillöguflutnings er og vegna málflutnings hv. 1. flm. að segja nokkur orð.
    Menn tala í sömu andrá um byggðamál og stóriðju. Ég held að menn verði að ná áttum og athuga hvað er verið að ræða um hér. Okkur veitir sannarlega ekki af því að ræða um atvinnumálastefnu framtíðarinnar en stóriðja getur aldrei, að mínu mati, bundist byggðamálum, alveg nákvæmlega sama hvar hún yrði staðsett, vegna þess að slík verksmiðja mundi draga að sér fólk frá nágrannabyggðum. Og svo er annað sem ég hélt að hv. þm. sem flytja þessa tillögu væru búnir að átta sig á, að það hefur aldrei staðið til að byggja upp stóriðju, a.m.k. ekki fram að þessu og ekki í þetta sinn, annars staðar en hér á suðvesturhorninu. Það er allt saman blekking.
    Hv. þm. talaði um það að hver þingmaður mundi vilja fá slíkt fyrirtæki til sín. Ég fyrir mitt leyti mundi ekki vilja að nafn mitt væri við það riðið í framtíðinni að fá álver við Eyjafjörð. Ég gæti ekki hugsað mér það. Það er kannski vegna þess að ég hef reynt að afla mér upplýsinga um hvað er hér á ferðinni. Ég mun ræða um það þegar virkjunarmálin koma hér á dagskrá því að ég er búinn að afla mér nokkuð mikils fróðleiks um þessi efni í Noregi, Svíþjóð, Austur-Evrópu, Kanada. Ég mundi ekki geta hugsað mér að börnin mín ynnu í slíkri verksmiðju. Ég gæti ekki hugsað mér að slík verksmiðja yrði sett í blómlegasta landbúnaðarhérað landsins, Eyjafjörð. Ég man vel eftir því hvernig reykurinn frá síldarverksmiðjunum dreifðist um byggðir Eyjafjarðar þegar þrjár verksmiðjur voru í Eyjafirði. Það mun vera ósköp líkt, eftir því sem efnafræðingar og eðlisfræðingar hafa sagt mér, dreifingin yrði mjög lík því sem hann var.
    Hvað eru menn að tala um? Menn eru að tala um 400 þús. tonna verksmiðju. Hafa menn gert sér grein fyrir því hvað t.d. mikið af flúor færi upp í andrúmsloftið? Hafa menn gert sér grein fyrir því? Það var talið í eina tíð að það væri ekki nema 700 grömm á hvert framleitt tonn af áli. Í nýjustu skýrslum er, vegna breytinga á mötun í kerum, talað um að það verði ekki undir 1 kg. Hafa menn ekki áttað sig á því að bæði í Austur-Evrópu og Kanada eru menn farnir að gera sér grein fyrir því eða eru hræddir um það að vansköpuð börn og búpeningur stafi frá álbræðslum og málmbræðslum en ekki frá kjarnorkuverum eins og áður var talið?
    Það að Eyfirðingar og Austfirðingar hafa tekið undir það að fá svona fyrirtæki stafar eingöngu af neyð sem þeir horfa fram á. Það er náttúrlega alveg forkastanlegt að ríkisstjórn skuli fyrst og fremst senda sína fulltrúa út um öll lönd til þess að reyna að finna auðhringa til þess að byggja álverksmiðju en ekki annan atvinnurekstur sem hentar okkur betur. Hafa menn gert sér grein fyrir því hvað það þýddi við Reyðarfjörð eða Eyjafjörð ef svona verksmiðja yrði

byggð upp? Hvað það er margt fólk sem þarf til þess að byggja þetta upp? Hvað mundi raskast á meðan og hvernig yrði svo umhorfs þegar þetta væri búið?
    Okkar atvinnuuppbygging þarf að felast í því að það sé þróun en ekki svona stökk og byltingar, burt séð frá menguninni, sem er þó aðalatriðið í mínum huga.
    Ég er búinn að skrifa nokkuð mikið mál um þetta sem ég fer að birta nú, upplýsingar um þetta allt. Ég geri mér vonir um að menn reyni að afla sér þeirra upplýsinga sem þeir geta en hlusti ekki eingöngu á ræður hér sem eru fluttar að algerlega óathuguðu máli.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu nema ég ætla að segja ykkur eitt. Árið 1969 tók álbræðslan í Straumsvík til starfa. Það var enginn hreinsibúnaður þegar hún tók til starfa. Heilbrigðisyfirvöld gerðu kröfu til þess 1973 að það yrði settur upp hreinsibúnaður. Það var ekki fyrr en níu árum seinna eða 1982 sem var búið að setja upp þennan hreinsibúnað. Síðan voru engar mælingar gerðar á því hvernig til hefði tekist fyrr en 1986 og aldrei síðan af íslenskum aðilum. Og hvað kom upp? Það kom upp að það var ekki 1 kg eins og mörkin voru í Ameríku og annars staðar með svona endurbyggð álver. Þeir treystu sér ekki til að koma í veg fyrir að það færu 2 kg á hvert unnið ál tonn út í andrúmsloftið og þeir gátu ekki einu sinni staðið við það. Hvað eru menn að tala um? Þetta er eftirlitið sem er með þessari einu verksmiðju sem hér er.
    Ég held að það sé betra fyrir hv. þm. að skoða málið svolítið betur og reyna að hugsa um það að byggja upp atvinnulíf á Íslandi sem hentar þessari þjóð og að við séum ekki að menga andrúmsloftið með svona fyrirtækjum.