Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég hlýt að lýsa því yfir að umræða um þessa tillögu hlýtur að teljast til merkari umræðna sem hér hafa farið fram að undanförnu. Hér er verið að ræða mál sem hefur grundvallarþýðingu fyrir undirbúning okkar Íslendinga fyrir þá atburði sem eru að gerast og munu gerast í auknum mæli í Vestur-Evrópu.
    Það var einkar athygli vert að hlusta á hæstv. forsrh. ræða um fyrirvarann sem minnst er á í 2. mgr. þáltill. Þótt hæstv. forsrh. talaði kannski ekki alveg fullkomlega skýrt um stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum má þó draga þá ályktun af máli hans, eða ég leyfi mér a.m.k. að gera það, að hann sé sammála hæstv. viðskrh. um það að sá fyrirvari sem hæstv. fjmrh. lýsti og embættismenn hans þegar þessi mál voru til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs sé brott fallinn. Þetta eru fréttir fyrir þá sem eru samstarfsmenn þessa hæstv. ráðherra og vil ég þá einkum minnast á einn hv. þm. sem sífellt og allt fram á þennan dag hefur haldið því fram að þessi fyrirvari sé í fullu gildi. Þá á ég við hv. þm. Hjörleif Guttormsson sem er einn á meðal þeirra.
    Hæstv. viðskrh. svaraði fyrirspurnum hér fyrr í dag. Ein spurning varð eftir, þ.e. svar við einni spurningu kom ekki fram og það er full ástæða til þess að spyrja hæstv. ráðherra þess vegna að því: Hvernig stendur á því að í ráðuneyti hæstv. ráðherra liggur reglugerð tilbúin, aðeins vantar að undirrita hana, reglugerð sem fjallar um heimild Íslendinga til þess að eignast verðbréf erlendis? Ég ætla ekki að lýsa því nákvæmlega hvernig þetta mál er vaxið. Þetta er gamalt baráttumál hæstv. ráðherra og reyndar fyrri ríkisstjórna og var samþykkt fyrir um það bil tveimur árum síðan. En eins og í svo mörgu öðru hafa aðeins sífelldar yfirlýsingar komið af hálfu hæstv. ráðherra en minna orðið úr framkvæmdum þegar á hólminn er komið. Þetta vil ég spyrja hæstv. ráðherra um.
    Þá vil ég enn fremur lýsa því yfir að ég fagna því að breytingar skuli hafa verið ákveðnar á bindiskyldu bankanna, úr 11% í 7%, og tel að þær breytingar séu til bóta. Ég harma það hins vegar að hæstv. fjmrh. skuli ekki vilja taka þátt í þessu samstarfi með því að breyta sköttum vegna gjaldeyrisviðskipta annars vegar og eins færslu afskrifta útlána og lífeyrisskuldbindinga til þess að lækka tekjuskattsstofn bankanna. Hvort tveggja er auðvitað afar mikilvægt fyrir bankana þegar vaxtamunur hefur minnkað eins og nú hefur gerst á undanförnum mánuðum.
    En það var annað mjög athygli vert sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. Enn á ný lýsti hæstv. forsrh. því yfir galvaskur að nú, þegar verðbólgan væri komin í 10% og mundi verða það á næstunni, þá mundi, eða þannig mátti skilja hæstv. ráðherra, þá mundi ríkisstjórnin fylgja eftir þeirri stefnu sinni að afnema vísitölubindingu á fjárskuldbindingum. Það er athygli vert að heyra þessa yfirlýsingu í framhaldi af viðtali við fyrrv. aðstoðarmann hæstv. viðskrh. sem sagði

skýrt og skorinort í blaðaviðtali um daginn að hæstv. forsrh. væri sýknt og heilagt að berjast fyrir þessu máli. Og fyrrv. aðstoðarmaður hæstv. viðskrh. sagði orðrétt þetta, með leyfi forseta: ,,Það vakir auðvitað leynt og ljóst fyrir þeim sem vilja afnema lánskjaravísitöluna að hefja á ný eignaupptöku hjá sparifjáreigendum.`` Nú finnst mér vera fullkomin ástæða til þess að spyrja hæstv. viðskrh.: Er viðskrh. sammála hæstv. forsrh. um að það sé á dagskrá á þessu ári að afnema lánskjaravísitöluna eða er hæstv. ráðherra sammála fyrrum aðstoðarmanni sínum um það að slíkt skuli ekki gert?
    Virðulegur forseti. ( Forseti: Nú vil ég upplýsa hv. þm. um að hæstv. viðskrh. hefur þegar talað tvisvar í þessari umræðu og honum er óhægt um vik að svara fyrirspurnum. Ég vil því biðja hv. þm. að beina fyrirspurnum sínum til annars hæstv. ráðherra.) Ég veit, hæstv. forseti, að það segir skýrum stöfum í þingsköpum hve oft menn mega tala. En ég veit jafn vel og hæstv. forseti að þegar þannig háttar þá hefur hæstv. forseti leyft hæstv. ráðherrum að gera örstuttar athugasemdir og svara slíkum beinskeyttum fyrirspurnum. Í trausti þess tel ég fulla ástæðu til þess að hæstv. ráðherra fái tækifæri til að svara í örstuttu máli þeim fyrirspurnum sem ég hef til hans beint. Það er erfitt að spyrja forsrh. hvað honum finnist um ræðu forsrh. Ég býst við að hann komi hér upp og telji þá ræðu allgóða, eðlilega. En það hlýtur að vera tilefni fyrir hæstv. viðskrh. að segja nokkur orð þegar hæstv. forsrh. er gersamlega á öndverðum meiði við þann mann sem hefur hingað til starfað sem helsti aðstoðarmaður virðulegs og hæstv. viðskrh.
    Það er ekki ástæða fyrir mig að fara mörgum orðum til viðbótar um það mál sem hér er til umræðu. Hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson beindi ýmsum spurningum til 1. flm., hv. þm. Þorsteins Pálssonar. Það eru auðvitað spurningar sem full ástæða er til að gefa gaum. Ég held að það sé ljóst að ekki vakir fyrir flm. þessarar tillögu að leggja til að við gerumst aðilar að evrópska myntkerfinu. Við erum fyrst og fremst að mælast til þess að hv. Alþingi feli ríkisstjórninni að gefa gjaldeyrisviðskipti frjáls í samræmi við
alþjóðlega þróun í þeim efnum til þess að tryggja að Íslendingar taki við sér og breyti sínum reglum til samræmis við það sem annars staðar er að gerast. Og það vakir að sjálfsögðu ekki fyrir t.d. Norðurlandaþjóðunum eða öðrum EFTA-þjóðum að taka upp evrópsku myntina að svo stöddu þótt þær þjóðir séu nú í óðaönn að gera þær breytingar á sínu fjármálakerfi sem lagðar eru til í þessari þáltill.