Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst þetta orðið nokkuð sérstakur vetur, að sitja hér og hlusta á Sjálfstfl. tala um þingsköp. Nákvæmlega ekkert annað en þingsköp, nota þingskapaumræðu og misnota hana og vera steinhættur að snúa sér að málum sem eru á dagskrá hverju sinni, þeim þjóðmálum sem við erum komin hingað til þess að ræða um, heldur festa sig í þingsköpum, ekki talandi til þjóðarinnar, ekki talandi til þingheims, varla talandi hver við annan heldur stöðugt að rífast við bjöllu forseta. Mér finnst nær að sjálfstæðismenn mundu halda sig við efnið og segja þjóðinni frá því hvernig þeir ætla að leysa þann vanda sem við erum hér að glíma við eða segja þjóðinni hvernig hún á að losna undan matarskattinum sem Sjálfstfl. setti á á sínum tíma. ( FrS: Stendur það ekki öðrum nær?) Þó það væru ekki nema eins og tvö, þrjú mál sem Sjálfstfl. mundi einbeita sér að undir forustu fyrrv. framkvæmdastjóra Stjórnunarfélagsins, sem ætti nú að geta leiðbeint félögum sínum í þingsköpum. Og ef það dugir ekki til má benda þeim á að Gunnar Thoroddsen skrifaði mjög merka bók um fundarsköp og þingsköp og væri nú eiginlega hollara fyrir þingflokkinn að lesa hana, ég tala nú ekki um að læra hana utan að, svo þeir væru ekki að flækjast hér hver fyrir öðrum í þingskapaþvælu, daginn út og daginn inn og reyna heldur að halda sig við þau efni sem eru á dagskrá.