Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka góðvild forseta. Hv. 1. þm. Reykv. spurði hvað liði nýjum reglugerðum og auglýsingum um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Mér er ljúft að gefa honum svör við því. Hitt verð ég að segja að broslegt þótti mér að heyra hann segja að hjá hæstv. viðskrh., þeim sem hér stendur, væri mest um tómar yfirlýsingar og færra um framkvæmdir. Ég ætla nú í allri hógværð að leyfa mér að benda hv. 1. þm. Reykv. á að sennilega hafa fá ár verið viðburðaríkari á sviði fjármagnsmarkaðar --- og einmitt orðið þar breytingar sem til framfara horfa --- en á mínum starfstíma í viðskrn. Þetta segi ég án þess að vera að raupa úr ráðuneyti. Hv. 1. þm. Reykv. er þetta vel ljóst. Það sem er náttúrlega skýringin á þessari afstöðu hv. þm. Sjálfstfl. er að þeir eru að reyna að breiða yfir aðgerðarleysi sitt í þessum efnum þann tíma sem þeir fóru með þessi mál.
    Staða málsins sem um er spurt er nú þannig að samin hafa verið drög að nýrri reglugerð og auglýsingu um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála þar sem gert er ráð fyrir umtalsverðum breytingum í frjálsræðisátt í gjaldeyrisviðskiptum strax við gildistöku reglugerðarinnar og enn frekari skrefum í áföngum fram til ársins 1993. Þessi drög eru enn ekki fullmótuð. Þau hafa reyndar verið nokkuð lengi í samningu, síðasta gerð þeirra er frá því í mars, og hefur verið leitað umsagna um þau. Tíminn til þess að láta slíkar reglur ganga í gildi tengist fjölmörgum sjónarmiðum, m.a. þeim hvar við erum á vegi stödd í samningum okkar við önnur ríki, hvernig ferli aðrir fylgja sem við miðum okkur gjarnan við og líka að við lítum á hvenær séu réttar aðstæður til þess að auka frelsi í gjaldeyrismálum. Það er mjög mikilvægt að menn stígi ekki þau skref í þeim efnum sem þeir þurfa að stíga til baka. Jafnvægi þarf að vera ríkjandi í þjóðarbúskapnum og efla þarf innlendan fjármagnsmarkað áður en unnt er að opna hann fyrir erlendri samkeppni. Þessi skilyrði eru nú senn að skapast. Þannig mun nú líða að því að þessar heimildir, rýmri heimildir verði veittar, bæði til þess að taka inn fé og ekki síður að fjárfesta erlendis.
    Þetta eru þau sjónarmið sem ég taldi æskilegt að hér kæmu fram.
    Hv. 1. þm. Reykv. innti mig líka eftir því hvað ég hefði að segja um það sem fram kom í ágætri ræðu forsrh. hér áðan sem ég vona að hafi sannfært hann endanlega um að þessarar þáltill. sjálfstæðismanna, sem út af fyrir sig hreyfir þörfu máli, er alls ekki þörf því málið er í góðum höndum. Eðlilegast er að vísa slíkri till. til ríkisstjórnarinnar í ljósi þeirra upplýsinga sem hér hafa komið fram, bæði frá mér og frá hæstv. forsrh.
    Hvað varðar vísitöluspurninguna þá langar mig til að benda hv. þm. á það að í raun og veru var hæstv. forsrh. eingöngu að vitna til sameiginlegrar stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem síðast var staðfest 10. sept. 1988. Þar segir eitthvað á þá leið að stefnt verði að því að afnema vísitöluviðmiðun í

lánssamningum eins fljótt og unnt er. Miðað verði við að árshraði verðbólgunnar verði kominn niður fyrir 10% á sex mánaða tímabili. Vísitölutenging langtímafjárskuldbindinga verði könnuð sérstaklega. Áfram verði heimilt að gengistryggja lánssamninga --- ef minni mitt þjónar mér. Ég hef þetta ekki við höndina þannig að ég er ekki að vitna orðrétt í málefnasamninginn. En það gefur náttúrlega auga leið að þetta verður mál sem við þurfum að kanna. Eitt mjög mikilvægt skilyrði fyrir þessu er að sjálfsögðu samkeppni frá öðrum löndum, því þannig og aðeins þannig er hægt að tryggja að innlendir sparifjáreigendur geti þá varið sig á þann hátt gegn hugsanlegri verðrýrnun sparifjár á Íslandi. En ef við náum því langþráða markmiði íslenskra efnahagsmála að koma okkar verðlagsmálum á svipað stig og tíðkast í löndunum í kring, þá mun þetta gerast af sjálfu sér og þá verður unnt að hverfa frá vísitöluviðmiðun.