Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég tek það fram að ekki mun ég fremur en fyrr eltast við útúrsnúninga hv. 1. þm. Suðurl., þetta er orðin svona hálfgerð ,,þorsteinska`` hér.
    Ég hef nú haft tíma til að ná í þau gögn sem ég hafði ekki með höndum áðan og ég vildi hafa hér rétt, m.a. dagsetningar. Ég vísa til tilkynningar eða umræðu um efnahagsmál sem ég hóf hér 7. febr. 1989 en það er rétt 6. febr. Ég vil lesa það sem þar er um að ræða svo að það fari ekkert á milli mála. Ég fór með það eftir minni áðan. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Á næstu missirum verða reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli`` --- ég undirstrika það, á grundvelli --- ,,tillagna ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992.``
    Hér er vísað til þess grundvallar sem þar með er lagður en ekki sagt, eins og skilja mátti á hv. 1. þm. Suðurl., að þessu yrði fylgt skref fyrir skref og þess gætt að dragast hvergi og aldrei aftur úr, eins og það var orðað. Hér er verið að tala um breytingar. En það kemur síðan greinilega fram í næstu málsgrein hvað það er sem ríkisstjórnin telur afar mikilvægt til þess að fylgja þessum grundvelli. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin leggur áherslu á að búa íslenska bankakerfið undir breytingar sem munu fylgja sameinuðum fjármagnsmarkaði Evrópu, m.a. með því að auka hagkvæmni þess þannig að það geti staðist samkeppni við erlenda banka hvað varðar vaxtamun, tryggingar og fleira. Í framhaldi af því verður m.a. kannað hvort heimila megi viðurkenndum erlendum bönkum starfsemi hér á landi.``
    Ég lýsti því áðan að að þessu hefði verið unnið, bankar hafi verið sameinaðir. Kannski er það það sem hv. þm. telur 20 ár aftur í tímann. Honum tókst það ekki, hefur ekki tekist að sameina banka. Það er verið að gera það núna. Sömuleiðis vísaði ég til þess áðan að verið er að kanna leiðir til að draga úr vaxtamun og sumu hef ég lýst í dag. Kannski er það skref 20 ár aftur í tímann. Nei, þessi ríkisstjórn mun ekki flana að þessu heldur gera það á grundvelli áætlunarinnar, en þó ekki hraðar en hentar íslensku efnahagslífi, íslensku peningakerfi eins og skýrt er lýst hér. Það getur ekki verið markmið út af fyrir sig að fylgja eins og hundur einhverri þróun sem er á Norðurlöndum. Er það ekki markmið að fylgja þessu eins og okkur hentar, hugsandi, skipulega? Þannig ætlar þessi ríkisstjórn að starfa. Ef það er skref 20 ár aftur í tímann, þá verður það bara að vera það.
    En það var annað sem ég vildi líka leiðrétta. Ég vísaði til þeirrar sömu umræðu þegar ég nefndi óstöðugleikann. Það var rangt. Það kemur fram 10. sept. 1989 í málefnasamningnum og ég vil einnig, til að hafa það rétt, lesa það hér, með leyfi virðulegs forseta:

    ,,Íslenski fjármagnsmarkaðurinn verður aðlagaður breyttum aðstæðum í Evrópu, m.a. með því að rýmka heimildir innlendra aðila til að eiga viðskipti við erlenda banka án ríkisábyrgða og njóta fjármagnsþjónustu þannig að innlendar lánastofnanir fái aðhald. Markmið þessarar aðlögunar er að lækka fjármagnskostnað fjölskyldna og fyrirtækja, enda verði þess vandlega gætt að ekki skapist óstöðugleiki á innlendum fjármagns- og gjaldeyrismörkuðum.``
    Þeir fyrirvarar sem fluttir voru af hálfu fjmrh. á fundi fjármálaráðherra Norðurlanda um þessi mál vörðuðu einmitt þann óstöðugleika sem hér gæti skapast á þessum mikla fjármagnsmarkaði og þetta er tekið hér inn. Ríkisstjórnin leggur áherslu á, og er fullkomlega sammála um það, að hér skuli slíkt frelsi ekki leiða til óstöðugleika. Getur verið að svo varkárir menn sem ég veit þessa hv. þm. Sjálfstfl. vera og vel að sér í fjármálum leggi ekki einnig áherslu á það að hér skapist ekki óstöðugleiki? Ég þekki þessi hv. þm. og ég veit að þeir leggja örugglega áherslu á stöðugleika hér á fjármagnsmarkaði. Ég skil ekki hvers vegna hv. þm. geta ekki skrifað undir þetta. Ég veit að þeir geta það þó að þeir geri það ekki. Ég er viss um að hv. 1. þm. Reykv. mundi mjög gjarnan skrifa undir það að hér skyldi vera stöðugleiki á fjármagnsmarkaðinum og það er það sem þessi ríkisstjórn leggur áherslu á.
    Hæstv. viðskrh. hefur gott minni og fór nokkurn veginn orðrétt með þetta með vísitöluna. Þar er miðað við sex mánaða vísitölu neðan við 10% og við gerum okkur allir vonir um að skjótt stefni að því. Ég vildi sem sagt, virðulegi forseti, hafa þetta nákvæmt í þessari umræðu.