Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala hérna langt mál í tilefni þessarar þáltill. sem hv. þm. Sjálfstfl. flytja um frelsi í gjaldeyrismálum og aðlögun að sameiginlegum fjármagnsmarkaði Evrópuríkjanna. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að það er mjög sérkennilegt að talsmenn flokks sem telur sig á stundum vera að gæta hagsmuna íslensks atvinnulífs skuli koma fram með tillögur af þeim toga sem hér liggja fyrir og enn frekar að byggja þær á rökstuðningi eins og felst í þeirri grg. sem hér liggur fyrir.
    Það þarf kannski ekki að undra sérstaklega þegar haft er í huga hvernig hv. 1. flm. þessarar tillögu skildi við efnahagsmálin eftir að hafa veitt ríkisstjórn forustu í rúmt ár haustið 1988. Þá hafði hv. flm., formaður Sjálfstfl., haldið þannig á málum og hans flokkur haft um það forustu, einnig í ríkisstjórninni sem áður sat og þá í samstarfi við Framsfl., að njörva hér niður gengið í landinu, halda uppi svokallaðri fastgengisstefnu sem var vel á veg komin með að kollvarpa algerlega undirstöðuatvinnuvegum í landinu, útflutningsatvinnuvegunum í landinu með þeim hætti sem allir viðurkenndu þegar komið var í strandið stóra haustið 1988 og eigið fé fyrirtækja í landinu, fyrirtækja í sjávarútvegi var langleiðina brunnið upp og vel það hjá sumum.
    Nú eru þessir hv. þm. að koma fram á Alþingi Íslendinga með tillögur í efnahagsmálum sem eiga að leysa vandann. Og hvernig á að gera það? Jú, það er með því að hengja sig aftan í þróun úti í Evrópu, með því að vísa út í Evrópu þar sem lausnina sé að finna, þar sem verið sé að afnema hömlur fyrir fjármagnið. Það er nú bjarghringurinn sem hv. formaður Sjálfstfl. kastar fram í sambandi við innlent atvinnulíf. Ég ætla honum ekki af ásettu ráði að vilja kippa grundvellinum undan því en ráðin og vitið er einfaldlega ekki meira en fram kemur í þessum tillöguflutningi.
    Ég vil líka vekja athygli á því --- virðulegur forseti, ég hefði kosið að hv. 1. flm. málsins væri hér viðstaddur umræðu um málið. ( Forseti: Forseti skal gera ráðstafanir til þess að hann komi í salinn.) ( FrS: Hv. þm. gæti kannski sagt okkur hvort hann styðji fyrirvarann.) ( Forseti: Hv. 1. þm. Suðurl. er kominn í salinn.) Ég tel rétt að rifja það upp af tilefni þessa tillöguflutnings hér hvernig hv. formaður Sjálfstfl. hefur staðið að tillöguflutningi á vettvangi Norðurlandaráðs sem fulltrúi í því ráði einmitt í sambandi við efnahagsmál. Hann á þar sæti og varamaður hans er hv. 1. þm. Reykv. sem einnig hefur verið á þeim vettvangi. Þar hafa þessir hv. þm. fundið að því að Ísland skuli hafa sett fyrirvara í sambandi við efnahagsáætlun Norðurlanda, fyrirvara sem stendur enn þá óhaggaður. ( ÞP: Ekki segja ráðherrarnir.) Það skiptir engu máli hvað sagt er hér uppi á landinu af einhverjum þegar ljóst er að fyrirvararnir sem settir voru þegar gengið var frá efnahagsáætlun Norðurlanda standa. ( ÞP: Er forsrh.

bara einn?) En það er hins vegar jafnframt rétt að rifja það upp að hv. 1. þm. Suðurl., um leið og hann fann alveg sérstaklega að því að Ísland skyldi setja fyrirvara í sambandi við fjármagnshreyfingar og ýmsa fleiri þætti sem lúta að alþjóðlegu streymi fjármagnsins, þá undirstrikaði hann sérstaklega stuðning sinn við það að afnumdar skyldu algerlega allar hömlur á fjármagnshreyfingum, miklu hraðar en gert var ráð fyrir í hinni upphaflegu efnahagsáætlun Norðurlanda. Það hefur verið farið geyst í þær sakir í sumum skandinavísku landanna. Og hv. þm. Þorsteinn Pálsson vildi bæta um betur að því er ferðina hvað Ísland varðar snertir. Hann vildi ná því að fylgja hinum Norðurlöndunum og afnema allar hömlur á fjármgnshreyfingum fyrir mitt ár 1990.
    Ég held að það væri ágætt fyrir hv. formann Sjálfstfl. og hv. 1. þm. Reykv., fyrrv. varaformann flokksins, að fara í skóla hjá sérfræðingum í fjármálum þessa lands. Það hlýtur að vera hægt að fá áheyrn hjá einhverjum þeirra og spyrja þá hvað þeir segi um þá hagspeki að hér á Íslandi væru afnumdar hér og nú, fyrir 1. júlí 1990, allar hömlur í fjármagnshreyfingum. En það er sú stefna sem forusta Sjálfstfl. hefur undirskrifað á vettvangi Norðurlandaráðs og lagt sérstaka áherslu á. Ég hefði talið það umhugsunarefni fyrir þá sem standa að rekstri í sjávarútvegi á Íslandi að horfa framan í þá stefnu sem Sjálfstfl. þarna boðar.
    Það er svo athyglisvert hvernig máli er hagað hér af hálfu formanns Sjálfstfl., það er athyglisvert. Þegar verið er að reyna að samsama Sjálfstfl. við einhverja ónafngreinda aðila í Framsfl., að ég tali nú ekki um við hæstv. viðskrh. Það er viðleitni af hálfu forustu Sjálfstfl. sem er úti í kuldanum síðan haustið 1988 þegar hún gekk frá atvinnulífi landsins í því horfi sem þá ríkti, það er viðleitni til þess að reyna að komast í volgt ból á nýjan leik. Og við hljótum að taka eftir hér á hv. Alþingi Íslendinga þeim ítrekuðu tilraunum sem gerðar eru til þess að verma upp á milli afla í Framsfl. og Alþfl. og reyna að fá menn til að gleyma vinslitunum frá haustinu 1988.
    Ég ætla hér og nú ekki að leggja neitt sérstakt mat á það. Þetta eru auðvitað tilraunir hjá flokki sem hrökklaðist frá landsstjórninni með þeim hætti sem æskilegt væri að menn myndu hálfu öðru ári síðar og rifjuðu um leið
upp ráðin sem þessir hv. þm. hafa fram að leggja í sambandi við atvinnurekstur á Íslandi og í sambandi við þróun peningamála í landinu í tengslum við alþjóðlegt peningakerfi. Ég hygg að það sé ekki sérstakt fagnaðarefni, virðulegur forseti, fyrir þá sem standa í atvinnurekstri á Íslandi og hafa fengið nokkra leiðréttingu sinna mála vegna þeirrar stefnu sem upp var tekin haustið 1988, þegar byrjað var að rétta af það sem Sjálfstfl. hafði skilið eftir í rúst eftir eins árs stjórnarsetu rösklega, eins árs forustu í ríkisstjórn rösklega.