Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Mér kom mjög á óvart hvernig hv. 2. þm. Austurl. talaði hér áðan með tilliti til þess fyrirvara sem hv. þm. hafði þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu, þegar hann veitti ríkisstjórninni traust á sl. hausti. Þá gerði hann það sérstaklega að umræðuefni hvernig þessi ríkisstjórn hefði brugðist í öllum grundvallaratriðum í sambandi við atvinnuuppbyggingu og atvinnustarfsemi úti á landsbyggðinni. Ég man það áreiðanlega rétt að í ummælum hv. þm. þá fólust harðari og beittari árásir á hæstv. ríkisstjórn en við höfum heyrt af munni flestra þingmanna í þessu virðulega húsi. Það þarf því ekki að fara mörgum orðum um það að hv. þm. talaði með öðrum hætti og á öðrum nótum hér áðan en hann gerði þegar hann veitti ríkisstjórninni traust.
    Árásarefni hv. þm. þá á þessa ríkisstjórn var einmitt að hann taldi að ríkisstjórnin hefði ekki staðið við þau fyrirheit sem hún hafði gefið þegar hún settist að völdum í septembermánuði 1988. Það þarf auðvitað engum manni að koma á óvart því að hæstv. viðskrh. hefur staðfest það í grein í Morgunblaðinu að gengið hafi verið mjög rangt á því hausti, haustinu 1988. Þó liggur það fyrir að formaður og varaformaður Framsfl., hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh., snerust gegn því í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar með beinum tillöguflutningi að gengið yrði fellt þá um haustið.
    Í grein hæstv. viðskrh. í Morgunblaðinu tekur hann skýrt fram að raungengi íslensku krónunnar hafi lækkað um 15--20% síðan haustið 1988. Og það var athyglisvert í viðtali við forráðamenn Seðlabankans í dag að þegar seðlabankastjóri var spurður að því hvort hann teldi raungengi krónunnar nú svo lágt að ástæða væri til að hækka það, þá svaraði seðlabankastjóri því til að það hefðu ekki skapast skilyrði fyrir því að raungengi krónunnar yrði hækkað. Það lýsir hins vegar betur en flest annað því ömurlega umhverfi sem sjávarútvegurinn býr nú við að bæði hæstv. forsrh., ég held ég muni það rétt, og fleiri menn í þessari ríkisstjórn
hafa gert það að alvarlegu álitamáli í fjölmiðlum hvort nú sé svo vel búið að sjávarútveginum að þar sé hætta á stórkostlegri þenslu sem nauðsynlegt sé að bregðast við, ekki með fastgengi heldur með því að hækka gengi krónunnar. Og þetta eru hlutir sem beinlínis hafa verið boðaðir sem liður í þeim efnahagsráðstöfunum sem þessi ríkisstjórn hyggst nú beita sér fyrir.
    Það er líka mjög athyglisvert með hliðsjón af ummælum hv. 2. þm. Austurl. að Alþb. skuli hafa beitt sér fyrir því í sambandi við kvótaumræðurnar að það ákvæði skuli sett inn í hinn nýja fátækrasjóð sjávarútvegsins, sem á að bera nafnið Hagræðingarsjóður, að það eigi að vera opinn möguleiki nú og talin brýn þörf á því að sum byggðarlög fái kvóta á mjög niðursettu verði og jafnvel ókeypis. Það hefur komið fram í þeim viðræðum sem við í sjútvn. höfum átt við hagsmunaaðila að víða á landsbyggðinni stendur

sjávarútvegur höllum fæti. Ég veit ekki betur en að ýmis byggðarlög, ég get nefnt bæjarstjórn Húsavíkur sem mjög glöggt dæmi, hafi sent ríkisstjórninni bréf og erindi þar sem vakin er athygli á því að hver báturinn á fætur öðrum sé nú að komast í greiðsluþrot og útgerðir standi frammi fyrir gjaldþroti, einmitt á þessu landshorni. Sömu sögu er að segja t.d. á Snæfellsnesi og sumum útgerðarstöðum í kjördæmi hv. 2. þm. Austurl.
    Ég vil, af þessu gefna tilefni, þakka hæstv. viðskrh. enn einu sinni fyrir þá síðbúnu játningu hans sem fram kom mjög glöggt í Morgunblaðinu, að hann settist ekki í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar haustið 1988 til þess að rétta hlut útflutningsframleiðslunnar. Það er enn fremur ljóst, ef maður horfir á þau ummæli sem hæstv. viðskrh. viðhafði þegar hann talaði um erfiðleika lagmetisiðnaðarins í Ed., þá tók hann þar skýrt fram að rangt skráð gengi --- þetta voru ekki hans orð, ég held að hann hafi notað orð eins og gengissveiflur eða eitthvað, það er svona lært orð, saklausara og fræðilegra þegar menn eru að reyna að breiða yfir --- eigi ríkan þátt í erfiðleikum lagmetisiðnaðarins sem hefur nú valdið því að grípa á til sérstakra ráðstafana til þess að bæta það tjón, þau gjaldþrot sem lagmetisverksmiðjurnar standa frammi fyrir.
    Það var líka mjög athyglisvert í þeirri grein sem ég vitnaði til og hæstv. viðskrh. sem jafnframt er iðnrh. skrifaði um iðnaðinn, samkeppnisiðnaðinn sem hann sjálfur ber ábyrgð á. Hann fór að hrósa sér af því að hann hefði sagt á ársþingi iðnrekenda að hagur iðnfyrirtækja væri nú góður vegna lækkandi gengis íslensku krónunnar. Í þeim orðum fólst einnig viðurkenning á því að þeir miklu erfðleikar, sem íslensk iðnfyrirtæki standa nú frammi fyrir, sú minnkandi markaðshlutdeild íslenskra iðnfyrirtækja sem við stöndum frammi fyrir þó svo að innflutningur hafi minnkað eins og raun ber vitni, sýnir að þessi ríkisstjórn hefur viljandi stefnt atvinnulífi landsins í voða.
    Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst eiginlega dæmigert fyrir afstöðu þessara tveggja ráðherra sem hér eru til atvinnurekstrarins að þeir skuli báðir geispa þegar talað er um atvinnumálin. Þeim hefði þó verið nær, þessum ágætu mönnum, að horfa á sjónvarpið í dag og hlusta á viðtal sem haft
var við formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur þar sem hann var að lýsa áhyggjum sínum yfir þeim mikla fjölda verslunarmanna sem nú stæðu frammi fyrir atvinnuleysi. Ég held að þessir tveir hæstv. ráðherrar sem hrósa sér svo mjög af því hversu atvinnulífið stendur vel ættu kannski líka að velta fyrir sér þeim miklu uppsögnum sem eru á starfsfólki gróinna fyrirtækja úti á landsbyggðinni og ættu líka að rifja það upp að aðeins hálfur mánuður eða svo er síðan þeir lofuðu tugum milljóna úr ríkissjóði sem aukafjárveitingu til þess að forða byggðarlögum frá bráðum voða til þess að reyna að rétta hlut fyrirtækja sem þeir eru sjálfir búnir að koma á vonarvöl með sinni atvinnustefnu.

    Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég hygg að hv. 2. þm. Austurl. hafi verið utan við sig áðan þegar hann fór að hrósa ríkisstjórninni fyrir stefnuna í atvinnumálunum. A.m.k. er ljóst að það kveður við annan tón hjá honum nú en gerði þegar þjóðin hlustaði á hann gera grein fyrir af hvaða sökum hann treysti ríkisstjórninni nú fyrir jólin.