Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Mér heyrðist hæstv. forsrh. tala um bata í sambandi við íslenskt atvinnulíf. Hann leiðréttir mig ef ég hef misheyrt. Hæstv. ráðherra, sagðir þú það ekki? ( Forsrh.: Það er gífurlegur bati.) Gífurlegur bati, já, einmitt. Ég vildi einmitt fá staðfestingu á því að hann héldi þessu fram vegna þess að ég vil leyfa mér, forseti, að fá að rekja nokkuð í hverju þessi bati er fólginn, hverjir það eru sem framkalla þennan bata í tíð ríkisstjórnar félagshyggju. Ég vildi gjarnan að forseti hlustaði á þetta vegna þess að hann er úr röðum alþýðubandalagsmanna. Ég ætla að rekja nokkuð hvernig ríkisstjórn félagshyggju hefur tryggt þennan svokallaða bata sem hæstv. forsrh. vitnaði til.
    Þessi svokallaði bati ef við lítum á stöðu fiskvinnslunnar felst m.a. í því að genginu hefur verið breytt allverulega á þeim tveim árum sem þessi ríkisstjórn hefur setið að völdum þannig að í gegnum þær gengisbreytingar hefur verið framkölluð kjaraskerðing sem er þess eðlis, eins og hv. þm. Halldór Blöndal vísaði til hér áðan, að núna er meira atvinnuleysi á Íslandi en verið hefur í fjölda ára á þessum tíma. Það segja þeir menn sem eru kunnugir þessum málum að því miður aukist atvinnuleysið nú en minnki ekki þannig að það er ekki batamerki þegar menn horfa upp á það að atvinnuleysi eykst hröðum skrefum og það sem verra er, að atvinnuleysistími þeirra sem lenda í atvinnuleysi hefur lengst mun meira en menn þekkja til áður. Þess eru mörg dæmi að hundruð manna hafa verið atvinnulausir í hálft ár og lengur. Á sama tíma og þetta atvinnuleysi verður á sér stað ... ( Forseti: Má ég aðeins minna hv. ræðumann á að hér er á dagskrá frelsi í gjaldeyrismálum.) Já, það tengist þessu. ( Forseti: Ég bið hv. þingmenn að fara ekki út í almennan eldhúsdag. Almennar stjórnmálaumræður fara hér fram nk. miðvikudag og ég bið menn að halda sig við efnið til að stytta umræður hér.) ( ÞP: Hver opnaði þá
umræðu?) Já, virðulegi forseti. Ég ætlaði að vekja athygli á því að það var hæstv. forsrh. sem opnaði umræðuna um þetta með þeim hætti sem hann gerði hér áðan. Hann gaf tilefni til þess. ( Forsrh.: Ég var að svara hv. 2. þm. Norðurl. e.) Og í framhaldi af svari ráðherra var nauðsynlegt að koma fram með þau atriði sem ég er að koma inn á og ég skal ekki vera mjög langorður, en ég skil vel að virðulegum forseta finnist það óþægilegt, því ég tala um aukið atvinnuleysi, en það sem er kannski enn þá óþægilegra, bæði fyrir virðulegan forseta og hæstv. ríkisstjórn er það að þessi svokallaði bati hefur orðið til við verulega kjaraskerðingu, kaupmáttarskerðingu sem á sér ekki dæmi svo að ekki sé meira sagt í seinni tíma sögu. Ef við lítum á skýrslu í fréttabréfi kjararannsóknarnefndar, þá kemur í ljós að kaupmáttur afgreiðslukvenna rýrnaði frá haustinu 1988 til sama tíma 1989 um hvorki meira né minna en 14,4%. Kaupmáttur þessara láglaunakvenna lækkaði sem sagt um tæplega 15% á einu ári. Verkakonur hafa á sama

tíma lækkað í kaupmætti um 12,2%, skrifstofukonur um 11,0%. Meðalbreyting kaupmáttar frá fjórða ársfjórðungi 1988 til fjórða ársfjórðungs 1989 er 8,8% miðað við viðmiðunarstéttir. Þetta er sá bati sem hæstv. forsrh. var að tala um.
    En ég vil, virðulegi forseti, leyfa mér að benda á annað. Hinn svokallaði bati í grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar, sem eru sjávarútvegur og fiskiðnaður, hefur ekki orðið með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gat um þrátt fyrir gengisbreytingar. Í gegnum Atvinnutryggingarsjóð hafa verið millifærðir 5,5 milljarðar sem munu koma til greiðslu hjá þeim sem hafa fengið þessa millifærslupeninga innan tveggja ára þannig að í þeim efnum var ekki verið að laga heldur fresta vandamálum. Það eru hins vegar aðrir sem eru gæfusamari en þeir sem hafa þurft að leita á náðir Atvinnutryggingarsjóðs.
    Það er líka annar sjóður sem núv. ríkisstjórn hefur notað til að framkalla svokallaðan bata í íslensku atvinnulífi sem lítið hefur verið fjallað um hér á hinu háa Alþingi og það er svokallaður Hlutafjársjóður Byggðastofnunar. Á lista sem ég hef yfir aðgerðir 1989--1990 sést að þessi sjóður hefur framkallað betri stöðu hjá 13 fyrirtækjum upp á 2,5 milljarða. Það eru hinir útvöldu. Það er ekki heildin. Það eru hin útvöldu fyrirtæki sem eru þóknanleg núverandi valdhöfum. Og ég verð, virðulegi forseti, vegna þess að þrátt fyrir gengisbreytingar, en það er verið að tala m.a. um það hvort hægt sé að laga og styrkja stöðu íslensks atvinnulífs með því að tengjast öðrum löndum með öðrum hætti í sambandi við gengisskráningu og gengisviðmiðanir, þá verð ég að vekja athygli á þessu þar sem þetta tengist því máli. Þessi 13 fyrirtæki sem hafa fengið sérstaka fyrirgreiðslu og stuðning úr Hlutafjársjóði --- ég vildi nú gjarnan að hv. þm. hlustuðu á þetta ef þeir mega vera að því, ég held að hv. þm. Halldór Blöndal hefði gott af því ( Gripið fram í: Já. Heyr.) ef nokkuð á þá að vera að marka það sem sagt hefur verið. En það er allt í lagi, ég skal gefa hv. þm. þetta blað á eftir ef hann vill. Í gegnum þennan sjóð hafa 13 fyrirtæki fengið sérstaka fyrirgreiðslu sem m.a. felst í því --- virðulegi forseti, ég held að nauðsynlegt sé að koma með þetta því ég er ekki viss um að hæstv. forsrh. geri sér grein fyrir hvað þetta getur haft mikil áhrif, að
svona millifærslur munu náttúrlega ekki líðast eða verða við lýði þegar Íslendingar hafa tengst öðrum þjóðum með þeim hætti sem sú tillaga gerir ráð fyrir sem hér er til umfjöllunar. ( Forseti: Það breytir því ekki, hv. þm., að tími ræðumanns er búinn.) Ég gerði mér ekki grein fyrir því. En ég held að það væri vont fyrir virðulegan forseta ef ég fengi ekki að gera grein fyrir þessum tölum því það yrði litið þannig á það, held ég ... ( JSS: Það skiptir engu máli.) Nei, það skiptir ekki máli, sagði hv. stjórnarþingmaður Jón Sæmundur Sigurjónsson, með tilliti til þess, af því að ég ber mikla virðingu fyrir forseta og þetta eru nú tveir stjórnarsinnar, þá held ég að sé ágætt að
hv. þm. fái að heyra þessar tölur, hvernig 2,5 milljarðar renna til 13 valinna fyrirtækja á Íslandi í

formi óafturkræfrar eftirgjafar eða niðurfellingar krafna og með hlutafjársjóðsaukningu. Ég nefni sem dæmi aðeins eitt fyrirtæki á Vestfjörðum. Það fékk við þessa tilfærslu lagfæringu upp á 296 millj. (Gripið fram í.) Hæstv. forsrh. býður upp á það að ég lesi hér upp þessi 13 fyrirtæki. Ég mótmæli því, forseti, að hæstv. forsrh. sé með stráksskap hér og tali um fyrirtæki eins og Granda sem er ekki á þessum lista. Raunverulega neyðir hæstv. forsrh. mig til að lesa upp hvaða fyrirtæki það eru sem hafa fengið þessa fyrirgreiðslu. --- Ætlar virðulegur forseti að láta það sannast ... ( Forseti: Forseti hlýtur að fara fram á að ræðumaður skilji að forseti getur ekki mismunað hv. þm. svo gróflega. Hv. þm. hefur átta mínútur fyrir ræðu sína. Hann hefur þegar talað í tíu mínútur og forseti hlýtur að benda honum á að ræðutími hans er búinn fyrir tveimur mínútum.) Virðulegur forseti ætlar sem sagt að þóknast hæstv. forsrh. sem var hér með óbeina aðdróttun að fyrirtæki sem er ekki á þessum fyrirgreiðslulista og nefndi Granda. (Gripið fram í.) Ég var að tala um Hlutafjársjóð, hæstv. forsrh. Og ef virðulegur forseti þolir ekki að heyra það hvernig hann hefur staðið að málum með stuðningi sínum við hæstv. ríkisstjórn um að færa 2,5 milljarða til 13 tiltekinna fyrirtækja þá held ég, virðulegi forseti, að ég muni óska eftir því hér á eftir að fá að fjalla um þessi mál á grundvelli þingskapa ( FrS: Hann má tala aftur.) og ég má tala aftur eins og hv. 1. þm. Reykv. bendir á. Ég bendi virðulegum forseta á það að það tekur mig eina mínútu að lesa upp nöfn þessara fyrirtækja. ( Forseti: Geti forseti treyst því að það taki eina mínútu er það hér með leyft, fyrir vináttu sakir og frændsemi.) Ekki vissi ég að virðulegur forseti væri frændi minn. Þá tala ég nú bara eins og mér sýnist. Það er gott að vita það að maður skuli eiga forseta að í landi frændsemi og vináttu.
    Samkvæmt þessum lista hafa eftirtalin fyrirtæki fengið þessa fyrirgreiðslu og stuðning hjá Hlutafjársjóði upp á 2,5 milljarða: Hraðfrystihús Grundarfjarðar hf., Fiskvinnslan á Bíldudal hf., Fáfnir hf., Þingeyri, Fiskiðjan Freyja hf., Suðureyri, 296 millj., Hraðfrystihús Ólafsfjarðar hf., Hraðfrystistöð Þórshafnar hf., Tangi hf., Vopnafirði, Hraðfrystihús Stöðvarfjarðar hf., Hraðfrystihús Breiðdælinga hf., Búlandstindur hf., Djúpavogi, Hraðfrystihús Stokkseyrar hf., Alpan hf., Eyrarbakka og Meitillinn hf., Eyrarbakka, með 269 millj. Fyrirtækið Grandi er þess vegna ekki á þessum lista en þetta gefur tilefni til þess, virðulegi forseti, að þetta mál verði tekið upp síðar.