Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Mér sýnist eins og hæstv. forseta þyki umræðan vera að fara hér eitthvað úr böndum og menn séu farnir að tala um eitthvað annað en dagskrárefnið segir til um en ég vil benda á að það eru stjórnarliðar sem gefa tilefni til þess að fara svona nokkuð vítt og breitt yfir sviðið.
    Það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem urðu þess valdandi að ég bað um orðið. Hann, eins og margir aðrir stjórnarsinnar, talar gjarnan um viðskilnað ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og ræðir það hvað hafi orðið henni að falli og þá er einmitt talað um fastgengisstefnuna sem þá var rekin. Mér sýnist eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, eins og margir fleiri stjórnarliðar, sé farinn að trúa því í raun og veru að eitthvað allt annað en raunverulega gerðist hafi orðið þess valdandi að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sagði af sér. Hv. þm. virðist ekki lengur vita að það voru Framsfl. og Alþfl. sem neituðu að fallast á tillögur Þorsteins Pálssonar og Sjálfstfl. um breytingar á genginu haustið 1988. Það voru einmitt þeir flokkar, samstarfsflokkar Sjálfstfl. þá, sem vildu fara millifærsluleiðina og þeir fundu einmitt félagann til þess að taka þátt í þeim leik þar sem var Alþb. Ég er viss um að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson veit þetta þó að honum þyki hæfa að segja allt annað í dag.
    Annað atriði nefndi hv. þm. sem mér skilst að hafi reyndar komið áður fram í þessum umræðum þótt ég hafi ekki heyrt það og það var sú fullyrðing hans, þegar hann var að ræða um efnahagsáætlun Norðurlanda, að fyrirvari ríkisstjórnar Íslands stæði enn. Fyrirvari ríkisstjórnar Íslands stæði enn, sagði hv. þm.
    Nú skilst mér að hæstv. ráðherrar, bæði forsrh. og viðskrh., hafi talað tvisvar og jafnvel þrisvar --- ( Gripið fram í: Þrisvar.) Þrisvar? --- og megi þess vegna alls ekki tala aftur þrátt fyrir lipurð hæstv. forseta sem er nú alkunn hérna. (Gripið fram í.) Nei, en lipurð forsetans er vel kunn hér í þingsölum og ég get ekki ætlast til þess að hæstv. forseti leyfi þeim að tala í fjórða skiptið, en stundum er sagt svona eitt og eitt orð úr sætinu og mér dettur í hug að spyrja hæstv. viðskrh. hvort hann geti ekki sagt með bara einu jái eða einu neii úr sæti sínu hvort þessi fyrirvari standi enn. Stendur fyrirvari ríkisstjórnar Íslands enn? ( Viðskrh.: Eins og fram hefur komið, virðulegur þm., þá skiptir hann ekki lengur máli.) Hann skiptir ekki lengur máli. Á svona venjulegu mannamáli mundi þetta þýða það að hann stæði ekki enn. ( ÞP: En stæði þó samt.) Já kannski. ( Gripið fram í: Hver er niðurstaðan?) Ja, niðurstaðan eftir mínum skilningi er þessi: Ég tek meira mark á hæstv. ráðherra en á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og fyrirvarinn stendur ekki enn.
    Eitt atriði enn kom fram í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Það kemur í sjálfu sér þessu dagskrárefni ekkert við en gefur tilefni til þess að sögð séu örfá orð um það og það var þessi fullyrðing

hans eða frásögn, hvað eigum við að kalla það, að nú væru mjög áberandi ítrekaðar tilraunir afla í Framsfl. og Alþfl., að því að mér skildist, til að reyna að ná aftur stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. --- Var það ekki rétt skilið? ( Gripið fram í: Er þetta ekki öfugt?) Að það sé öfugt? Að það sé Sjálfstfl. sem sé að reyna að koma þeim til, Alþfl. og Framsfl.? Ég get fullyrt við hv. þm. Hjörleif Guttormsson að svo er ekki og þekkjum við þó vel lauslæti þessara flokka. Við höfum hins vegar tekið mark á yfirlýsingum þeirra, ýmissa aðila í stjórnarflokkunum núverandi, að þeir hyggist endurnýja þetta samstarf eftir kosningar. Það má hins vegar vel vera að einhvers vafa sé farið að gæta hjá sumum þeirra um að þeir hafi nú nauðsynlegan meiri hluta eftir kosningar til þess að endurnýja þetta elskulega samstarf sem á milli þeirra er og ég er ekki frá því að þeir í Framsfl. og Alþfl. séu farnir að hafa nokkrar áhyggjur af örlögum Alþb. og hvort eftir nokkru sé að slægjast eftir næstu kosningar, en þar mættu þeir kannski líka líta í eigin barm.
    Hæstv. forseti, ég þarf ekki að hafa þetta lengra, ég hef fengið, að því að mér finnst, nokkuð skýr svör við því hvort fyrirvarinn stendur.