Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Vegna þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu vil ég gjarnan skýra frá því hvernig ætlað er að standa að staðarvali fyrir nýtt álver í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir milli Íslands og þriggja erlendra álfélaga, þ.e. félaganna Alumax frá Bandaríkjunum, Grangers frá Svíþjóð og Hoogovens frá Hollandi.
    Þegar samkomulag var gert þann 13. mars sl. við þessi félög um verkáætlun fyrir samningagerð þeirra var ákveðið að stefna að því að ljúka staðarvalsákvörðun um mánaðamótin maí/júní. Það hefur ekki verið tekin nein ný ákvörðun í þessu máli, en auðvitað verður efnið að ráða því. Hér er um tímasetningu að ræða sem ekki verður neitt rígnegld. Það verður ekki neinn fyrir fram ákveðinn dómsdagur í því máli. Það verður einfaldlega að ráðast. En við miðum alla vinnuna við að geta tekið slíka ákvörðun sameiginlega þegar þessi tími rennur upp.
    Starfið er í því fólgið að gera nákvæman samanburð á stofn- og rekstrarkostnaði álvers á eftirtöldum fjórum svæðum á landinu: Við Eyjafjörð, við Hvalfjörð, við Reyðarfjörð og á Reykjanesi og þá er átt við Reykjanesið allt frá Straumsvík að Þorlákshöfn. Samanburðarathuganir munu líka ná til annarra þátta en ég hef nefnt, til efnisflutninga, launa, flutninga á verkafólki, reksturs vinnubúða, kostnaðar við birgðarými, uppskipunartækja, áhrifa veðurs á framkvæmdir. Auk þess verður gerð athugun á kostnaði við hafnargerð og orkuöflun, línutengingar, umhverfisáhrif og umhverfisaðstæður, dreifingarspá fyrir vinda sem leika um væntanlegt verksmiðjustæði. Þetta eru umfangsmiklar athuganir og að því er stefnt á næstu vikum að Atlantsálshópurinn muni í samstarfi við íslenska fulltrúa leggja sjálfstætt mat á alla þessa þætti. Staðsetningin verður svo ákveðin þegar niðurstöður úr þessari samanburðar- og kostnaðarathugun liggja fyrir. Eins og ég sagði áðan er að því stefnt að það verði um mánaðamótin maí/júní.
    Eins og ég hef þegar sagt þá er staðarvalið hluti af heildarsamningum um álverið. Af Íslands hálfu verður lögð áhersla á að staðarvalið stuðli að jafnvægi í atvinnu- og byggðaþróun um leið og tillit verði tekið til arðsemis- og umhverfissjónarmiða. Eins og þm. er kunnugt þá hefur ríkisstjórnin gert um þetta mál sérstaka samþykkt. Hún er á þessa leið, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Í framhaldi af viðræðum við Atlantal-aðilana og undirritun yfirlýsingar um byggingu nýs álvers, dags. 13. mars sl., og vegna umræðu sem fram hefur farið í landinu um staðarval fyrir nýtt álver lýsir ríkisstjórnin því yfir að af hennar hálfu verður lögð rík áhersla á að staðarvalið stuðli að jafnvægi í atvinnu- og byggðaþróun auk þess sem tekið verði tillit til arðsemis- og umhverfissjónarmiða.``
    Ég tel ekki hyggilegt, sem almenna reglu, að ganga til þessara mikilvægu samninga þannig að niðurstaðan um einn þátt sé fyrir fram ákveðin af öðrum

aðilanum. Ég hef ekki í hyggju að tjá mig nánar um staðsetningu hins nýja álvers á þessu stigi máls og tel þegar af þeirri ástæðu ekki tímabært að álykta í þá veru sem hér er gerð tillaga um. Í því felst ekki fyrir fram nein afstaða til þess hvar hið væntanlega álver skuli rísa, eingöngu það sjónarmið að þegar menn standa í samningum af þessu tagi skuli þeir ekki að óþörfu binda sig fyrir fram.
    Vegna þeirrar spurningar sem hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín vegna frétta í Dagblaðinu þá bið ég hann að taka Dagblaðsfréttirnar með eðlilegum fyrirvara og saltkorni um að þar kunni kannski ekki allt að vera rétt fram sett eða e.t.v. ekki í því samhengi sem æskilegt væri til að fá heildarmynd af málinu. Með þessu er ég alls ekki að gagnrýna blaðamanninn sem fréttina samdi heldur eingöngu að benda á eðli dagblaðafrétta.
    Um málið er reyndar ekki meira að segja. Það er svo sannarlega óhætt að segja að Eyjafjörður sé sterklega inni í myndinni.