Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur fyrir felur í sér ákveðna stefnumörkun í þessu efni. Hitt er jafnljóst að hér er um að ræða samninga milli tveggja aðila og endanleg niðurstaða í þessu efni fæst auðvitað ekki fyrr en þeir samningar liggja fyrir. Það er kórrétt hjá hæstv. iðnrh. Á hinn bóginn geta samningsaðilar sett sér eðlileg markmið í þessu efni. Sú tillaga sem hér er til umræðu miðar að því að Alþingi taki ákvarðanir um markmið í slíkum samningum.
    Ég hlýddi á hv. 6. þm. Norðurl. e. í fyrri hluta þessarar umræðu en hann er formaður eins stjórnarflokkanna. Hann mælti mjög eindregið gegn öllum áformum um að reisa áliðjuver í landinu og hefja hér að nýju átak í virkjun fallvatna og samningum um orkufrekan iðnað. Það urðu um þetta mál allmiklar deilur þegar hæstv. ríkisstjórn var mynduð. Í upphafi setti Alþb. fram þá kröfu að fá inn í stjórnarsáttmála ákvæði um neitunarvald þess í þessum efnum. Mig rekur minni til að Alþfl. hafi hafnað því. Hæstv. forsrh. vildi eigi að síður tryggja aðild Alþb. að ríkisstjórninni og lýsti því yfir að hver stjórnarflokkur hefði neitunarvald um þau þingmál sem tillögur væru gerðar um að flutt yrðu á vegum hæstv. ríkisstjórnar. Með því móti fengi hver aðili að ríkisstjórninni neitunarvald þegar flytja þyrfti þingmál í þessu efni því til staðfestingar sem áform voru og eru uppi um.
    Það hefur ekki farið milli mála að Alþb. hefur litið svo á, á grundvelli þessarar yfirlýsingar, að það hefði neitunarvald í þessu efni. Nýleg ræða hæstv. menntmrh. í umræðum í Ed. bendir til þess að Alþb. haldi öllum dyrum opnum í því efni. Ég ætlaði ekki að eyða mörgum orðum um það efni. En vegna þess að formaður eins stjórnarflokkanna, minnsta stjórnarflokksins að vísu, lýsti svo eindreginni andstöðu við þessi áform þá langar mig til að beina þeirri fyrirspurn til hans hvort það neitunarvald sem hæstv. forsrh. tryggði einstökum stjórnarflokkum taki ekki til hans flokks.
    Nú er það svo að þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð að hluta til og kannski fyrst og fremst vegna atbeina hv. 6. þm. Norðurl. e., formanns Samtaka um jafnrétti og félagshyggju. Hann tryggði hæstv. ríkisstjórn þau atkvæði sem í fyrstu voru kallaðir huldumennirnir og kostuðu hæstv. ríkisstjórn ekki krónu í upphafi en hafa á síðari stigum kostað í hrossakaupum nokkra tugi milljóna og skattborgarana nokkra milljarða. En nú er svo komið að þessi formaður eins ríkisstjórnarflokkanna lýsir hér harðri andstöðu í þessu efni. Þess vegna vildi ég gjarnan fá að heyra það af hans hálfu í þessari umræðu, af því tilefni sem ræða hans gaf, hvort þetta neitunarvald eigi ekki við um hann en einungis aðra flokka sem standa að þessari hæstv. ríkisstjórn.