Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. beindi þeirri áskorun til mín að taka þessa spurningu upp við hæstv. forsrh. Þess vegna óska ég eftir því, frú forseti, að hann verði kallaður til þessarar umræðu.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé í hæsta máta óeðlilegt þegar um svo mikilvægt mál er að ræða að einn stjórnmálaflokkur, sem hefur átta eða níu þingmenn eins og Alþb., fái neitunarvald um framgang mála þegar ætla má að mjög víðtæk meirihlutasamstaða sé í þinginu. Þess vegna hef ég ávallt talið mjög óeðlilegt af hæstv. forsrh. að hafa gefið þessa yfirlýsingu til handa Alþb. Þvert á móti hefði verið eðlilegt af hálfu hæstv. forsrh. að lýsa því yfir að í þinginu mætti mynda sérhvern meiri hluta um þetta mikla framfaramál. En því óeðlilegra þætti mér ef allra minnsti stjórnarflokkurinn fengi neitunarvald um þetta efni. Nú hefur formaður þess flokks lýst því hér yfir að á það muni reyna innan tíðar hvort þetta neitunarvald sé fyrir hendi.
    Því óska ég enn eftir því, frú forseti, að gefnu þessu tilefni frá einum helsta forustumanni ríkisstjórnarflokkanna, að hæstv. forsrh. svari fyrirspurnum sem hafa verið lagðar fram í þessari umræðu áður en henni lýkur.