Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Ég skal freista þess að koma þessum spurningum á framfæri í eins stuttu máli og nokkur kostur er. Tilefnið var það að hv. 6. þm. Norðurl. e., sem er formaður minnsta stjórnarflokksins, Samtaka um jafnrétti og félagshyggju, lýsti mjög eindreginni andstöðu við öll áform um að reisa hér álver í samvinnu við útlendinga, reyndar af hvaða tagi sem eru, fyrst og fremst vegna mengunarhættu. Þá minntist ég þess þegar hæstv. ríkisstjórn var mynduð að sett var fram krafa fyrst af hálfu Alþb. um að fá inn í stjórnarsáttmála ákvæði um neitunarvald varðandi nýja álverksmiðju. Því var hafnað, að því er mig minnir, af Alþfl. en hæstv. forsrh. lýsti því þá yfir að sérhver þingflokkur sem stæði að ríkisstjórninni hefði eðli máls samkvæmt neitunarvald um sérhvert það þingmál sem tillaga væri gerð um að borið væri fram af ríkisstjórninni og því hefði Alþb. slíkt neitunarvald. Á þeirri forendu kom Alþb. til stjórnarþátttöku.
    Nú lýsti ég því líka yfir að ég teldi mjög óeðlilegt þegar svo mikilvæg mál væru í húfi að jafnlítill flokkur og Alþb. fengi neitunarvald í þessu efni og jafnvel hindraði meiri hluta á Alþingi þó að hann gengi þvert á þau bönd sem skilja milli ríkisstjórnarflokka og stjórnarflokka. Ég tel það ólýðræðislegt. En þetta lá fyrir og ráðherrar Alþb. hafa enn ítrekað að þeir hafi þennan rétt og halda öllum dyrum opnum í því efni.
    Af þessu gefna tilefni vegna ræðu hv. 6. þm. Norðurl. e. þá innti ég hann eftir því hvort flokkur hans, sem er minnsti flokkur stjórnarsamstarfsins, hefði slíkt neitunarvald. Í svari hv. þm. kom fram að á það mundi reyna innan tíðar hvort það væri fyrir hendi. Jafnframt beindi hv. þm. því til mín að eðlilegt væri að ég bæri þessa spurningu upp við hæstv. forsrh. Það var þess vegna sem ég, að þessari áskorun fenginni, óskaði eftir því að hæstv. forsrh. kæmi í þingsal og svaraði þessari spurningu:
    Gildir það sama um minnsta stjórnarflokkinn í þessu samstarfi, Samtök jafnréttis og félagshyggju, og aðra flokka, að sérhver flokkur hafi neitunarvald um mál eins og þetta og þá hugsanlega önnur sem tillögur eru gerðar um innan stjórnarsamstarfsins? En fyrst og fremst lýtur spurningin þó að þessu máli, álverksmiðjunni. Gildir það sama um minnsta stjórnarflokkinn og aðra, þar á meðal Alþb?