Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Eins og hv. 1. þm. Suðurl. veit þá hefur það ætíð tíðkast í stjórnarsamstarfi að mál eru ekki borin fram sem stjfrv. nema aðilar að ríkisstjórninni standi allir að því. Vitanlega getur komið að því að einhver flokkur verði að gera það upp við sig ef hann neitar hvort hann vilji þá styðja ríkisstjórn. Ef hann neitar er sú ríkisstjórn þar með fallin. Þetta er eðli málsins að sjálfsögðu. Ef mál sem þetta á að flytja sem stjfrv. verður það að sjálfsögðu einnig lagt fyrir stuðningsmann ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Stefán Valgeirsson. Ef hann vill ekki styðja það, en aðrir í ríkisstjórninni vilja styðja slíkt frv. og ríkisstjórnin nýtur þar með áfram meiri hluta á Alþingi, kann að vera að hann verði að gera það upp við sig hvort hann vill hætta stuðningi við ríkisstjórnina af þessum sökum. En það sviptir að sjálfsögðu ekki grundvelli undan meiri hluta ríkisstjórnarinnar á Alþingi. Svo það gildir nú, vil ég segja í fullri hreinskilni, dálítið annað ef ríkisstjórnin hefur áfram nægan meiri hluta á Alþingi.