Sakaskrá
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um breytingar á sakaskrá. Till. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að undirbúa breytingar á reglum um sakaskrá þannig að framvegis verði brot felld brott úr sakaskrá þegar þau hafa ekki lengur ítrekunaráhrif. Verkinu verði lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Það er ekki ástæða til að hafa um þetta mörg orð, virðulegi forseti. Í greinargerð segir: ,,Brot manna og dómar eru færðir á svokallaða sakaskrá og sakavottorð gefin út með hliðsjón af henni þegar þörf krefur. Þannig eru oft gamlir dómar árum og áratugum saman á sakaskrá fólks þó að svokölluð ítrekunaráhrif gildi ekki lengur, þ.e. að dómarnir hafi ekki lengur áhrif á þyngd næstu dóma. Ítrekunaráhrifin fyrnast á fimm árum.
    Þess vegna er lagt til að dómar falli út af sakaskrá fólks eftir fimm ár eða þegar ítrekunaráhrif dóma fyrnast.``
    Þetta er nú einkum gert til þess að menn sem hafa kannski hlotið marga dóma, sem stundum kemur fyrir á vissu æviskeiði manna, og vilja snúa við blaðinu og hefja nýtt líf séu ekki með á bakinu 1--3 blaðsíður af dómum árum og jafnvel áratugum eftir að þeir hafa fengið þá. Sú er hugsunin á bak við þessa tillögu.
    Að þessu mæltu, forseti, mæli ég með að þetta fari til seinni umr. og hv. allshn.