Sala eigna á nauðungaruppboðum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér till. til þál. um sölu eigna á nauðungaruppboði. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að undirbúa og leggja fram frv. um að fasteignir manna séu ekki seldar langt undir markaðsverði á nauðungaruppboðum heldur verði þess freistað að selja þær á frjálsum fasteignamarkaði. Verkinu verði lokið fyrir þingbyrjun haustið 1990.``
    Ég skal fara hratt á hæli í gegnum greinargerðina en í henni segir:
    ,,Í því slæma efnahagsástandi sem ríkt hefur að undanförnu hefur nauðungarsala aukist og meiri harka færst í viðskipti. Þess eru dæmi að fólk hefur misst fasteignir sínar á nauðungaruppboðum fyrir mun lægra verð en fengist hefði með frjálsri sölu á almennum markaði.
    Fyrir bragðið fá kröfuhafar oft minna í sinn hlut og þolendur sitja eftir með skuldir sínar ógreiddar en eignalausir. Þriðji aðili utan úr bæ fleytir rjómann af þessum viðskiptum og hagnast á kostnað hinna tveggja.
    Því er hér lagt til að fógetar og aðrir uppboðshaldarar geti leitað eftir frjálsri sölu á fasteignum ef þau boð sem koma á nauðungaruppboðum eru langt undir sannanlegu og eðlilegu markaðsverði eignar á hverjum tíma.``
    Virðulegi forseti. Ég mæli með því að tillagan fari til síðari umr. og til hv. allshn.