Frsm. landbn. (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Landbn. hefur lagt fram nál. um frv. til laga um breyting á lögum um varnir gegn plöntusjúkdómum. Nefndin varð sammála um afgreiðslu málsins.
    Nefndarálitið er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin hefur athugað frv. Fjallar það um innheimtu sérstaks gjalds af öllum innfluttum plöntum til að standa straum af kostnaði við eftirlit með slíkum innflutningi. Komu eftirtaldir á fund nefndarinnar: Sigurgeir Ólafsson og Þorsteinn Tómasson frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Bjarni Helgason og Kjartan Ólafsson frá Félagi garðyrkjubænda, Sigurður Moritzson frá Blómamiðstöðinni hf., Bjarni Finnsson frá Brum hf., Valdimar Jónasson frá Sölufélagi garðyrkjumanna, Kolbeinn Ágústsson frá Hagkaupum hf. og Þórarinn V. Þórarinsson frá Vinnuveitendasambandi Íslands.
    Nefndin leggur til að gildistökuákvæði þessa lagafrv. verði frestað til 1. jan. 1991. Jafnframt leggur nefndin áherslu á að við álagningu eftirlitsgjalds þess, er frv. fjallar um, þann 1. jan. 1991, verði kappkostað að halda gjaldinu í lágmarki til þess að það hafi ekki áhrif á þróun vöruverðs í landinu.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.``
    Einn nefndarmanna, Þorv. Garðar Kristjánsson, var fjarverandi við afgreiðslu málsins.