Skipan prestakalla
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Við ræðum nú hér hið merkasta frv. um skipan prestakalla og prófastsdæma og starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Eins og kom fram hjá hv. frsm. allshn. þá hefur legið mikið starf að baki þessu frv. sem við nú ræðum. Það hefur lengi verið á undirbúningsstigi og á vegum kirkjunnar. Það er þannig að kirkjan hefur haft fyrir sið að undirbúa mjög vel og rækilega þau mál sem til hennar kasta hafa komið og varða hana. Ég vil meina að það sé til fyrirmyndar og það gerir störf Alþingis líka auðveldari þegar það fjallar um slík mál sem þetta frv. hér er.
    Frv. er víðtækt eins og fyrirsögnin gefur til kynna. Það er um skipan prestakalla og prófastsdæma í landinu, ákvæði um sérþjónustu presta, ákvæði um skipun og setningu í prestsembætti og embættisgengi presta, ákvæði um réttarstöðu presta og starfsskyldu þeirra, ákvæði um skipun og starfsskyldu prófasta, svo eitthvað sé nefnt. Eru þetta meginatriði fyrir utan þau ákvæði sem varða biskupsembættið sjálft. Ég ætla ekki að fara að ræða þessi atriði. Það hefur verið gerð rækilega grein fyrir þeim af hæstv. kirkjumrh. þegar hann mælti fyrir þessu frv. En ég vil sérstaklega lýsa ánægju minni á því atriði sem varðar vígslubiskupa og embætti þeirra.
    Það er lagt til að vígslubiskupar verði tveir, eins og nú er. Hins vegar er lagt til að embætti þeirra verði efld verulega og þannig gert ráð fyrir að vígslubiskupsembættið verði fullt starf. Þá er lagt til að vígslubiskupar hafi aðsetur á hinum fornu biskupssetrum, Skálholti og Hólum.
    Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með þetta. Þó er ekki að mínu viti fullgert í þessu efni. Ég hef oftar en einu sinni lýst þeirri skoðun minni, varðandi þessi mál, að hin rétta skipan væri sú að við tækjum upp hina fornu skipan og hefðum tvo biskupa í landinu. Annars vegar Skálholtsbiskup og hins vegar Hólabiskup. Þó að þetta frv. leggi það ekki til þá sýnist mér að þetta
sé í áttina að því að viðurkenna það sjónarmið sem ég hef ítrekað haldið fram hér á Alþingi. Mér kæmi ekki á óvart að það mundi verða svo í framtíðinni að tekin verði upp algjörlega hin forna skipan í þessu efni. Ég ætla ekki að fara að ræða það sérstaklega núna og ekki ætla ég að bera fram neinar brtt. í þessu efni. Ég lýsi ánægju minni með þessa þróun.
    Ég hef ekki að athuga við þær brtt. sem allshn. hefur gert við frv. og skal þess vegna ekki fjalla um það. En mig langar til þess að víkja nokkrum orðum að nokkrum atriðum sem varða sérstaklega mitt kjördæmi, Vestfjarðakjördæmi. Það eru nokkur atriði sem ég vildi aðeins víkja að og það eru nokkrar breytingar sem varða fólkið sem býr þar.
    Með þessu frv., ef að lögum verður, er lagt til að Múlasókn í Barðastrandarprófastsdæmi sameinist Gufudalssókn í sama prófastsdæmi. Enn fremur er lagt til að Staðarsókn í Grunnavík í Ísafjarðarprófastsdæmi sameinist Hólssókn í Ísafjarðarprófastsdæmi. Ég vík aðeins að þessu til þess að lýsa yfir að ég tel að þetta

sé sjálfsögð ráðstöfun og ekkert frekar um það að segja.
    Samkvæmt frv. er eitt prestakall í Vestfjarðakjördæmi lagt niður og eitt prestakall stofnað. Sauðlauksdalsprestakall er lagt niður og stofnað Tálknafjarðarprestakall. Í Sauðlauksdalsprestakalli hafa verið Sauðlauksdalssókn, Saurbæjarsókn, Brjánslækjarsókn, Hagasókn og Breiðavíkursókn. Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að af þessum sóknum falli Sauðlauksdalssókn, Breiðavíkursókn og Saurbæjarsókn undir Patreksfjarðarprestakall. Ég minnist á þetta, ekki til þess að gagnrýna þetta, ég held að þetta sé rétt ráðstöfun. Þó að okkur sé sárt um að lagt sé niður prestakall þá kemur á móti að það er stofnað nýtt prestakall þar sem er Tálknafjarðarprestakall. Það er í alla staði eðlilegt að stofna prestakall, þar sem ekki er prestakall fyrir á þessum þéttbýlisstað sem er mjög vaxandi. Til þessa nýja prestakalls er gert ráð fyrir að falli, auk Stóra-Laugardalsprestakalls í Tálknafirði, Haga- og Brjánslækjarsóknir í Sauðlauksdalsprestakalli.
    Ég hef aðeins heyrt ávæning af því að það eru til menn í þessum sóknum á Barðaströndinni sem telja eðlilegra að þessar sóknir hefðu verið sameinaðar Patreksfjarðarsókn. Það eru ástæður fyrir því samgöngulega og fleiri atriði sem hafa verið nefnd við mig. En ég vil að það komi hér fram, ég hef ekki orðið var við mikinn baráttuvilja eða sókn í þessa átt af hálfu fólksins á þessum stað. Það eru auðvitað sterk rök fyrir því að hafa þá skipan sem frv. leggur til.
    Þá vil ég aðeins víkja að Prestsbakkaprestakalli vegna þess að það hafa verið uppi hugmyndir um það að leggja þetta prestakall niður. Það er tekið fram í grg. með frv. að nefndin sem upphaflega samdi frv. hafi lagt til að Prestsbakkaprestakall yrði lagt niður. En frv. gerir ekki ráð fyrir því. Frv. gerir ráð fyrir því að Prestsbakkaprestakall standi áfram og það eru gild rök fyrir því. Við þm. Vestf. höfum verið áminntir um það. Í bréfi frá oddvita
Bæjarhrepps, Þorsteini Elíssyni, um þetta efni segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég vil vekja athygli ykkar, þingmenn góðir, á því að dreifbýlið á mjög í vök að verjast og hefur raunar átt undanfarið. Fólki fer jafnt og þétt fækkandi, að sjálfsögðu fækkar um eina fjölskyldu þar sem prestssetur verða aflögð. Það hefur löngum verið vandi landsbyggðarinnar hve langskólagengið og vel menntað fólk hefur lítið sest þar að sem hefur ekki einvörðungu stafað af því að atvinnu vanti.``
    Okkur eru öllum kunn þessi sjónarmið. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram frv. þar sem tekið er tillit til þessara sjónarmiða og ekki gerð tillaga um að leggja þetta prestakall niður.
    Ég sagði hér áðan að ég ætlaði ekki að ræða sérstaklega um brtt. allshn. sem hv. frsm. nefndarinnar hefur gert grein fyrir. Ég hef ekki athugasemdir fram að færa. Ein brtt. varðar prestakall í mínu kjördæmi þar sem er Suðureyrarprestakall. Lagt er til að því prestakalli verði gefið annað nafn og kallað

Staðarprestakall. Ég hygg að það séu gild rök fyrir því og mæli ekki gegn því.
    Ég vil þá hér víkja að brtt. sem ég, ásamt 3. þm. Vestf., hef lagt fram á þskj. 1006. Það er brtt. sem felur í sér að nafngift Barðastrandarprófastsdæmis verði breytt og tekið verði upp nafnið Barðastrandar- og Strandaprófastsdæmi með því að lagt er til að þrjú prestaköll með sjö sóknum í Strandasýslu verði lögð undir Barðastrandarprófastsdæmi.
    Það er ekki út í hött eða að tilefnislausu sem þessi tillaga er fram borin. Það er vegna þess að sú skipan sem nú er verður að teljast í hæsta máta óeðlileg og raunar lítt skiljanleg hvernig hún hefur komið til, að það skuli vera ákveðið í lögum að þessi prestaköll og þessar sóknir sem eru í Skálholtsstifti skuli tilheyra prófastsdæmi sem er í Hólastifti. Þó hafa prestar í Strandasýslu ekki atkvæðisrétt um vígslubiskup að Hólum, eins og þeir aðrir prestar sem eru í Húnavatnsprófastsdæmi. Prestunum í Strandasýslu er fyrirmunað að starfa með félögum sínum í prófastsdæmi Húnavatnssýslu þó að þeir séu þar aðilar að því prófastsdæmi. Þeir verða að vera í öðrum félagsskap. Þeir verða að vera í Prestafélagi Vestfjarða og starfa þar. Ég sagði að þeir yrðu að vera í öðrum félgsskap. Ég orða þetta ekki þannig að það sé eitthvað lakari félagsskapur en hinn félagsskapurinn. Sannleikurinn er sá að prestarnir í Strandasýslu vilja vera í félagsskap annarra presta á Vestfjörðum og þeir vilja vera í því prófastsdæmi sem er í því biskupsstifti sem þeir eru í.
    Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta svo augljóst og einfalt sem þetta mál er. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp bréf sem við þm. Vestfjarða höfum fengið frá prestunum í Strandasýslu um þetta efni. Bréfið er svohljóðandi:
    ,,Við undirritaðir sóknarprestar í Strandasýslu beinum þeim tilmælum til yðar að þér hlutist til um þegar frv. til breytinga á prestakallaskipuninni kemur til umræðu og atkvæðis Alþingis að brauðum verði ekki fækkað á Ströndum og að Strandaprófastsdæmi sem var lagt niður með lögum 1970 verði endurreist eða hvort heldur lagt til Ísafjarðar eða Barðastrandarprófastsdæmis. Leyfum við okkur að benda á þá skipun að á Vestfjörðum yrðu þá tvö prófastsdæmi og allt Vestfjarðakjördæmið innan þeirra, en Strandasýsla eigi sett þar hjá og vísað til prófastsdæmis í öðrum landsfjórðungi, öðru biskupsdæmi samkvæmt fornri venju, öðru kjördæmi og ólíku félags- og þjónustusvæði. Leggjum við áherslu á að okkur þykir við vera afskiptir í Húnavatnsprófastsdæmi á flesta grein og eigum t.d. ekki félagsskap í Prestafélagi Hólastiftis, sem þeir Húnvetningar, heldur í Prestafélagi Vestfjarða. Þá kusu Strandaprestar vígslubiskup Skálholtsstiftis á sl. vori en eiga ekki atkvæðisrétt í Hólastifti þó að prófastsdæmi þeirra tilheyri því umdæmi. Mætti þannig lengi telja en skal ekki gert að sinni nema bent á að með þeim greiða og góða vegi um Steingrímsfjarðarheiði eru öll samskipti við Ísafjarðardjúp tiltölulega auðveld. Einnig er vegurinn

yfir Tröllatunguheiði vel fær sjö mánuði á ári og auðveldar það samskipti í þá áttina.``
    Undir þetta bréf rita Ágúst Sigurðsson, prestur á Prestsbakka, og Baldur Örn Sigurðsson, prestur á Hólmavík.
    Ég sagði að við þingmenn Vestfirðinga hefðum fengið þetta bréf. Við hv. 3. þm. Vestf. höfum borið þetta undir samþingmenn okkar á Vestfjörðum. Við erum allir samþykkir þessu. Við erum allir samþykkir því að verða við óskum prestanna í Strandasýslu.
    Þessi brtt. er líka flutt í samráði við prófastinn í Barðastrandarprófastsdæmi sem er samþykkur þessu einnig. Í raun og veru er hér um leiðréttingu að ræða. Þetta er ekki flóknara en það. En svo segir hv. frsm. nefndarinnar að þetta sé svo róttæk breyting að það sé ekki hægt að átta sig á málinu á þeim tíma sem við höfum. Mig rekur í rogastans yfir slíkum fullyrðingum sem þessum. Ég held að hvert mannsbarn átti sig á þessu á
augabragði og það sé eðlilegt að afgreiða þetta umsvifalaust nú við 2. umr. En ef hv. frsm. nefndarinnar þyrfti eitthvað lengri tíma til að átta sig á þessu þá hef ég ekki á móti því að það yrði ekki gengið til afgreiðslu tillögunnar fyrr en við 3. umr. En ég vona að til slíks þurfi ekki að koma. Ég heiti nú á hæstv. kirkjumrh., sem hefur sýnt lofsverðan skilning á málum sem ég hef hér áður drepið á, að styðja eindregið að gerð verði þessi leiðrétting sem hér er farið fram á.