Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Páll Pétursson:
    Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. að þetta mál er ekki útrætt í fjh.- og viðskn. Það var tekið fyrir 26. mars og þá ákveðin nánari meðferð á málinu. Þá var ákveðið að útvega gögn varðandi það og starfsmanni okkar falið að gera það og hefur hann leyst af hendi. Síðan var ákveðið að kveðja til viðræðna ýmsa aðila. Því miður hefur okkur ekki enn þá unnist tími til að taka málið fyrir til frekari meðferðar. Það verður væntanlega gert á fundum í næstu viku því að ég vonast til að geta haldið fundi fljótlega eftir helgi þegar annir sjútvn. minnka og hin mikilvægu mál sem þar eru til meðferðar hafa hlotið afgreiðslu.
    Því miður hefur nefndinni ekki tekist að afgreiða alveg öll þau mál sem til hennar hefur verið vísað á þessu þingi. Þetta er ekki eina frv., því miður, sem við eigum eftir að vinna nokkuð við. Mér hefur borist bréf frá hv. þm. Ásgeiri Hannesi Eiríkssyni sem hefur flutt mál sem vísað er til nefndarinnar og er þar óafgreitt, og það ekki bara eitt mál heldur tvö. Hann óskar eftir því að þau hljóti afgreiðslu og við munum að sjálfsögðu vinna í þeim. Ég get ekki lofað því að það takist að afgreiða öll þessi mál en við komum til með að vinna í þeim þegar okkur gefst tækifæri til að ná saman nefndarmönnum til að starfa áfram að þessum málum.
    Það hefur verið afar gott samstarf í nefndinni og hún er skipuð ágætu fólki. Við höfum unnið mjög vel saman í vetur og afgreitt mikinn fjölda mála, bæði stjfrv. og þingmannafrv. Síðan hefur nefndin flutt a.m.k. tvö mál sjálf. Fyrir þetta góða samstarf vil ég þakka. Því miður er það þannig að sumir nefndarmenn, og reyndar flestir, eiga sæti í einhverjum öðrum nefndum og m.a. á varaformaður nefndarinnar, hv. 5. þm. Norðurl. v., sæti í sjútvn. og er að sjálfsögðu kallaður til þeirrar kirkju í og með og því hefur þetta nú dregist.
    En ég vonast eftir að okkur lánist að taka málið til meðferðar. Ég mun ekki sjálfur gera tillögu um það að þetta mál verði samþykkt hér á þinginu og ég hef lýst andstöðu minni við þetta tiltekna mál sem hv. 2. þm. Norðurl. v. var að minnast á. Ég ætla ekki að lofa fylgi við þetta mál en ég get lofað því að taka það fyrir til frekari meðferðar í nefndinni.