Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Páll Pétursson:
    Herra forseti. Þessu máli var vísað til fjh.- og viðskn. 21. mars. Hinn 26. mars var málið tekið fyrir. Það var ekki tekið fyrir í fyrstu viku apríl. Í annarri viku apríl voru páskar og reyndar sumardagurinn fyrsti í vikunni eftir páska og þing starfaði ekki nema tvo daga í þeirri viku, eins og hv. þm. vita. Okkur hefur ekki unnist tími til að halda fund í þessari viku og það er út af fyrir sig afleitt, en fyrir því eru þau rök, og það hefði hv. 2. þm. Vestf. gjarnan mátt vita, að sjútvn. beggja deilda hafa unnið saman að frv. til laga um fiskveiðistjórnun og frv. sem einu sinni hét um Úreldingarsjóð, en nú er Úreldingarsjóður orðinn að Hagræðingarsjóði. Af því leiðir að varaformaður nefndarinnar hefur átt mjög annríkt, fyrir utan það að hann hefur haft til meðferðar eitt af veigamestu málum þingsins á undanförnum dögum, Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, og er nú að afgreiða það úr nefnd.
    Til þess að rifja það upp fyrir hv. þm. að nefndin hefur ekki verið atvinnulaus í vetur þá hefur samkvæmt því yfirliti sem ég er hér með í höndum þessi nefnd afgreitt 15 stjfrv., 6 þingmannafrv. og flutt eitt frv. sem slík. Þ.e. nefndin hefur reyndar fellt þingmannafrv. inn í stjfrv., en við erum hér komin með vel á þriðja tug mála sem við höfum afgreitt úr nefndinni í vetur og ég er ekki viss um að aðrar nefndir hafi gert mikið betur á þessu þingi.
    Ég læt það að sjálfsögðu ekki hafa áhrif á störf mín sem nefndarformanns hvort ég er mótfallinn einhverju máli eða ekki. Ég reyni að taka þetta fyrir með sæmilegu réttlæti og reyni að gæta þess að misfara ekki með það vald sem mér er falið sem nefndarformanni. Ég vil nú minna hv. 2. þm. Vestf. á það að hann lá undir töluverðu ámæli hér fyrir nokkrum þingum síðan um að hann vildi ekki afgreiða eitthvert bjórfrv. sem hann var ósáttur við. Og ég man eftir langri utandagskrárumræðu þar sem menn voru að tala um að hv. 2. þm. Vestf. hefði misbeitt miklum áhrifum sínum hér í þinginu að afgreiða ekki þetta mál úr nefnd. Ég trúi þessu auðvitað ekki því að ég veit að hann er náttúrlega allra manna réttlátastur og ég kemst ekki í hálfkvisti við hann hvað réttlæti snertir og snilli í nefndarstörfum. En ég mun ekki láta það hafa áhrif á það hvort ég er með málinu eða á móti því að taka það fyrir. Ég mun hins vegar sjálfsagt reyna að mæla gegn því í nefndinni og sannfæra aðra nefndarmenn, þar á meðal frænda minn af Orrastaðaætt, hv. 1. þm. Reykv., um það að þetta frv. sé ótímabært og ekki rétt að samþykkja það.
    Ég tek það heldur ekki að mér að fara að ákveða það hvort eitthvert þingmannafrv. sé öðru æðra. Ég tel að frv. hv. þm. Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar eigi alveg nákvæmlega jafnan rétt á við þetta frv. Ég mun taka þau fyrir líka þegar ég held fund í nefndinni næst. Ég er ekki að lofa því að leggja til að þau verði samþykkt, það er síður en svo.
    Það eru nokkur mál óafgreidd í nefndinni og ég mun reyna að taka þau fyrir. Umsögnum um þau

hefur verið safnað. Við munum fara yfir þær vandlega þegar annríki sjávarútvegsnefndarmanna minnkar og þau mál afgreiðast. Ég mun halda fundi og það meira að segja marga og langa til þess að létta á þessu og reyna að afgreiða sem mest af því sem til okkar hefur verið vísað.