Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég hlýt að lýsa yfir vonbrigðum með að heyra það frá hv. 1. þm. Norðurl. v., formanni fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, að nefndin hefur ekki haldið fund í þrjár vikur. Hv. þm. Páll Pétursson sagði: Það var ekki haldinn fundur í dymbilviku og það var ekki haldinn fundur í páskaviku, þá var nú líka sumardagurinn fyrsti, og það hefur enginn fundur verið haldinn í nefndinni í þessari viku. Svo segir hann í hinni andránni að hv. fjh.- og viðskn. hafi ekki unnist tími til að taka þetta mál fyrir og kalla þá menn fyrir til viðræðna við nefndina sem fram höfðu komið hugmyndir um innan nefndarinnar að ræða við um málið á undanförnum vikum.
    Ég tek ekki gilt að nefndastörf í hv. efri deild, eða störf sem lúta að meðferð mála sem eru til meðferðar hv. efri deildar, komi í veg fyrir að nefndir í neðri deild geti sinnt því að vinna sín verk.
    Hv. þm. Páll Pétursson hefur lýst því að hann muni kalla nefndina saman og taka málið fyrir. Ég met það svo að hann muni beita sér fyrir því að málið verði afgreitt úr nefndinni hvað sem hans afstöðu líður. Við vissum að hann gerði sínar athugasemdir við þetta mál við 1. umr. En ég met það svo að hann muni nú bregða skjótt við til þess að afgreiða málið úr nefnd. Þetta er ekkert smámál. Ýmsir tóku svo til orða þegar það kom fram að þetta væri með stærri málum sem fram hefðu komið hér á hinu háa Alþingi nú á þessu þingi og e.t.v. fleiri þingum. Og að baki þessu máli liggur, eins og fram hefur komið, mikið starf.
    Ég tek undir það sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði, að ein þingnefnd, þótt virðuleg sé og ágætur og virðulegur formaður þeirrar nefndar, hefur naumast efni á því að setjast á þetta mál með þeim hætti sem gert hefur verið. Hefur naumast efni á því að koma í veg fyrir það að þetta mál geti hlotið þinglega meðferð og afgreiðslu hér á þessu Alþingi. ( PP: Það er ekki meiningin heldur.) Það er gott ef það er ekki meiningin. En hv. 1. þm. Norðurl. v. lýsti önnum sínum um leið með þeim orðum að þær væru svo miklar að honum hefði ekki unnist tími til að halda fund í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar í þrjár vikur. Veit ég til þess að fjh.- og viðskn. er sú af nefndum deilda þingsins sem venjulega þarf að sinna hvað mestu starfi. Þrátt fyrir það að sumir dagar í þessum þremur vikum væru helgidagar, svo sem páskar og sumardagurinn fyrsti, var augljóst, og kom hér fram í ræðu minni í gær, að hæstv. fjmrh. notar sinn tíma betur en þetta.
    Ég greindi frá því í ræðu minni hér við fjáraukalög fyrir árið 1989 í gær að á níu dögum, frá 23. des. til ársloka sl., greiddi hæstv. fjmrh. úr ríkissjóði á annað hundrað milljónir króna á dag, líka á helgum dögum, á þessum dögum til áramóta, eða samtals 1073 millj. kr. umfram það sem hann hafði heimildir til samkvæmt fjárlögum og samkvæmt fjáraukalögum. Hann notaði þessa daga, sem sumir hverjir voru helgidagar, til slíkra afkasta. Og þetta frv. er vitaskuld

flutt vegna þess að við sem höfum starfað að þessum málum lengi teljum að ekki sé viðunandi fyrir Alþingi að það ráðslag gangi áfram sem viðgengist hefur síðustu árin, að greitt sé úr ríkissjóði umfram heimildir 8--10 milljarðar kr. á ári, á síðasta ári 9,6 millj. kr. umfram heimildir fjárlaga. Þetta teljum við ekki viðunandi.
    Þetta frv. er flutt vegna þess að slík ringulreið hefur ríkt í fjármálum ríkisins nú síðustu tvö árin að Alþingi getur ekki sætt sig við annað en að þar verði breytingar á. Ég lýsti hér í ræðu minni í gær hvernig til hefði tekist með markmið hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálum, þeim leiðum sem hæstv. ríkisstjórn hefði kosið að fara til að ná þeim markmiðum og hvernig það hefði brugðist að ná þessum markmiðum og þau hefðu snúist upp í andhverfu sína, úr því að reka ríkissjóð með, eins og þar sagði: ,,umtalsverðum rekstrarafgangi`` yfir í um 6,1 milljarðs halla. Ég minni á það að sífellt eru að gerast dæmin í þessum málum sem knýja það fram að Alþingi bregðist við og láti ekki framkvæmdarvaldinu eftir að haga sínum málum með þeim hætti sem gert hefur verið.
    Í gær, undir umræðum um fjáraukalög fyrir árið 1989, hafði hæstv. fjmrh. ekki tíma til þess að vera við þá umræðu vegna ársfundar Seðlabankans. En hér sagði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson að á þeim ársfundi hefði komið fram að seðlabankastjóri hefði kynnt hugmyndir um að taka yfirdráttarheimildina af fjmrh. Og hvers vegna skyldi þetta vera? Nema fyrir það að óstjórn hefur verið í fjármálum ríkisins og hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hefur farið offari í útgjöldum ríkissjóðs.( Forseti: Mætti ég beina því til ræðumanns að tala ekki efnislega hér um þingmál.) Ég er rétt að ljúka máli mínu. Ég er að skýra það hvers vegna nauðsynlegt er að afgreiða þetta mál. Það er líka haft eftir seðlabankastjóra að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hafi farið offari í því að fara fram úr heimildum sem Alþingi hefur veitt um útgjöld ríkissjóðs í svo stórkostlegum mæli sem ég hef hér sagt. Enda kom fram, sem mér kom ekki á
óvart, á þessum fundi, samkvæmt blaðafregnum, að nettóskuldir ríkissjóðs hafi þrefaldast á fimm árum og að vaxtagreiðslur eru nú um 10% ríkisútgjalda eða nálægt 9--10 milljörðum kr. á ári.
    Í dagblöðunum síðast í dag er enn eitt tilefni til þess að nauðsynlegt er að afgreiða þetta frv., hæstv. forseti. Það er nauðsynlegt að skýra það vel fyrir hv. Alþingi, ekki síst fyrir hv. formanni fjh.- og viðskn. Nd., hvílík nauðsyn það er að afgreiða þetta mál. Því að hér eru auglýsingar um það að nú sé fjmrn. að efna til áróðursfunda, pólitískra funda um landið með fjmrh. í broddi fylkingar á kostnað ríkissjóðs, þar sem á að ræða hagstjórn, atvinnulíf, lífskjör, ríkisfjármál, efnahagsbatann og ný viðhorf í íslenskum þjóðmálum. Nú á að nota fé ríkissjóðs af hálfu fjmrn. og hæstv. fjmrh. til að efna til slíkra áróðursfunda um landið allt. Það er tekið fram að fyrirspurnum verði svarað um nútíð og framtíð. Er furða þó hæstv. fjmrh. kjósi að svara ekki fyrirspurnum um fortíð? Sá hæstv. fjmrh. sem er með allt niður um sig í fjármálum

ríkisins, eins og glöggt kom fram hér í umræðum í gær og marglýst hefur verið af minni hálfu, ráðherra með falleinkunn í meðferð fjármála ríkisins kýs vitaskuld ekki að svara fyrirspurnum um það sem gerst hefur. Hann vill spá eitthvað í framtíðina.