Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. v. gerði hér mjög skýra athugasemd vegna frv. sem verið hefur til meðferðar og flutt er af fjárveitinganefndarmönnum. Hann hefur gert mjög skýra grein fyrir mikilvægi þessa máls.
    Ég skal taka tillit til þess, herra forseti, að fara ekki í efnislegar umræður þar að lútandi. En það verður ekki dregið úr mikilvægi þess að þetta frv. nái fram að ganga. Það vekur á hinn bóginn athygli að þm. stjórnarflokkanna hafa tekið þátt í þessari umræðu, að nokkru leyti með því að teygja lopann og víkja málum að störfum annarra þinga.
    Annar talsmanna Framsfl. í þessari umræðu hefur hafnað stuðningi við þetta frv. Hinn hefur lýst yfir stuðningi og tekið undir eðlilega gagnrýni sem hér hefur verið borin fram af hálfu 2. þm. Norðurl. v. Það var að vonum að hv. 2. þm. Vestf. styddi mál hv. 2. þm. Norðurl. v. í þessu efni.
    Eftir því sem lausatök þessarar hæstv. ríkisstjórnar á ríkisfjármálum hafa orðið meiri hafa menn tekið eftir því að einstakir stuðningsmenn hennar, svo sem hv. formaður fjvn. og hæstv. fjmrh., hafa staðið upp hér á Alþingi, á opinberum fundum og kvatt sér hljóðs í fjölmiðlum með sverum yfirlýsingum um það að nú ætti að taka í taumana og nú ætti að koma fram lagabreytingum og skipulagsbreytingum til þess að gera hér á bót og betrun. Í annan tíma hafa sjálfsagt ekki verið gefnar sverari yfirlýsingar í þeim tilgangi að þvo hendur sínar.
    Þegar samstaða náðist milli fjárveitinganefndarmanna um flutning þessa frv. trúðu menn því að eitthvað væri að marka þá hv. stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar sem kvatt hafa sér hljóðs um þessi efni og lýst því að þeir kysu að gera hér á breytingar. Nú kemur í ljós þegar gengið er eftir því að gefnu tilefni hvort ríkisstjórnarliðið ætlar að afgreiða þetta mál eða ekki, að formaður þingflokks forustuflokks ríkisstjórnarinnar lýsir yfir fullkominni andstöðu. Hv. formaður fjvn. kemur hér upp og talar í kringum það að ekki sé óeðlilegt að málið sé afgreitt úr nefnd, en gefur enga skýra yfirlýsingu um það af sinni hálfu að hér sé um forgangsverkefni að ræða sem eðlilegt sé að gera kröfu um að þetta þing samþykki. Ég hygg að flestum sé svo farið sem starfað hafa í fjvn. og setið í fjmrn. að þeir geri sér fulla grein fyrir því, burt séð frá því hvaða ríkisstjórnir hafa setið við völd eða í hvaða ríkisstjórnum menn hafa setið eða hverjar menn hafa stutt, að full þörf sé á því að styrkja meðferð þessara mála og m.a. styrkja fjmrh. í því að taka á þessum málum af festu vegna þess að núverandi skipan gerir það að verkum að staða hans er of veik til þess að taka á málum. Þess vegna hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að flytja verði frv. til laga til þess að koma betri skipan á þessi mál.
    Þegar á herðir kemur í ljós að áhuginn er ekki fyrir hendi og hv. formaður fjvn., sem hafði hér stór orð um áhuga sinn og ég vil enn trúa að sé í raun og

veru einlægur, getur ekki gefið hér skýrar yfirlýsingar og kveðið upp úr um það að það sé vilji stjórnarliðsins að knýja þetta mál fram og sýna þá þverpólitísku samstöðu sem myndaðist í fjvn. um málið. Nei, hann gefur undir fótinn með að það kunni að vera í lagi að láta málið niður falla. Þetta er ekki tilviljun. Þetta stafar einfaldlega af því að það er komið í ljós að hæstv. ríkisstjórn getur ekki setið miðað við hinar nýju starfsreglur. Allar úrlausnir hennar og vinnubrögð eru með þeim hætti að samrýmast ekki hinum nýju reglum sem setja á. Hæstv. ríkisstjórn og þeir sem að henni standa geta ekki komið sér saman um úrlausn mála, svo sem eitt þeirra mála sem eru á dagskrá hér í dag ber vitni um þar sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp við að leysa vanda Áburðarverksmiðju ríkisins. Það er einfaldlega þetta sem er ástæðan fyrir því að nú á að stinga þessu máli undir stól og gera stóru áformin að engu. Ríkisstjórnarflokkarnir eru ófærir um að sitja miðað við þá skipan mála sem verður ef þessi lög verða samþykkt. Vegna þess að þeir geta ekki unnið við þær aðstæður. Þeir geta ekki stjórnað fjármálum með þeim hætti. Ástandið er orðið á þann veg. Það er þetta sem þessar þingskapaumræður varpa ljósi á.