Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Það er eins og þess misskilnings sé farið að gæta að þetta frv. sem hér er til umræðu sé flutt fyrst og fremst til höfuðs einhverjum tilteknum fjmrh. eða einhverri tiltekinni ríkisstjórn. Ég vara mjög eindregið við því að menn hefji umræður um það á þeim nótunum. Ég hef sjálfur ávallt varast að gera slíkt, að ræða þetta frv. í einhverju samhengi við hvað núv. ríkisstjórn eða fyrrv. ríkisstjórnir sem hér hafa verið hafi gert í þessu sambandi. Ég held að ekki sé æskilegt, hvorki fyrir þetta mál né umræðuna um það í heild, að ræða það á þessum nótum.
    Meginatriðið er það að þingið, Alþingi Íslendinga, sem fer með fjárveitingavaldið er hér að fjalla um það vandamál að framkvæmdarvaldið og handhafar þess hafa í síauknum mæli tekið sér það hlutverk sem samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins er í höndum Alþingis og hafa gengið miklu lengra í því en viðgengst nokkurs staðar í nálægum löndum þangað sem við sækjum fyrirmyndir að lagasetningu Íslendinga. Og alveg án tillits til þess hvort einn fjmrh. hefur þar verið öðrum verri eða betri er niðurstaða fjárveitinganefndarmanna og vonandi allra alþm., án tillits til afstöðu þeirra til efnisatriða þessa frv., sú að það sé orðið tímabært að taka í taumana og færa löggjafarsamkundunni á ný það vald, fjárveitingavaldið, sem hún hefur samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins. Það er á þessum nótum sem reynt var að semja umrætt frv. og það er á þessum nótum sem óskað var eftir því að Alþingi sem stofnun tæki afstöðu til þess, ekki eftir því hvort alþm. eru stjórnarsinnar eða stjórnarandstæðingar heldur einvörðungu á þeim nótum að þeir eru 1 / 63 hluti af því valdi sem stjórnarskrá Íslands felur löggjafarstofnun þjóðarinnar. Það er óskað eftir því af okkur flm., og þannig ræddum við málið á sínum tíma, að leggja það með þessum hætti fyrir þingið, ekki sem hópur stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga heldur sem alþm. á Alþingi Íslendinga, án
tillits til þess hvaða afstöðu við hefðum til núv. ríkisstjórnar eða fyrrv. ríkisstjórna. Ég tel ekki æskilegt og mun ekki taka þátt í því að blanda umræðum um þetta frv. saman við ágreining stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga til núv. ríkisstjórnar og vinnubragða hennar né heldur til fyrri ríkisstjórna og vinnubragða þeirra.
    Ég átti viðræður í morgun við fyrrv. þm. sem setið hefur í mörg ár á Alþingi Íslendinga, verið ráðherra, verið forseti. (Gripið fram í.) Nei, það var ekki Gylfi Þ. Gíslason. Hann sagði við mig út af öðru máli: ,,Þú þarft ekki að láta þér það til hugar koma,,, sagði hann, ,,ég þekki Alþingi það vel. Þetta er eitt af þeim málum sem Alþingi getur aldrei afgreitt vegna þess að það hefur ekki burði til þess.``
    Það lá ýmislegt rétt og satt í orðum þessa ágæta fyrrv. þm. Því miður er það svo að Alþingi er ansi burðarlítið til afgreiðslu á málum sem eru ekki lögð fyrir það af framkvæmdarvaldinu og jafnvel orðið ansi burðarlítið til þess að gæta sinnar eigin virðingar og

sinnar eigin stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ef til vill er það orðið svo að Alþingi sem stofnun, án tillits til þess hvort einstakir alþm. fylgja eða fylgja ekki þeirri stjórn sem nú situr, er orðin svo lágreist stofnun að það getur ekki einu sinni afgreitt svona mál. Það kemur því ekki frá sér. Þá verður víst svo að vera. Menn verða að sæta þeim dómi sem reynslan fellir í þeim efnum.
    Frumvarpsflutningur okkar fjárveitinganefndarmanna var ekki byggður á því hvaða afstöðu við hefðum til ríkisstjórnar heldur á því hvaða afstöðu við vildum hafa til löggjafarsamkomunnar í landinu annars vegar og framkvæmdarvaldsins hins vegar og til samspils þessara aðila. A.m.k. er ég enn þá þeirrar skoðunar að það beri að reyna að fá Alþingi til þess að rísa undir því að afgreiða mál sem varðar þess eigin völd og virðingu, en e.t.v. tekst það ekki.
    Virðulegi forseti. Ég get ekki sett alþm. neina skilmála í þeim efnum. Hv. 1. þm. Suðurl. sagði að ég hefði ekki verið nógu einarður í kröfum mínum um afgreiðslu. Ég get ekki, herra forseti, gert neina kröfu í þeim efnum. Ég get ekki hótað formanni fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar eða nefndarmönnum öðrum einu eða neinu ef þeir ekki afgreiða svona mál. Ég get ekki tekið upp einhverja þá starfshætti og vil ekki taka þá upp, að ógna með því t.d. að ég muni þá ekki gegna þingskyldum mínum sem formaður fjvn. ef fjh.- og viðskn. afgreiðir ekki þau mál sem ég vil. Ég tel ekki rétt af þm. að vera með slíkar hótanir og mun ekki hafa þær uppi.
    Það eina sem ég get gert og hef gert er að mælast mjög eindregið til þess af tillitssemi okkar við framkvæmdarvaldið og handhafa þess, ráðherrana í hæstv. ríkisstjórn, sem birtist m.a. í því að við féllumst á aftur og aftur að fresta 1. umr. um málið að beiðni þeirra. Ég hef óskað eftir því að sú tillitssemi verði ekki til þess að málið komi ekki til afgreiðslu. Og ég hef óskað eftir því við hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er formaður fjh.- og viðskn., að hann beiti sér fyrir því að málið fái farsæla úrlausn í nefndinni og komist hingað
til atkvæða. Ég hef beðið um það af hálfu hæstv. forseta að þeir sem síðan taka við málinu reyni að koma því áfram. Annað get ég ekki gert, annað er ekki á mínu valdi.
    Ég ítreka það, hæstv. forseti, að það er áhugavert fyrir þá sem líta á Alþingi Íslendinga öðrum augum en bara samkomu stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga sem hafi það helsta hlutverk með höndum að afgreiða mál framkvæmdarvaldsins af hálfu meiri hlutans og gagnrýna mál framkvæmdarvaldsins af hálfu minni hlutans. Það er áhugaefni fyrir þá sem telja Alþingi Íslendinga hafa einhverju merkilegra hlutverki að gegna en bara þessu, að sjá hvort það er rétt sem hinn gamli forseti þessarar deildar sagði við mig í morgun að þetta væri eitt af þeim málum sem Alþingi Íslendinga hefði aldrei neina burði til að afgreiða.