Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Vegna ræðu hv. 5. þm. Vestf. vil ég taka fram að það var einmitt fagnaðarefni í tengslum við þetta mál að um það tókst þverpólitísk samstaða. Um það tókst samstaða milli þm. í fjvn., í stjórn og stjórnarandstöðu. Það var það sem gaf okkur vonir um að hægt væri að lyfta Alþingi upp þannig að það gæti að eigin frumkvæði tekið ákvarðanir og sett löggjöf af þessu tagi. Það er trúa mín af þeirri reynslu sem ég hafði af setu í fjmrn. að slík löggjöf yrði fjmrh. mjög til styrktar. Og ég tek undir, það var ætlun allra sem að þessu stóðu að halda þannig á málum að hér þyrfti ekki að koma til hefðbundins ágreinings eða uppgjörs um einstakar ríkisstjórnir. En það voru einmitt þessar stóru vonir sem gera það að verkum nú að vonbrigðin verða meiri þegar flest virðist benda til þess að málið nái ekki fram að ganga. Menn gera sér auðvitað fulla grein fyrir því hvers vegna það nær ekki fram að ganga. Vegna þess að stjórnarmeirihlutinn er ekki tilbúinn til þess að veita því stuðning þrátt fyrir öll stóru orðin. Þrátt fyrir allar fallegu og háleitu hugsjónirnar, sem hv. 5. þm. Vestf. lýsti hér áðan, þá er stjórnarmeirihlutinn, eða virðist ekki vera reiðubúinn til þess að halda áfram þeirri breiðu samstöðu sem um þetta tókst. Það er þetta sem veldur vonbrigðum. Óneitanlega, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, sýnist það varpa ljósi á þá staðreynd að núv. hæstv. ríkisstjórn treystir sér ekki til þess að starfa undir nýjum reglum af þessu tagi. Það er erfitt fyrir stjórnarliða að skjóta sér undan því áliti á þeirri stöðu sem upp er komin.