Kvikmyndastofnun Íslands
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. 1. minni hl. menntmn. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. frv. til laga um Kvikmyndastofnun Íslands. Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls og skiptist í þrjá hluta, þ.e. meiri hl. sem hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds hefur mælt hér fyrir. Að þeim meiri hl. standa fulltrúar ríkistjórnarflokkanna í menntmn. Við þm. Sjálfstfl. í nefndinni, ég og hv. 3. þm. Reykv. Sólveig Pétursdóttir skipum 1. minni hl. og skilum séráliti og flytjum auk þess brtt. og að lokum er 2. minni hl. sem hv. 18. þm. Reykv. Þórhildur Þorleifsdóttir, þingmaður Kvennalista, myndaði og skilar séráliti. Mér þykir rétt, áður en lengra er haldið, herra forseti, að lesa upp það nál. sem við höfum skilað en það hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Við athugun nefndarinnar á þessu frv. kom í ljós að það er ótrúleg hrákasmíð. Frv. er morandi í villum og ljóst er að gera þyrfti á því miklar breytingar til að koma viti í málið. Nefndin kallaði á sinn fund fulltrúa Félags kvikmyndagerðarmanna og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, þá Þorstein Jónsson, Þráin Bertelsson og Ara Kristinsson. Fram kom hjá þeim að frv. ráðherra væri ekki í samræmi við niðurstöður þeirrar nefndar sem um getur í grg. með frv. Gerðu þeir miklar athugasemdir við frv. og lögðu fram margar hugmyndir að breytingum. Þá kom á fund nefndarinnar úr úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Gerði hún einnig miklar athugasemdir við frv. og taldi verr af stað farið en heima setið með þetta mál. Taldi hún m.a. fráleita ráðstöfun að skipta úthlutunarnefnd í tvo aðskilda hópa enda væri það fjármagn, sem úthlutunarnefnd hefur til ráðstöfunar, ekki til skiptanna milli tveggja úthlutunarhópa og frv. gerði ekki ráð fyrir auknu fjármagni til kvikmyndagerðar.
    Knútur Hallsson, formaður stjórnar Kvikmyndasjóðs, kom einnig á fund nefndarinnar, gerði athugasemdir við frv. og lagði fram skriflega greinargerð
um málið. Allir þessir aðilar voru andvígir meginatriðum í frv. ráðherra. Þá gerðist það, eftir að formaður nefndarinnar hafði tekið málið út úr nefndinni, að á fund hennar kom hópur manna sem hafði sjálfur frumkvæði að því að ræða við nefndina. Það voru þeir Helgi Jónasson og Árni Björnsson, fulltrúar í stjórn Kvikmyndasjóðs þegar sérstaklega er fjallað um málefni Kvikmyndasafns. Með þeim var Guðbrandur Gíslason, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs. Lögðu þeir fram brtt. um þann þátt frv. sem snertir stjórn Kvikmyndasafns.
    Öll meðferð þessa máls í nefndinni var hroðvirknisleg og lítill tími gafst til að ræða einstök atriði. Var stöðugt rekið á eftir meðferð málsins og gestir nefndarinnar fengu óspart að heyra að þeir fengju lítinn tíma.
    Átelja verður harðlega öll vinnubrögð í þessu máli. Gagnrýna verður ráðherra fyrir að leggja fram illa og hroðvirknislega unnið frv. Enn fremur verður að

gagnrýna meiri hl. nefndarinnar fyrir að kasta höndum til afgreiðslu þessa máls. Kvikmyndalistin í landinu á betra skilið.
    Meiri hl. hefur vafalaust af góðum hug reynt að bæta frv. með því að flytja brtt. Þær eru þó hvergi nærri fullnægjandi og enn eru villur í frv. Alvarlegast af öllu er þó að frv. bætir í engu hag kvikmyndalistarinnar í landinu.
    Við undirrituð viljum sýna þessari ungu listgrein fullan sóma og teljum að Alþingi eigi að samþykkja vandað og vel gert frv. um kvikmyndagerð. Við teljum það óráð að samþykkja þetta óvandaða frv. nú og leggjum til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til nánari athugunar.
    Ef sú tillaga okkar verður ekki samþykkt áskiljum við okkur rétt til að flytja og fylgja brtt.``
    Undir þetta rita Sólveig Pétursdóttir og Birgir Ísl. Gunnarsson.
    Það eru vissulega stór orð sem fram koma í nál. og þess vegna tel ég rétt að eyða nokkrum tíma þessarar hv. deildar til að færa þeim orðum stað.
    Í nál. er vitnað í heimsóknir nokkurra aðila sem komu á fund nefndarinnar. Ég tel rétt að rekja stuttlega það sem fram kom hjá því fólki sem kom til fundar við nefndina. Það voru þó hvergi nærri fullnægjandi heimsóknir eins og við getum um í okkar nál. Það var óspart rekið á eftir þessu fólki sem við kölluðum til fundar og það fékk stuttan tíma til að tjá sig þannig að ég reikna með að ef farið hefði verið betur yfir þetta mál með þessu fólki hefði komið sitthvað fleira í ljós. Fulltrúar Félags kvikmyndagerðarmanna og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Þorsteinn Jónsson, Ari Kristinsson og Þráinn Bertelsson, komu á fundinn. Þeir áttu þátt í því að semja frv. sem þeir afhentu menntmrh. á sínum tíma en könnuðust lítið við það frv. sem hæstv. ráðherra lagði fram. Það kom fram í þeirra máli að frv. sem þeir höfðu lagt fram og höfðu samið hafði gjörsamlega verið snúið við í menntmrn. Þeir lýstu yfir mikilli óánægju með frv. hæstv. menntmrh. Þeir höfðu sérstaklega horn í síðu 5. og 6. gr. frv. Ég minni á að þegar þetta mál var til 1. umr. hér í hv. deild lét ég þess getið að það væri ótrúlega flókið og illskiljanlegt kerfi sem sett er upp í 5. gr. frv. og undir það tóku þessir aðilar.
    Í frv. sem þeir lögðu fram voru enn fremur ýmis önnur atriði sem þeir lögðu áherslu á og ekki síst bentu þeir á að í frv. eins og það nú lítur út hjá hæstv. ráðherra væri alls ekki á neinn hátt stuðlað að því að kvikmyndagerð eða kvikmyndalist í landinu fengi aukið fjármagn. Þeir höfðu lagt það til í sínu frv. að framlag ríkissjóðs í Kvikmyndasjóð yrði miðað við virðisaukaskatt af kvikmyndasýningum eins og reyndar er gert ráð fyrir í frv. hæstv. ráðherra, en að auki höfðu þeir gert ráð fyrir að áætlaður virðisaukaskattur af útleigu myndbanda og sjónvarpsauglýsingum yrði þarna inni.
    Það kom fram hjá þessum fulltrúum að það vær ósk íslenskra kvikmyndagerðarmanna að reynt yrði að stefna að því að gerðar yrðu á Íslandi það sem þeir

kölluðu fjórar meðaldýrar myndir. Kostnaður við hverja kvikmynd mun vera um 40 millj. kr. þannig að hér er um að ræða um 160 millj. kr. sem það mundi kosta að gera fjórar kvikmyndir. Þeir bentu á að á síðustu tíu árum hefðu verið framleiddar 27 myndir sem hefðu kostað um 1,1 milljarð. Af þessum peningum hefðu kvikmyndagerðarmenn sjálfir lagt fram eða útvegað 600 millj. kr. en ríkið um 500 millj.
    Það voru fleiri atriði sem þeir minntust á sem ég skal ekki rekja hér sérstaklega en við fengum einnig á okkar fund fulltrúa úr úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs, en þannig hefur þessu verið háttað að undanförnu að stjórn Kvikmyndasjóðs hefur tilnefnt sérstaka nefnd, úthlutunarnefnd, til að úthluta úr Kvikmyndasjóði. Sá fulltrúi úr úthlutunarnefnd sem til okkar kom var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, fyrrv. alþm., og gerði hún okkur grein fyrir sínum sjónarmiðum og þá væntanlega úthlutunarnefndarinnar. Hún taldi það fráleita ráðstöfun að skipta úthlutunarnefndinni í tvær nefndir, A og B. Hún benti á að í ár væru til úthlutunar aðeins 66 millj. kr. en meðalkostnaður á hverja mynd væri 40 millj., eins og fyrr getur, þannig að þessi fjárhæð væri ekki til skiptanna milli tveggja nefnda. Þetta samsvaraði sem sagt um það bil 1 1 / 2 mynd. Hún taldi að það væri betra að hafa stærri stjórn í Kvikmyndastofnuninni, eins og hún á að heita nú. Þannig kæmust að fleiri sjónarmið og minni hætta væri á hagsmunaárekstrum og við getum sagt klíkumyndun. Þetta er tiltölulega lítill heimur hér á Íslandi, kvikmyndalistaheimurinn, og þar ríkir auðvitað samkeppni á milli manna og þess vegna eðlilegt að hafa stjórnina stærri þannig að fleiri sjónarmið komist að. Hún taldi hins vegar ekki rétt að nokkur stjórnarmaður sæti í úthlutunarnefnd eins og lagt er til í frv. ráðherra. Það væri hins vegar eðlilegt að stjórn stofnunarinnar tilnefndi aðila til úthlutunar og hún gæti þá haft það í sinni hendi hversu fjölmennur sá hópur væri, og reyndar hafði það komið fram hjá kvikmyndagerðarmönnunum sem mættu á fundi nefndarinnar að jafnvel gæti komið til greina að aðeins einn aðili, eins konar einvaldur, úthlutaði úr sjóðnum. Þeir lögðu auðvitað áherslu á að það væri fyrst og fremst möguleiki en ætti ekki að vera nein regla.
    Sigríður Dúna benti líka á að ákvæðin í 8. og 9. gr. væru ruglingsleg. Niðurstaða hennar við athugun á frv. var sú að það væri verr af stað farið en heima setið með þetta mál. Það bætti ekki núverandi stöðu kvikmyndagerðar.
    Á fund nefndarinnar kom einnig Knútur Hallsson ráðuneytisstjóri en hann er formaður stjórnar Kvikmyndasjóðs. Hann lagði ýmis gögn fyrir nefndina sem ekki voru rædd sérstaklega í nefndinni vegna þess mikla hraða sem á þessu máli var. Hann lagði hins vegar fram skriflega greinargerð sem hann kallar bráðabirgðaumsögn fyrir hönd stjórnar Kvikmyndasjóðs Íslands um þetta frv. ráðherra. Ég tel nauðsynlegt að kynna hv. deild þetta álit stjórnar Kvikmyndasjóðs og ætla þess vegna að lesa það, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Meginatriðið í öllum frumvörpum og lögum um kvikmyndamál hefur jafnan verið hvernig ákvæðum um tekjur sjóðsins hefur verið háttað. Annað mikilvægt atriði varðar ákvæði um stjórn og úthlutun úr Kvikmyndasjóði. Mælikvarðinn á sérhvert frv. um þessi efni er sá hvort frv. er til bóta á gildandi lögum varðandi þessi tvö atriði og þó einkum hið fyrrnefnda. Í þessari umsögn er athyglinni fyrst og fremst beint að þessum tveim aðalatriðum.
    Tekjur og önnur fjármál Kvikmyndasjóðs. Aðalákvæðin um tekjur sjóðsins eru í 7. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að tekjur sjóðsins sem máli skipta séu fólgnar í árlegu framlagi úr ríkissjóði er nemi árlegum virðisaukaskatti af kvikmyndasýningum. Þessi breyting leiðir af sjálfu sér þar sem virðisaukaskattur er nú búinn að leysa söluskatt af hólmi en við þann síðarnefnda er miðað í núgildandi lögum. Sérfræðingar telja líklegt að virðisaukaskattur muni ekki gefa jafnmikið í sjóðinn eins og söluskattur gerir í dag. Þá er á það að líta að íslenskar kvikmyndir eru í dag undanþegnar söluskatti en athugun sérfræðings á vegum Kvikmyndasjóðs leiðir í ljós að íslenskar kvikmyndir muni aðeins að hluta njóta undanþágu eða ívilnunar af virðisaukaskatti, þ.e. einungis endurgreiðslu af skattinum vegna vinnuframlaga.
    Ákvæðið í 2. mgr. 4. gr. frv. um að rekstur Kvikmyndastofnunar skuli greiddur sérstaklega í fjárlögum, óháð hinu eiginlega framlagi til sjóðsins, er vissulega til bóta en hafa verður í huga að raunverulegur kostnaður við rekstur sjóðsins nemur aðeins um 3 millj. kr. Annar ,,rekstrarkostnaður`` hefur
verið falinn í stærri styrkjum og annarri fyrirgreiðslu við kvikmyndagerðarmenn.
    Þá er í þessu frv. ekkert ákvæði um skattfrelsi eða skattívilnun vegna framlaga til kvikmyndagerðar eins og var í tillögum beggja þeirra nefnda sem samið hafa frv. um þetta efni og getið er í bréfi með þessari umsögn. Í staðinn kemur loforð um breytingu á reglugerð um tekjuskatt nr. 615/1987, að því er varðar gjafir til menningarmála. Fullyrðingu í athugasemd með frv. um að þessi reglugerðarbreyting muni hafa í för með sér ,,veruleg framlög`` til kvikmyndagerðar hlýtur að verða að taka með fyrirvara. Lítil sem engin reynsla mun komin á hvernig ákvæði reglugerðarinnar um skattfrádrátt vegna gjafa til menningarmála munu reynast í framkvæmd og víst er að þau ákvæði um hliðstæð efni sem verið hafa í lögum og reglugerðum hafa gefið næsta lítið í aðra hönd í þágu menningarmála.
    Loks er á það að líta að næsta ótryggt er að hafa slíkt ákvæði í reglugerð. Fjmrn. getur breytt eða fellt niður reglugerðarákvæði með einu pennastriki og hefur annað eins skeð.
    Ákvæðið í 8. gr. um að kvikmyndaframleiðandi þurfi að leggja fram að jafnaði 10% eigið fé til að teljast styrkhæfur virðist til nokkurra bóta en virðist gefa undir fótinn með að opinber stuðningur nemi þá 90% sem kallar á stóraukin framlög til sjóðsins. Til bóta er að takmarka ábyrgðir á bankalánum við 15%

,,af kostnaði`` þótt nákvæmara væri væntanlega að miða við áætlaðan kostnað. Annars virðist ekki til hagsbóta fyrir kvikmyndagerðina að breyta styrkjum að nokkru í lán og ábyrgðir ef heildarframlag til þessara mála er ekki aukið heldur jafnvel minnkað.
    Þá er ákvæði í 8. gr. um að verði hagnaður af sýningu myndar endurgreiði fyrirtækið lán, ella falli það á Kvikmyndasjóð. Mjög erfitt hefur reynst að fullreyna hvort hagnaður eða halli hafi orðið af kvikmyndum í ýmsum tilvikum. Hagnaði virðist unnt að breyta í halla með ýmsum meira eða minna löglegum bókhaldsvinnubrögðum. Þá er hætt við að ákvæði af þessu tagi geti verið til þess fallið að refsa þeim sem halda fjárhagslega vel á málum en verðlauna skussana.
    Í frv. þriggja manna nefndarinnar er gert ráð fyrir að framlag til sjóðsins miðist ekki einungis við söluskatt (virðisaukaskatt) af kvikmyndasýningum heldur einnig við skatt af myndbandaleigum. Þessi viðmiðun er ekki í því frv. sem hér er lagt fram og hlýtur það að teljast mjög neikvætt frá sjónarmiði kvikmyndagerðarmanna, sérstaklega þar sem vitað er að myndbandaleigur draga mjög úr aðsókn að kvikmyndahúsum.
    Hér hefur verið stiklað á stóru um þetta atriði en niðurstaðan er sú að þetta frv. virðist frekar munu stuðla að því að framlag til kvikmyndagerðar minnki frá því sem nú er.``
    Næst er fjallað í þessari greinargerð stjórnar Kvikmyndasjóðs um stjórnunar- og úthlutunarmál.
    ,,Samkvæmt frv. er stjórnarmönnum fækkað úr fimm í þrjá. Þetta er til bóta að meginstefnu til. Því fámennari stjórn, því betra, er hin almenna reynsla í þessu efni.
    2. gr. frv. gerir ráð fyrir tilnefningum í stjórnina frá tveim aðilum, Félagi kvikmyndagerðarmanna og Sambandi ísl. kvikmyndaframleiðenda. Rétt er að benda á að nýlega hefur verið stofnað þriðja fagfélagið, Samtök kvikmyndaleikstjóra, sem gerir valið á tilnefningaraðilum flóknara. Tilnefningaraðilar samkvæmt núgildandi lögum eru auk Félags kvikmyndagerðarmanna og Sambands ísl. kvikmyndaframleiðenda Bandalag ísl. listamanna og Félag kvikmyndahúsaeigenda. Aðild Bandalags ísl. listamanna mun byggjast á því að margir aðilar að kvikmyndagerð standa utan við fagfélög kvikmyndagerðarmanna, t.d. leikarar, leikmyndagerðarmenn, ýmsir handritshöfundar o.s.frv., en eru innan vébanda Bandalags ísl. listamanna. Þá sjá félagar í Samtökum kvikmyndahúsaeigenda um öll innkaup og dreifingu á (erlendum) kvikmyndum hér á landi og ráða yfir allri sýningaraðstöðu.
    Deila má um hvort hagsmunaaðilar eigi að sitja í sjóðsstjórnum, sem eiga m.a. að úthluta styrkjum til þeirra sjálfra, samstarfsmanna þeirra eða keppinauta, eða hvort þessir aðilar eigi að hafa úrslitavald um hverjir annist slíka úthlutun með því að hafa meirihlutavald um hverjir sitji í úthlutunarnefndum. Þetta fyrirlag getur`` --- hér stendur nú ,,per se``, við skulum segja getur ,,í sjálfu sér boðið upp á

misnotkun og jafnvel spillingu. Hér er um vandasamt og viðkvæmt mál að ræða en íhuga þyrfti vandlega hvort unnt kunni að vera að finna betri lausnir á þessu vandamáli. Stjórn sjóðs þyrfti að vera hæf og bær til að sinna því meginverkefni hverrar sjóðsstjórnar að ráðstafa ráðstöfunarfé sjóðsins en þurfa ekki vegna vanhæfi að afsala sér þessu meginhlutverki og fela það mönnum utan stjórnar að meira eða minna leyti. Samkvæmt fyrstu lögum um sjóðinn var stjórnin skipuð þremur hlutlausum mönnum sem jafnframt önnuðust úthlutun.``
    Þá er fjallað um úthlutunarnefndir í þessu áliti.
    ,,Skv. 5. gr. frv., sbr. bráðabirgðaákvæði, skipar stjórn Kvikmyndasjóðs tvær þriggja manna úthlutunarnefndir í stað einnar samkvæmt núgildandi lögum. Vandséð er að þetta sé til bóta. Þá er gert ráð fyrir allflóknum og nánast óskiljanlegum reglum um hvernig nefndirnar eiga að starfa. Hingað til hefur reynst mjög erfitt að fá þrjá hlutlausa menn með einhver tengsl við kvikmyndamál til að taka sæti í einni nefnd.
    Þá er það sjálfsagða ákvæði í frv. eins og í núgildandi lögum að nefndarmenn í úthlutunarnefndum megi eigi hafa hagsmuna að gæta við úthlutunina. Hins vegar skulu aðalstjórnarmenn skiptast á um að vera formenn nefndanna, en ekkert ákvæði er í 2. gr. um að aðalstjórnarmenn megi ekki hafa hagsmuna að gæta. Annaðhvort verður að taka ákvæði um slíkan áskilnað í 2. gr. eða sleppa áskilnaði um hlutleysi í 5. gr.
    Í athugasemdum við 5. gr. frv. er drepið á þann kost við tvær úthlutunarnefndir að þannig fáist ,,áfrýjunarmöguleiki``. Ekki er ljóst hvort með þessu orðalagi er átt við að unnt verði að áfrýja ákvörðun einnar nefndar til annarrar, sem yrði mjög óheppilegt, eða hvort átt er við eitthvað annað sem þyrfti þá að koma skýrt fram. Frá almennu skynsemissjónarmiði verður ekki séð að þessi flókna nýskipan sé til bóta frá núgildandi lögum.
    Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er sú að þessu frv. sé svo mjög áfátt í veigamiklum atriðum að það þurfi miklu nánari athugunar við ef það eigi að vera spor fram á við fyrir íslenska kvikmyndagerð. Stjórn Kvikmyndasjóðs er reiðubúin til samstarfs um að þoka frv. í þá átt.``
    Þetta var svokölluð bráðabirgðaumsögn stjórnar Kvikmyndasjóðs og eins og fram kemur í þessari umsögn gerir stjórn Kvikmyndasjóðs mjög miklar og alvarlegar athugasemdir við frv. eins og það var lagt fram af hæstv. ráðherra.
    Þá er rétt að geta þess að eftir að málið hafði verið tekið út úr nefndinni bönkuðu upp á hjá hv. menntmn. gestir, en það voru fulltrúar í stjórn Kvikmyndasjóðs þegar sérstaklega er fjallað um Kvikmyndasafnið. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir að þegar fjallað er um Kvikmyndasafn Íslands eigi tveir aðilar að bætast í Kvikmyndasjóðsstjórnina, þ.e. fulltrúi frá Námsgagnastofnun og fulltrúi frá Þjóðminjasafni. Þessir aðilar voru þeir Helgi Jónasson og Árni Björnsson. Þeir komu sem sagt að eigin

frumkvæði. Það fékkst ekki að ræða við þá frekar en aðra nema á hlaupum og þeir lögðu fram að mínu mati mjög veigamikla brtt. við frv. Þetta er nú dæmi um vinnubrögðin sem sýnir að ef vinnubrögð meiri hl. nefndarinnar hefu ein ráðið hefði þetta mál ekki komist að. Það var fyrst og fremst frumkvæði þessara manna sem réði því að þeir fengu að koma að þessari brtt. sem er þess efnis að safnaþættinum verði meiri gaumur gefinn í frv. og þá sérstaklega að sett verði sérstök stjórn, eins og þeir lögðu nú til, yfir Kvikmyndasafnið, en niðurstaða meiri hl. nefndarinnar varð sú að leggja fram brtt. þar sem gert er ráð fyrir að það verði umsjónarnefnd, eins og það heitir í brtt. frá meiri hl. nefndarinnar. Þeir héldu því fram að það hefði komið mjög glögglega í ljós að stjórn Kvikmyndasjóðs hefði meiri áhuga á sjálfum sjóðnum, hefði meiri áhuga á kvikmyndagerðinni í landinu, kvikmyndalistinni og framgangi hennar, en því að geyma og varðveita myndir og þess vegna væri nauðsynlegt að styrkja þennan þátt því að það væri mjög líklegt miðað við reynsluna að stjórn Kvikmyndasjóðs mundi ekki breytast að þessu leyti.
    Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið í allítarlegu máli þær miklu athugasemdir sem þeir aðilar sem fengu að tjá sig við nefndina gerðu við frv. Þetta geri ég að sjálfsögðu til að rökstyðja þau stóru orð sem fram koma í áliti 1. minni hl. menntmn. um að þetta frv. sé ótrúleg hrákasmíð, það sé morandi í villum og á því þurfi að gera miklar breytingar, og til þess að sýna fram á að sú gagnrýni sem við setjum fram á meðferð málsins í nefndinni, að hún hafi verið hroðvirknisleg og lítill tími hafi gefist til viðræðna um einstök atriði, eigi við rök að styðjast. Og ég hef líka viljað fara svona ítarlega yfir, rakið umsagnir þeirra sem til okkar komu, til þess að rökstyðja þá hörðu gagnrýni sem sett er fram í nál. á öll vinnubrögð í málinu, gagnrýni á hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram illa og hroðvirknislega unnið frv. og gagnrýnina á meiri hl. menntmn. fyrir að kasta höndum til afgreiðslu þessa máls.
    Ég ætla þá aðeins, virðulegi forseti, að ræða efnislega einstakar greinar út frá þeim brtt. sem hér liggja fyrir en allir hlutar nefndarinnar, þ.e. meiri hl. nefndarinnar ásamt með báðum minni hlutunum, flytja sjálfstæðar brtt. við frv.
    Við 2. gr. flytjum við, ég og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, brtt. þess efnis að fjölgað verði í stjórn stofnunarinnar frá því sem gert er ráð fyrir í frv. og tala stjórnarmanna verði sú sama og er í stjórninni í dag en hins vegar breytt nokkuð um tilnefningaraðila. Við leggjum til að stofnuninni verði skipuð fimm manna stjórn til þriggja ára í senn og tilnefningaraðilar skuli vera Félag ísl. kvikmyndagerðarmanna, Samband ísl. kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndaleikstjóra, Bandalag ísl. listamanna og einn sem ráðherra
skipar án sérstakrar tilnefningar en jafnframt að stjórnin skipti sjálf með sér verkum.
    Rökin fyrir þessari fjölgun eru þau að veruleg hætta er á að hagsmunaárekstrar séu í þessari listgrein

eins og ég gat um áðan. Þetta er mjög þröngur heimur, þessi heimur kvikmyndalistarinnar, og stjórnin á, þó hún eigi ekki að fara sjálf beint með úthlutun, að tilnefna úthlutunaraðila þannig að hún hefur gríðarlega mikið vald í þessum efnum og hefur auðvitað í gegnum það fullan möguleika á að láta sín áhrif koma fram í úthlutunarnefndinni. Þess vegna finnst mér eðlilegra að fleiri aðilar komi að því að tilnefna. Þó að ég geti út af fyrir sig fallist á það almenna sjónarmið að skynsamlegra sé að hafa tiltölulega fámennar stjórnir í stofnunum af þessu tagi finnst mér hér um að ræða svo sérstakt mál og sérstakar aðstæður að eðlilegt sé að gera þessa breytingu.
    Varðandi 5. gr. frv. hefur meiri hl. nefndarinnar lagt fram brtt. Þar er gert ráð fyrir að þessu flókna og einkennilega og óskiljanlega kerfi um úthlutunarnefnd A og úthlutunarnefnd B sem eiga að vera þriggja manna og meðstjórnendur í stjórn stofnunarinnar eiga að vera formenn hvor í sinni nefnd sé kastað í burtu. Ég er auðvitað alveg sammála því og tel þetta hið mesta óráð eins og það er lagt fram í frv. og ég satt að segja skil ekki hvernig þetta komst inn í frv. Ég tel því að sú breyting sé auðvitað til bóta. Við viljum hins vegar ganga lengra því að við flytjum einnig brtt. við 5. gr. þar sem segir að úthluta skuli tvisvar á ári og skulu sömu aðilar ekki annast úthlutun í bæði skiptin. Við föllumst á það sjónarmið sem fram hefur komið frá úthlutunarnefndinni sem nú er, að ekki sé rétt að lögbinda það a.m.k. að úthluta tvisvar á ári og að sömu aðilar eigi ekki að annast úthlutun í bæði skiptin. Okkar rök eru þau að fjármagn sem þarna er um að ræða sé svo lítið að það sé alls ekki til skiptanna, ein og hálf mynd á ári eins og nú er, og þess vegna sé eðlilegra að það sé hreinlega í valdi stjórnar stofnunarinnar og þá úthlutunaraðila hvernig hún hagar þessari úthlutun. Ég er ekki að segja að ekki sé hægt að úthluta tvisvar á ári, það er ekkert sem bannar það, en það er heldur ekkert sem fyrirskipar það í þessari brtt. okkar. Í því liggur meginmunurinn.
    Við viljum líka lengja, og það er álit úthlutunarnefndarinnar einnig, starfstíma hvers úthlutunaraðila úr tveimur árum í þrjú ár. Það byggist m.a. á hugmyndum sem úthlutunarnefndin er með, að venjulegur líftími gerðar hverrar kvikmyndar, ef má orða það þannig, sé um þrjú ár frá því að menn byrja og þar til myndin er tilbúin og æskilegt sé að þeir sem standa fyrir úthlutun til myndar geti fylgt henni eftir og haft samband og afskipti af myndinni. Það sé til stuðnings auðvitað fyrst og fremst þeim sem eru að framleiða myndina.
    Það er önnur brtt. varðandi 6. gr. frá meiri hl. nefndarinnar. Þar segir að með fjárframlagi sé átt við beina þátttöku Kvikmyndastofnunar í gerð kvikmynda, enda gerist þá stofnunin eignaraðili að myndunum. Með íslenskri kvikmyndagerð er átt við verkefni þar sem íslenskir aðilar hafa forræði. Mér hafa borist boð frá úthlutunarnefndinni þess efnis að hún telji þetta mjög vafasamt ákvæði. Ég tel að þetta þurfi að kanna

betur áður en þetta er ákveðið á þennan hátt. Mér er ljóst að þetta ákvæði var inni í því frv. sem kvikmyndagerðarmenn lögðu upphaflega fram fyrir ráðherra. Úthlutunarnefndin telur sig hafa sérstök rök til þess að mæla gegn þessu. Ég hef ekki haft aðstöðu til að meta það. Ég tek það sérstaklega fram og auðvitað er þetta eitt af þeim efnum sem menn hefðu þurft að gefa sér betri tíma til að skoða, en ég vildi hins vegar að þetta kæmi hér fram vegna þess að einn aðili í úthlutunarnefndinni ræddi við mig sérstaklega rétt fyrir þessa umræðu. Þá höfðu þeir setið á fundi í dag einmitt til þess að fjalla um þetta atriði. Og af þessari breytingu leiðir svo aftur breytingin í 7. gr. að tekjur til Kvikmyndasjóðs séu þá m.a. tekjur af eignarhluta í íslenskum kvikmyndum.
    Við 7. gr. eru enn fremur tvær brtt., þ.e. brtt. frá okkur, fulltrúum Sjálfstfl. í nefndinni, og fulltrúum Kvennalista. Mér sýnist að þær séu samhljóða. Við gerum sem samt ráð fyrir að auk tekna af áætluðum virðisaukaskatti af kvikmyndasýningum komi áætlaðar tekjur af útleigu myndbanda og af sjónvarpsauglýsingum.
    Nú segja menn vafalaust: Það hefur ekki gengið burðuglega hingað til að Kvikmyndasjóður fengi tekjur þær sem hann átti að fá, þ.e. áætlaðan söluskatt af kvikmyndasýningum, og það er vissulega rétt þó að það hafi verið mjög mismunandi frá ári til árs. Hins vegar er því mjög haldið fram varðandi virðisaukaskatt af kvikmyndasýningum að það leiði af eðli virðisaukaskattsins að hann verði lægri eftir þessa breytingu auk þess sem aðsókn að kvikmyndum hafi farið minnkandi. Á þetta get ég ekki lagt neinn dóm en þetta er auðvitað eitt af þeim málum sem þurfti að athuga í nefndinni og ég bað sérstaklega um að fá einhverjar tölulegar upplýsingar um hvað væri líklegt að þessi skattur gæfi en það fékkst ekki. Það var ekki gefinn neinn tími til þess. Málið þurfti að knýja í gegn þannig að þeirri beiðni var hafnað. En auðvitað horfði þar til betri vinnubragða að nefndin hefði getað áttað sig á því hvað þetta gæfi
líklega í tekjur. Það er þess vegna alveg ljóst að þetta frv. eins og það er gefur ekkert í auknar tekjur til kvikmyndagerðar. Við viljum marka þarna stefnu til framtíðar, að auka tekjur til kvikmyndasýninga og þess vegna bætist við áætlaður virðisaukaskattur af útleigu myndbanda og sjónvarpsauglýsingum.
    Ég vil geta þess í sambandi við rökin fyrir því, þar sem verður víst að samþykkja frv., að það rýmki fjárhag Kvikmyndsjóðs þar sem nú er gert ráð fyrir því að rekstrarkostnaður hans verði greiddur sérstaklega af ríkissjóði en ekki af þessum almennu framlögum sem Kvikmyndasjóður fær. Þetta er nú ekki nema 3 millj. kr. Það var upplýst í nefndinni að þetta væru 10 millj. kr. Við nánari athugun er það rangt. Það komst á kreik tala um 10 millj. kr. en við nánari athugun kom í ljós að inn í þeirri tölu voru ýmsir smærri styrkir og framlög til kvikmyndagerðarmanna, ferðastyrkir og annað þess háttar. Hinn raunverulegi rekstrarkostnaður sjóðsins er því ekki nema 3 millj. kr. Það er allt og sumt sem

verið er að tala um að auka fjárráð sjóðsins um.
    8. gr. er ásamt fleiri greinum gersamlega óskiljanleg, svo vitlaus og greinilega tómt rugl. Það var ekki nokkur leið að fá neinn botn í þá grein og mér sýnist að ekki sé enn þá búið að fá botn í hana þrátt fyrir brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur. Við komumst að þeirri niðurstöðu eftir bollaleggingar þó að við fengjum enga leiðbeiningu um það frá ráðuneytinu að 8. gr. fjallaði fyrst og fremst um lán en ekki styrki. Brtt. meiri hl. miðar að því að þar sem talað er um styrki í þessari grein komi orðið ,,lán``. En þar stendur enn þá samt: ,,Nú ákveður stjórn Kvikmyndasjóðs að lána til verkefnis.`` Samkvæmt frv. er það ekki verkefni stjórnarinnar að lána eða úthluta neinu fé. Það er úthlutunarnefndin sem á að fá það vald. Til þess að reyna þó að bæta úr þessari vitleysunni, sem meiri hl. nefndarinnar virðist ekki hafa viljað gera eða ekki gert, höfum við lagt hér fram fjórðu brtt. okkar sem er þess efnis að alls staðar þar sem talað er um stjórn Kvikmyndasjóðs í 8. gr. verði talað um úthlutunaraðila. Ástæðan er auðvitað sú, eins og ég sagði, að það er hvergi gert ráð fyrir því í frv. að stjórn Kvikmyndasjóðsins hafi með neinar fjárhagslegar úthlutanir að gera, hvorki styrki né lán. Þetta er því dæmi um eina villuna enn sem stendur í frv. og hefði auðvitað þurft að kanna miklu betur eins og allt annað.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú farið allrækilega yfir þetta mál og verð að segja að það er Alþingi til skammar, það er hv. menntmn. til skammar og hv. Alþingi til skammar að ætla sér að afgreiða þetta mál á jafnflausturslegan hátt. Í frv. eru enn fjölmörg atriði sem eru óljós, þarfnast nánari athugunar, þarfnast nánari skýringa. Við fengum ekkert tækifæri til þess, eins og ég hef getið um, í menntmn. Nd. að kanna það. Ég vildi svo sannarlega óska að menntmn. Ed. fengi betri tækifæri til þess að skoða þetta mál, en fyrir því er auðvitað engin trygging.
    Þess vegna leggjum við eindregið til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til nánari athugunar. Kvikmyndalistin missir ekki af neinu þó að þetta frv. verði ekki samþykkt. Þetta frv. bætir hennar hag á engan hátt, færir henni ekkert meira fjármagn. Við erum þar að auki bundnir í fjárlögum fyrir árið 1990 um framlag á þessu ári og þess vegna enginn skaði þótt þetta frv. bíði til hausts og hægt verði þá að skoða það betur á milli þinga og samþykkja vel unnið almennilegt frv. sem sé þessari ungu listgrein til sóma.