Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. heilbr.- og trn. (Jón Sæmundur Sigurjónsson):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér nál. frá heilbr.- og trn. um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Frv. um breytingu á 19. gr. þeirra laga er upphaflega flutt af Salome Þorkelsdóttur í Ed. Þar er lagt til að orðinu ,,slysaforvarnir`` sé bætt inn í textann. Ed. gerði breytingu á frv. sem var á þá leið að í stað orðsins ,,slysaforvarnir`` kæmi orðið ,,slysavarnir``.
    Heilbr.- og trn. hefur fjallað um frv. Hún er samþykk frv. eins og því var breytt í meðförum Ed. en þótti nauðsynlegt að gildistökuákvæði þess yrði breytt. Í upphaflega frv. var gert ráð fyrir að frv. tæki gildi 1. jan. 1990 en nefndin öll var þeirrar skoðunar að það skyldi taka gildi strax.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með þessari breytingu. Tillaga um hana er gerð á sérstöku þingskjali.
    Undir þetta nál. skrifar nefndin öll; Anna Ólafsdóttir Björnsson, Geir H. Haarde, Sólveig Pétursdóttir, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Geir Gunnarsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.