Öryggi á vinnustöðum
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Hæstv. forseti. Hér komu fram áðan athugasemdir við frv. sem ég held að byggist á því að viðkomandi hafi ekki skoðað frv. eða kynnt sér efni þess, því miður. Það sem kom mér kannski frekar á óvart er það að hv. 8. þm. Reykn. skrifar undir frv. með fyrirvara en segist síðan í ræðu ekki geta staðið að frv.
    Skilgreining á því hvað er barn, hvað er ungmenni, hvað er unglingur hefur verið nokkuð á reiki. Hér er tilgreint á hvaða aldursskeiði viðkomandi er sem telst unglingur, ungmenni, og er með þessu frv. reynt að koma þeim málum á hreint. Í 2. gr. er um það fjallað að ekki megi ráða börn yngri en 14 ára nema til léttra og hættulítilla starfa og ekki láta börn á aldrinum 14--15 ára né heldur þau sem yngri eru vinna við hættulegar vélar og hættulegar aðstæður.
    Ég vil benda á það að þessi ákvæði eru þegar fyrir hendi í kjarasamningum. Það hefur átt sér stað mjög jákvæð þróun í þessum efnum og er í raun lítið um það að unglingum eða börnum sé gert að vinna við hættuleg störf. Það er vegna þess að atvinnurekendur eru ekki tryggðir fyrir því að viðkomandi verði fyrir slysum og leitast því við að koma í veg fyrir að börn og unglingar starfi á hættulegum vélum eða við hættuleg störf. Það eru líka, eins og ég sagði áðan, ákvæði í kjarasamningum um að það megi ekki koma til.
    Hins vegar sækja börn og unglingar oft í það að sinna þessum störfum, þrátt fyrir allt, og með þessu frv. er leitast við að koma málum þannig fyrir að það sé alveg ótvírætt að það er ekki bara kjarasamningamál, heldur líka ólöglegt að láta börn og unglinga vinna á hættulegum vélum. Og hver getur verið á móti því? Hver getur verið á móti því að börn og unglingar séu vernduð fyrir hættum? Ég bendi á það að hér er ekkert ákvæði um það hvort börn megi vinna 10 tíma eða svo. Það eru önnur ákvæði vinnuverndarlaga sem segja til um vinnutíma og það lýtur líka að samkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins. Ég bendi líka á að fulltrúi Vinnuveitendasambandsins í stjórn Vinnueftirlitsins hefur lýst sig samþykkan þessari breytingu. Vinnumálasambandið hefur líka tjáð sig í umsögn til nefndarinnar samþykkt þessari breytingu sem sýnir okkur það eftir nákvæma skoðun að þeir telja rétt að kveða á um þessa hluti í lögum. Það er langt síðan fram komu óskir um að koma þessu í lög en því var frestað á sínum tíma vegna þess að ákveðið var að bíða eftir heildarendurskoðun laganna. Nú liggur þetta hins vegar hér fyrir sem þingmál og þykir mér sjálfsagt að deildin samþykki frv. til þess að kveða á um að börnum og unglingum verði bannað að sinna hættulegum störfum.
    Það hlýtur að vera sjálfsagt mál. Ég trúi því ekki að nokkur maður vilji standa að því að fella slíkt frv. og vísa ég þá aftur til þess að hagsmunaaðilar hafa komið því á framfæri að þeir telji eðlilegt að þetta verði lögfest.

    Ég vænti þess að svo verði gert.