Raforkuver
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Frsm. meiri hl. iðnn. (Karl Steinar Guðnason):
    Hæstv. forseti. Iðnn. hefur fjallað um frv. til laga um breyting á lögum nr. 60/1981, um raforkuver o.fl.
    Frv. þetta er ekki stórt í sniðum sem slíkt, aðeins fimm greinar ásamt ákvæði til bráðabirgða og fjallar um virkjanir. Hins vegar tengjast þessar virkjanir áformum um byggingu álvers, stóriðju. Því voru umræður í nefndinni mjög tengdar þeim ásetningi.
    Nefndin fékk til viðræðu um efni frv. Jóhannes Nordal, formann ráðgjafarnefndar um áliðju, Halldór Jónatansson, forstjóra Landsvirkjunar, Jóhann Má Maríusson, aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar, Friðrik M. Baldursson og Ingva Harðarson frá Þjóðhagsstofnun, sem ræddu við nefndina um þjóðhagsleg áhrif álvers, Sigurð Guðmundsson og Björn Ólafsson frá Byggðastofnun, um svipaða hluti, Elínu Pálmadóttur, varaformann Náttúruverndarráðs, Þórodd Þóroddsson, framkvæmdastjóra Náttúruverndarráðs, Kristin Einarsson, Auði Antonsdóttur og Sigurbjörgu Gísladóttur frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóra í iðnrn., Garðar Valdimarsson ríkisskattstjóra, Jakob Björnsson orkumálastjóra og Gunnar Kristinsson, hitaveitustjóra í Reykjavík.
    Í viðræðum við þessa aðila bar vissulega margt á góma. Enginn þeirra sem rætt var við var andvígur frv. og enginn þeirra lagðist heldur gegn því að hér yrði byggð stóriðja en það voru samt ýmis atriði sem rætt var um er lutu að náttúruvernd, skattlagningu hugsanlegs fyrirtækis o.fl.
    Það kom fram í máli Gunnars Kristinssonar, hitaveitustjóra hjá Hitaveitu Reykjavíkur, að hitaveitan teldi ástæðu til að óska eftir meiri virkjanaheimild en tilgreind er í frv. Þar er óskað eftir 38 mw. afli frá Nesjavöllum, þ.e. fyrsta áfanga. Hann taldi að gera þyrfti ráð fyrir frekari virkjunarheimild og taldi að það hefðu verið mistök hjá Hitaveitu Reykjavíkur að fara ekki fram á meira með tilliti til þess hversu langur gildistími ákvæðum frv. er ætlaður.
    Því varð nefndin sammála um að leggja til að svohljóðandi breyting yrði gerð á efnismálsgrein 2. gr. frv.:
    ,,Iðnrh. er heimilt að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 76 mw. afli, í tveimur áföngum (38 mw. hvor áfangi), enda liggi fyrir samningur um rekstur hvors áfanga virkjunarinnar um sig sem hluta af raforkukerfi landsins.``
    Þá ákvað nefndin að leggja til eins konar málhreinsun hvað varðar 4. gr. frv. þar sem orðið ,,stækkaða`` er hvarvetna fellt niður. Í greininni er talað um ,,stækkaða Búrfellsvirkjun``, ,,stækkaða Hrauneyjafossvirkjun``, ,,stækkaða Sigölduvirkjun`` og ,,stækkaða Kröfluvirkjun``. Það er skoðun nefndarinnar að það sé nóg að nefna aðeins virkjunina og það afl sem hún gefi þegar breytingin hefur átt sér stað, það færi betur í lagatexta.
    Ástæða er til að geta þess að nokkuð var rætt um

3. gr. frv. Meiri hl. nefndarinnar var sammála um að leggja til að sú grein yrði óbreytt.
    Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson skrifar undir frv. með fyrirvara og flytur brtt. við 3. gr. og mun gera grein fyrir henni hér á eftir.
    Niðurstaða meiri hl. nefndarinnar er sú að leggja til að frv. verði samþykkt ásamt þeim brtt. sem nefndin gerir.