Raforkuver
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég er samþykkur þessu frv., lýsti því þegar við 1. umr. málsins. Ég stend að meirihlutaáliti hv. iðnn. þar sem mælt er með samþykkt frv. Ég stend einnig að tillögu meiri hluta hv. iðnn. til breytinga á frv. á þskj. 1083. En eins og fram kemur í nál. þá skrifaði ég undir það með fyrirvara. Þessi fyrirvari varðar eina grein frv. sem er 3. gr. Efni 3. gr. frv. er það að þar er kveðið á eða gert ráð fyrir er kannski réttara að segja, að iðnrh. ákveði röð framkvæmda við virkjanagerð, en ekki Alþingi eins og er samkvæmt gildandi lögum. Ég hef fyrirvara um þetta og gerði nokkra grein fyrir sjónarmiði mínu við 1. umr. málsins. Það er að ekki eigi að hverfa í þessu efni frá þeirri skipan sem nú er, þ.e. að Alþingi sjálft ákveði virkjanaröðina.
    Þetta frv. er flutt til þess að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi. Það er tilgangurinn. Hvernig er þessum tilgangi náð? Honum er náð með ákvæðum 1. gr. frv. þar sem heimiluð er stækkun Búrfellsvirkjunar og Kröfluvirkjunar. Þessum tilgangi er náð með 4. gr. frv. þar sem staðfest er heimild Landsvirkjunar til þessara framkvæmda. Þessum tilgangi er fylgt eftir með ákvæði til bráðabirgða I þar sem ákveðin er röð framkvæmda. Þetta er meginefni frv. og þetta þýðir að greiða fyrir og gera nauðsynlegar ráðstafanir fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar.
    Annað sem um er að ræða í þessu frv. varðar ekki tilgang frv. að þessu leyti. Þar er um að ræða 2. gr. frv. sem fjallar um að heimila Hitaveitu Reykjavíkur að reisa og reka jarðvarmavirkjun til orkuframleiðslu á Nesjavöllum. Þetta er sérstakt ákvæði út af fyrir sig, sjálfsagt, og meiri hluti nefndarinnar gerir brtt. við þetta, og ég stend að þeirri brtt., um að hækka þessa heimild úr 38 mw. afli í 76 mw. afl.
    Þriðja tillaga frv. varðar í raun og veru ekki tilgang frv. í sjálfu sér sem ég hef áður greint frá. Efni 3. gr. frv. er um annað eins og ég sagði. Það er um að breyta þeirri skipan sem nú er í lögum að Alþingi ákveði virkjanaröð og færa þetta vald í hendur iðnrh. Þetta er ekki mál sem er nauðsynlegt eða óhjákvæmilegur hlekkur í aðgerðum til þess að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar.
    Ég ræddi nokkuð um það við 1. umr. hvaða sjónarmið lægju að baki þeirri skoðun minni að eðlilegt væri að Alþingi fjallaði sjálft um svo veigamikið atriði sem röð virkjanaframkvæmda er. Það væri pólitísk ákvörðun sem væri eðlilegt að Alþingi sjálft tæki og ákvarðaði um. Ég sé ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta. Efni brtt. minnar á þskj. 1087 er í raun og veru ekkert annað en að kveða á um að það sé óbreytt sú skipan sem nú er í lögum um það hver fari með ákvörðunarvald um röðun virkjanaframkvæmda. Formið á brtt. er það að 1. mgr. og 2. mgr. brtt. er óbreytt frá gildandi lögum. 3. mgr. er þess eðlis að hún er óbreytt frá frv., nema það er ekki gert ráð fyrir því að iðnrh. ákveði röð virkjanaframkvæmda.

    Ég ætla að þetta mál þurfi ekki af minni hálfu frekari skýringar. Það liggur augljóst fyrir hvers eðlis það er. Það er einfalt og brtt. boðar ekkert nýtt, hvorki frá gildandi lögum eða frv. sjálfu, nema það að ekki er gert ráð fyrir að iðnrh. fari með ákvörðunarvald um röðun virkjunarframkvæmda.