Raforkuver
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég vildi fyrst lýsa því yfir að ég er samþykkur brtt. meiri hluta hv. iðnn. Ég vildi þá víkja að því sem fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv. Ég vil gjarnan byrja á því að fullvissa þingmanninn um það að varnaðarorð hennar falla svo sannarlega ekki á dauf eyru. Þau eru heyrð og ég vil leyfa mér að halda því fram að það hafi aldrei verið undirbúningur að stórframkvæmdum, eins og þeim sem nú standa yfir, þar sem menn hafa lagt jafnmikið á sig til þess að tryggja fullkomnustu mengunarvarnir.
    Það er nú einu sinni svo að öllum mannlegum athöfnum fylgja umhverfisáhrif. Við erum svo lánsöm að búa í landi sem hefur meðal sinna auðlinda mikið rými, mikla möguleika til að leysa á skynsamlegan hátt umhverfisvanda. Við getum nýtt hér nýjustu tækni til þess að girða fyrir þá umhverfisvá sem víða steðjar að í iðnaðarlöndum veraldar. Með því að gera það erum við að taka þátt í verkaskiptingu þjóða heims til þess að verja plánetuna jörð fyrir varanlegum umhverfisspjöllum sem ég veit að hv. þm. af mikilli einlægni ber fyrir brjósti. Þetta er mikilvægt mál. Þess vegna er alls engin mótsögn í þeirri afstöðu sem ég lýsi með því að flytja þetta frv. og fyrri afstöðu sem hv. þm. kenndi við hinn mikilhæfa forustumann þýskra jafnaðarmanna, Oskar Lafontaine, sem hefur lýst mjög skilmerkilega þeirri skoðun að það þurfi að gæta þess að umhverfisspjöll séu ekki fylgifiskur efnahagslegra framfara. Þetta er mér jafnmikið alvörumál og hv. 6. þm. Reykv. og Oskari Lafontaine. En við megum ekki víkjast undan því að við þurfum líka að skapa traustan efnahagslegan grundvöll fyrir þau góðu lífskjör sem m.a. fela í sér gott og heilnæmt umhverfi.
    Ég ætlaði líka að endurtaka, virðulegur forseti, þá skoðun mína að álframleiðsla í orkuríku landi eins og Íslandi sé einmitt skynsamleg leið til þess að nýta auðlindir jarðar án umhverfisspjalla því að við getum lagt til orkuna frá orkulindum sem ekki hafa í för með sér umhverfismengun. Þetta er líka þáttur í því að nýta orkuforða jarðar betur því að hinn létti, ljósi málmur, hinn bjarti málmur framtíðar nýtist til þess að gera samgöngur sparneytnari, hversdagslífið ódýrara og þægilegra. Það er ekki rétt, sem hv. þm. hélt fram í 1. umr. um málið, að ál væri eitthvað sérstaklega notað til hernaðarþarfa. Því fer víðs fjarri. Notkun áls er dreifð yfir fjölmörg notkunarsvið. Ég leyfi mér að fullyrða að notkun þess hjá herjum heims sé sams konar og hjá heimilum heims, þ.e. hún dreifist yfir samgöngur, umbúðir, það sem menn borða af, það sem menn borða með, það sem þeir baða sig við og síðast en ekki síst, það sem þeir ferðast á. Þetta eru hinar hversdagslegu staðreyndir lífsins. Þetta eru hagsýnisrökin, rök hinnar hagsýnu húsmóður sem vill nýta auðlindir og framleiðslumöguleika jarðarkringlunnar á skynsamlegan hátt.
    Ég vildi líka benda á að það er ekki rétt sem haldið er fram í nál. minni hlutans, og kom fram í ræðu hv. 6. þm. Reykv., að skuldir Íslendinga vegna

virkjanaframkvæmda nemi nær helmingi af landsframleiðslu. Það er ekki rétt. Heildarskuldir okkar gagnvart öðrum ríkjum eru að vísu nálægt því að nema helmingi landsframleiðslu. En ég hygg að hlutfall skulda vegna orkuvera geti varla verið meira en fimmtungur til fjórðungur af þeim skuldum. Ég ætla ekki að fullyrða um það nákvæmlega hverjar tölurnar eru, en leyfi mér að staðhæfa að sú fullyrðing, sem fram kemur í nál og máli hv. þm., sé ekki rétt og af því að ég þekki hana að því að vilja hafa það sem sannara reynist leyfi ég mér að benda á þetta.
    Ég vík þá að því sem fram kom í máli hv. þm. um það að stóriðjan fæli í sér einhæf störf, yki ekki fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni og leysti ekki atvinnuvanda kvenna sem víða væru atvinnulausar. Ég er á öndverðri skoðun. Að reisa slíkt iðjuver, hvar sem það rís, felur í sér áhrif í kringum það, margfeldisáhrif sem kallað er á máli hagfræðinnar sem ég tel þó ekki sérlega lýsandi orð. Í raun og veru er því miklu betur lýst þegar maður segir að áhrifin seytli um engið eins og veituvatn. Þannig gerist það að það hríslast um allt og skapar störf fyrir marga aðra. Ég vil líka leyfa mér að benda á að í hinum nýtískulegu álverum, eins og því sem hér verður vonandi reist, fer hlutur kvenna í verksmiðjustörfunum vaxandi með nýrri og fullkomnari tækni. Hann er nú orðinn nálægt þriðjungi í þessum nýju álverum og fer hækkandi. Það er vel, þetta eru hátekjustörf. Ástæðan fyrir því að við erum að reisa slík iðjuver hér er mjög einföld. Við viljum reisa hér nýjan iðnað sem hefur lágan framleiðslukostnað á heimsmælikvarða en hátt kaup á heimsmælikvarða. Það eru slíkir vinnustaðir sem við viljum skapa. Okkur hefur tekist það á a.m.k. einum vinnustað, Járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga, sem er með einhvern lægsta framleiðslukostnað í heimi í sinni grein, en jafnframt góð kjör fyrir fólkið sem vinnur þar. Þetta eru röksemdirnar í hnotskurn fyrir því hvers vegna við eigum að ráðast í þessar stóru framkvæmdir.
    Ég vil því leyfa mér að gera ágreining við þá skoðun hv. þm. þar sem segir að aukin stóriðja og virkjanaframkvæmdir séu skammtímalausnir. Það eru þvert á móti langtímalausnir sem hér eru á ferðinni. Lausnir sem stuðla að því að nýta orkuforða jarðarinnar og hlífa umhverfi þegar litið er á málið í víðu samhengi og skapa lífvænleg afkomuskilyrði fyrir fólk um allt land.
    Ég kem þá, virðulegur forseti, að því sem kom fram hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni sem lýsti sig samþykkan meginstefnu frv. um virkjanaframkvæmdir en gerði fyrirvara vegna ákvæða 3. gr. Það er afstaða sem er skiljanleg á margan hátt, en ég vildi leyfa mér að benda á nokkrar röksemdir fyrir því að hafa þetta með því lagi sem lagt er til í 3. gr. frv.
    Það er í fyrsta lagi nauðsynlegur sveigjanleiki til að bregðast við breyttum aðstæðum. Ef samningar verða með öðrum hætti en menn ætla nú, og ef hagkvæmnismat á einstökum virkjunarkostum reynist

breytingum undirorpið, þá er eðlilegt að mínu áliti að framkvæmdarvaldinu sé falið, innan meginramma sem þingið hefur samþykkt með ákvæði til bráðabirgða eða með fjárheimildum, að velja það sem hagkvæmast er hverju sinni. Ég leyfi mér að minna hv. 4. þm. Vestf. á það að þegar við ræddum þetta mál í 1. umr. þá talaði hann mjög um það að eðlilegt væri að hafa nokkuð frjálsara form á ákvörðunum um smærri virkjanir, þær sem eru í 2. gr. frv. tilgreindar m.a. fyrir Hitaveitu Reykjavíkur. Þar lýsir hv. þm. að nokkru leyti annarri skoðun en hann lýsir þegar hann gerir brtt. sínar við 3. gr. Ég er honum sammála í fyrra fallinu, tel nauðsynlegt að framkvæmdarvaldið fái innan ramma heildarstefnunnar tækifæri til þess að haga málum þannig að hagkvæmustu kostir séu valdir á hverjum tíma og ekki þurfi að ónáða löggjafann með slíkum framkvæmdaratriðum vegna þess að ég ber það mikla virðingu fyrir honum. Og ég veit að þeirri skoðun minni deilir hv. 4. þm. Vestf. með mér.
    Þetta eru sjónarmiðin og ekki síst það að geta þá veitt virkjunarheimildir, ef hagkvæmar eru taldar, fyrir tiltölulega smáar virkjanir innan þessarar heildaráætlunar sem þingið hefur gefið samþykki sitt ef það samþykkir þetta frv. og þær fjárheimildir sem farið er fram á og mun síðar þurfa að staðfesta og veita ef þessir mikilvægu samningar nást.
    Ég vildi líka að lokum leyfa mér að benda á að í þeim lögum, sem giltu áður en raforkuveralögin voru sett árið 1981, og höfðu þá gilt um alllangan aldur, voru ákvæði lík þeim sem ég geri nú tillögu um að verði lögfest. Ég veit að raforkuverafrv., sem var samþykkt 1981, er að sjálfsögðu nú komið til endurskoðunar eftir áratug og líka sú þál. sem þá var afgreidd um virkjanaröð. Kannski er þarna fólginn nokkur reynslulærdómur af því hvernig hentugt sé að hafa þetta. Nú man ég ekki afstöðu hv. 4. þm. Vestf. til raforkuverafrv. árið 1981, en vildi aðeins minna á þetta í sögulegu samhengi.