Lánasýsla ríkisins
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ræða hv. 2. þm. Vestf. gefur mér tilefni til þess að rifja það upp fyrir honum að sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr, og hæstv. fjmrh., setti sér það meginmarkmið við framlagningu fjárlagafrv. og afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989 að ríkissjóður skyldi rekinn með umtalsverðum tekjuafgangi. Þetta var meginmarkmið ríkisstjórnarinnar í fjármálum ríkisins fyrir árið 1989. Hvað sem sagt hefur verið af hálfu hv. 8. þm. Reykv. haggar það ekki því að þetta var meginmarkmið þeirrar hæstv. ríkisstjórnar sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson er dyggur stuðningsmaður að. Og ég lýsti því hér í fyrradag hvernig þetta markmið hefði tekist. Ég þarf ekkert að ítreka það með fleiri orðum, það er alkunnugt, en mér þótti þó leitt að hæstv. fjmrh. skyldi ekki geta verið við þá ræðu. Hann hafði sínar afsakanir. Niðurstaðan varð sú sem ekki þarf að segja hv. 2. þm. Vestf., að í stað þess að ná markmiðinu um umtalsverðan tekjuafgang ríkissjóðs á árinu 1989 varð niðurstaðan halli upp á tæplega 6,1 milljarð. Það var ekki fyrir það að ekki væri aflað tekna í ríkissjóð með nýjum skattaálögum sem nálguðust 7 milljarða króna og það var ekki fyrir það að ekki væri skorið niður fé til hinna nauðsynlegustu framkvæmda. Fé til verklegra framkvæmda var skorið niður og fé til hinna nauðsynlegustu sjóða var einnig skert með þeim hætti að það stóð óbreytt í krónutölu. Og það var ekki fyrir það að ríkisstjórnin setti sér ekki markmið um sparnað og aðhald í ríkiskerfinu. Allt þetta ætlaði ríkisstjórnin að gera og hún skar vissulega niður útgjöldin til verklegra framkvæmda og til nauðsynlegustu tilfærsluverkefna, svo sem eins og til ýmissa sjóða. En þrátt fyrir öll þessi markmið var niðurstaðan sú að útgjöldin fóru 9,6 milljarða fram úr heimildum fjárlaga og þó að tekjurnar væru stórhækkaðar og hækkuðu um 2,9 milljarða umfram fjárlög, þá hækkuðu útgjöldin enn þá meira vegna þess að markmiðin ruku út í veður og vind vegna
þess að hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn sinntu ekki því verkefni sínu að ná því markmiði sem til var ætlast um sparnað og aðhald. Þess í stað var sóun og eyðsla ríkjandi hjá hæstv. ríkisstjórn og fyrst og fremst og meira en alls staðar annars staðar í fjmrn. sjálfu.
    Þetta er nú þessi saga og hana ætti hv. 2. þm. Vestf. að kunna og ekki ætti að þurfa að rifja hana upp fyrir honum hér á hverjum degi í hv. deild. En það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu er að minni hyggju þess efnis að það kynni að vera til bóta og í sjálfu sér er ekki vanþörf á því, miðað við reynslu síðustu missira, að taka upp nýja skipan að því er varðar lánaumsýslu ríkissjóðs. Ég bind nokkrar vonir við það að með frv. sé stigið skref í átt til bóta hvað þetta snertir og það er ekki vanþörf á. Hefði kannski verið full ástæða til að það hefði verið gert fyrr og Alþingi hefði kannski átt að átta sig á því að það væri þörf á að gera það fyrr, miðað við það hvernig þessi mál hafa verið framkvæmd af hæstv. fjmrh.
    Hér segir í fjölmiðlum í gær frá ársfundi

Seðlabankans, sem mér kemur vissulega ekkert á óvart því að mér var það kunnugt áður, að nettóskuldir ríkissjóðs hafi þrefaldast á síðustu fimm árum, og það segir, sem við fjárveitinganefndarmenn vitum, að vaxtagreiðslur ríkissjóðs séu orðnar um 10% af ríkisútgjöldunum eða að nálgast 10 milljarða kr. Og það er haft eftir seðlabankastjóra, hv. 2. þm. Vestf. vakti athygli á því í gær, að svo væri komið að það væri a.m.k. umhugsunarvert hvort ekki bæri að taka yfirdráttarheimildina í Seðlabankanum af hæstv. fjmrh. miðað við það ráðslag sem hefur verið í þessum málum á síðustu missirum.
    Þetta er sú staða sem hv. 2. þm. Vestf. hefði sjálfur átt að rifja hér upp sem forsendur fyrir því að nauðsynlegt væri að koma þarna á nýrri skipan og samþykkja þetta frv. sem ég vonast til að geti komið meira lagi á þessi mál. Það er augljóst að með eldri skipan hefur þetta farið gjörsamlega úr böndunum í höndum hæstv. fjmrh. svo að hann þarf að kveðja þar til einhverja nýja menn og fá þeim þessi verkefni í hendur.
    Það má kannski gleðja hæstv. fjmrh. ( Gripið fram í: Nei.) Hann getur þá rætt um þetta mál á fundum sínum sem hann ætlar að halda um landið á kostnað okkar skattborgaranna, áróðursfundum um stöðuna í efnahagsmálum og fjármálum ríkissjóðs. Þarna getur hann þá fundið eitt tilefni til þess að tala um framtíðina því hann vill lítið tala um fortíðina á þessum fundum. Hann getur sagt mönnum það að nú ætli hann að koma hér á nýrri skipan varðandi lánamál því að samkvæmt eldri skipan hafi þetta allt farið í handaskolum hjá honum þannig að Seðlabankinn sé að hugsa um að taka af honum yfirdráttarheimildina. Það er rétt að hann segi mönnum frá þessu á þeim fundum sem hann ætlar að halda. Hæstv. fjmrh. segir hér svo skilmerkilega í þessari auglýsingu, með fallegri mynd og góðu letri, að fyrirspurnum verði svarað um nútíð og framtíð. Og þetta er vitaskuld mjög heppilegt fyrir þennan hæstv. ráðherra og stjórnmálaforingja, að forðast að svara fyrirspurnum um það sem gerst hefur. Hann ætlar að svara fyrirspurnum um framtíðina. Ég man aldrei eftir því að hafa séð auglýsingu frá stjórnmálaforingja fyrr í þá veru að hann efni til
fundar til að svara fyrirspurnum um framtíðina. Ja, það er mikil viska hæstv. ráðherra. ( PP: Þetta gerðu spámennirnir í Biblíunni.) Já, hann fetar kannski í þeirra slóð. Hins vegar er auðvitað vel skiljanlegt að hæstv. ráðherra kýs ekki að svara fyrirspurnum um það sem gerst hefur því þar kæmist hann nú heldur í mikinn vanda miðað við árangurinn í fjármálum ríkisins í hans tíð, sem ég hef nú lýst hér úr þessum ræðustól, sem táknar það að öll markmið hæstv. ráðherra hafa farið út í veður og vind og árangurinn hefur orðið slíkur að markmiðin hafa snúist í andhverfu sína. Í stað þess að ná umtalsverðum rekstrar- og tekjuafgangi náði hann yfir 6 milljarða halla.
    Sú prófraun sem hæstv. ráðherra gekk undir á sínu fyrsta heila fjárlagaári þessarar hæstv. ríkisstjórnar og

þessa hæstv. fjmrh. fór með þeim hætti að hann skilur við það ár með falleinkunn. Og þessu ætti hann að skýra þeim frá á fundum sínum um landið og víkja örfáum orðum að því sem gerst hefur þó að hann kjósi svo að svara engum fyrirspurnum því að þær geta verið óþægilegar og betra fyrir hann að vera með spásagnir um það hvað kann að gerast í framtíðinni, sérstaklega eftir að hann væri nú hættur sem ráðherra í ríkisstjórninni og þessi hæstv. ríkisstjórn komin frá sem hlýtur að draga að fyrr eða síðar.