Félagsráðgjöf
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Herra forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að koma þessu máli hér á dagskrá í von um að það megi koma því til nefndar. Það er örstutt framsöguræða fyrir þessu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 41/1975, um félagsráðgjöf.
    Í kjarasamningum við félagsráðgjafa sem undirritaðir voru 14. apríl 1987 var gerð sérstök bókun þar sem því var lofað að kannaðir yrðu möguleikar á sérfræðiviðurkenningum innan félagsráðgjafar. Sálfræðingar fengu sambærilega bókun í sinn kjarasamning og voru lög þess efnis samþykkt vorið 1988, lög nr. 68/1988, þannig að fyrir nokkru síðan er búið að standa við það fyrirheit sem þar var gefið.
    Í frv. því sem hér liggur fyrir er annars vegar gert ráð fyrir að efnt verði loforð við félagsráðgjafa um sérfræðiviðurkenningar og hins vegar gerðar nauðsynlegar breytingar á lögunum vegna þess að nú er hægt að ljúka félagsráðgjafanámi frá Háskóla Íslands en var ekki þegar lögin voru samþykkt í upphafi 1975. Þá er og gerð tillaga um ákvæði í lögin sem leggur þá skyldu á herðar félagsráðgjafa að þekkja vel skyldur sínar samkvæmt lögum, viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar er starfið varða en sambærilegt ákvæði er í lögum margra annarra heilbrigðisstétta. Loks er bætt inn í ákvæði um að félagsráðgjafar starfi á eigin ábyrgð og er það einnig í samræmi við þá hefð sem skapast hefur um störf félagsráðgjafa.
    Rétt er að taka fram að félagsráðgjafar hafa verið lögvernduð heilbrigðisstétt frá árinu 1975, þannig að hér er engin breyting á hvað það varðar.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.