Heilbrigðisþjónusta
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegi forseti. Ég hefði óskað eftir því að hæstv. ráðherra væri hér og hlýddi á mál mitt. Eins væri æskilegt að hv. formaður heilbr.- og trn., sem á að fá þetta mál, væri viðstaddur umræðu um málið ef hann er í húsi. Mér finnst það eiginlega tilhlýðilegt almennt að nefndarformenn fylgist með málum sem á að fara að vísa til þeirra. ( Forseti: Forseti vill láta þess getið að hann hefur gert ráðstafanir til þess að kalla á umræddan nefndarformann.) Ég þakka virðulegum forseta.
    Ég ætla ekki að flytja hér langt mál um þetta annars merka þingmál en vil leyfa mér að koma fáeinum athugasemdum á framfæri og ábendingum til þingnefndar. Örfá orð almennt um meðferð heilbrigðismála og löggjöf þar að lútandi. Mér hefur fundist þau ár sem ég hef setið á þingi að þessi málaflokkur væri dálítið út undan í sambandi við meðferð. Það er dálítið erfitt fyrir þá sem utan við standa og ekki eru beinir þátttakendur í því kerfi sem hér er eða þekkja það af eigin raun að átta sig á uppbyggingu þess og meðferð mála hjá framkvæmdarvaldinu í einstökum atriðum. Á þessu þarf nauðsynlega að ráða bót. Ég tel að eftir að meðferð mála hefur verið einfölduð með breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá síðustu áramótum, sem er með vissum hætti tilefni þess að þessi lög um heilbrigðisþjónustu eru nú endurskoðuð, þá gefist tækifæri til að gera starfsemi heilbrigðisþjónustu í landinu skilvirkari og skiljanlegri fyrir þá sem hennar eiga að njóta. Það er vafalaust það sem að er stefnt með því frv. sem hér er til umræðu.
    Þau atriði sem ég hef sérstaklega litið á varðandi þetta mál snerta ekki höfuðborg landsins, sem hefur nú verið allmikið umrædd í sambandi við málefni heilbrigðisþjónustunnar á undanförnum árum, heldur miklu frekar það sem kallað er landsbyggð, þ.e. landið utan höfuðborgarsvæðisins. Þar er landinu skipt í
heilbrigðisumdæmi, svokölluð héruð, sem héraðslæknum er ætlað að sinna fyrir hönd heilbrrn. og raunar einnig svæðisins. Þessi skipan er góðra gjalda verð svo langt sem hún nær. En mjög mikið skortir á það að mínu mati að þessi vísir að svæðisbundinni skipan sé þannig upp byggður eða að honum búið að hann ráði við eitthvað í reynd. Ég horfi mjög til þess að þessi svæðisbundna stjórn heilbrigðisþjónustunnar verði styrkt. Ég tel að hana þurfi að styrkja með því að tryggja að þeir aðilar, sem ríkisvaldið ætlar verulegt hlutverk í viðkomandi umdæmum, geti sinnt því hlutverki svo vel sé og haldið utan um þau mál sem þeim er ætlað að sinna.
    Frá árinu 1978 hafa verið stofnuð svonefnd heilbrigðismálaráð í læknishéruðum landsins. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að þau hafa ekki getað rækt hlutverk sitt eins og löggjafinn ætlaði þeim þegar ákvæði um þau voru sett. Ástæðan fyrir því er sú, að mínu mati, að ekki hefur verið búið að þessum heilbrigðisráðum sem skyldi. Heimaaðilar sem í þeim

eiga að starfa hafa ekki megnað að lyfta starfi þeirra eins og þörf væri á og e.t.v. hefur einnig skort á að ráðuneyti viðkomandi mála hafi á þessu tímabili, ég er að tala um tímabilið allt, veitt þann stuðning sem nauðsynlegur væri.
    Ég hef af þessu tilefni leyft mér að leggja inn í sameinuðu þingi sérstaka þáltill. á þskj. 1025 um skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmum landsins. Ég vil leyfa mér að nefna það mál, sem er nýlega fram lagt í sameinuðu þingi, í þessu samhengi hér þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að komið verði á fót í kjördæmum landsins á næstu fjórum árum skrifstofum heilbrigðismála, sem sinni m.a. verkefnum fyrir héraðslækna, heilbrigðismálaráð og Tryggingastofnun, svo og fjárhagslegri og faglegri áætlanagerð og eftirliti með heilbrigðisþjónustu á svæðinu.``
    Ég er sannfærður um að mjög mikil og brýn þörf er fyrir slíka styrkingu í umdæmum landsins. Auðvitað væri hægt að taka þá skipan mála sem hér er verið að leggja til inn í þetta frv. ef vilji væri fyrir hendi og tengja hana meðferð þessa máls hér á Alþingi nú. Ég hef ekki ætlað mér sérstaklega að fara að knýja á um það, miðað við að samstaða sé um að afgreiða þetta frv. og lögleiða hér. E.t.v. telja menn að það þurfi meiri undirbúning og meiri skoðun en ráðrúm er til nú. En ég er mjög sannfærður um að þetta þurfi að koma og ég tel að í rauninni sé viðurkennt í grg. með frv. að þarna séu brotalamir. Og mér sýnist að hv. heilbr.- og trn. efri deildar hafi ekki tekið undir þá viðleitni, sem þó má lesa út úr frv., að styrkja aðstöðu heilbrigðismálaráðanna, með því að fallast ekki á það sem lagt er til í 4. gr. frv., að í heilbrigðismálaráð skuli settir formenn stjórna heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa í héraði. Við fljótan samanburð sýnist mér að þessu ákvæði hafi verið breytt. Í rökstuðningi með 4. gr. frv. segir að það sé einmitt þetta, að fela formönnum þessara aðila að vera í heilbrigðismálaráðunum --- og ef ég hef skilið það rétt, að leggja þar fram aukið starf. Af því að þeir eru formenn stjórna geti þeir veitt heilbrigðismálaráðunum meiri stuðning en ella. Við þessu er ekki orðið. Ég vek athygli á orðalaginu í athugasemd við 4. gr. frv., þar sem út úr skín þessi óskaplegi vandræðagangur í sambandi við hlutverk og
aðbúnað heilbrigðismálaráðanna. Það er látið að því liggja af ráðuneytisins hálfu, af hæstv. ráðherra sem ber málið fram, að þetta sé svona lokatilraun til að koma einhverri styrkingu við áður en taka yrði ákvörðun um að leggja þessi ráð niður. En það á ekki að gera. Og ég segi: Það er ekki kostnaðarauki að því í raun að setja upp skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmum landsins, í læknishéruðum landsins, vegna þess að ég er alveg sannfærður um að það mundi skila sér margfalt í bættri stjórnun, eftirliti og betri meðferð fjármuna í sambandi við heilbrigðisþjónustuna úti í héruðum landsins en nú er.
    Ég hef raunar verið þeirrar skoðunar, og er það enn, að í þessum málaflokki, heilbrigðismálunum, sé

um talsvert mikla sólund að ræða. Þar hafi ákvarðanir varðandi fjárfestingar verið mjög handahófskenndar um langt skeið vegna þess að skort hefur áætlanir, skipulag á fjárfestingunni og skilmerkilega verkaskiptingu. T.d. eru engin ákvæði um það hvaða verkefni í heilbrigðisþjónustunni eigi raunverulega að leysa í héruðum landsins, hvaða verkefnum sjúkrahúsunum, sem hafa verið byggð upp sums staðar af myndarskap í héruðum landsins, sé ætlað að sinna. Það er læknanna að segja til um það hvert sjúklingarnir eigi að fara í hverju tilviki. Og eins og á fleiri sviðum, þegar ekki eru neinar leiðbeiningar um það, þá liggja leiðirnar suður. Það er ekki bara þjónustan --- það er oft talið að þjónustan sé betri hérna en hún er í mörgum tilfellum miklu lakari gagnvart sjúklingum en þeir geta fengið í eigin héruðum --- heldur koma inn aðrir þættir. Það eru kannski skyldmenni í Reykjavík sem geta litið til með viðkomandi sjúklingi eða aðrar aðstæður sem vekja áhuga sjúklinga öðru fremur á að leita þjónustu í höfuðstaðnum. Þarna vantar leiðsögn og skilmerkilega verkaskiptingu þannig að fjárfestingin og þjónustan, sem byggð hefur verið upp með ærnum tilkostnaði vítt um landið, nýtist raunverulega og þeir sérmenntuðu menn sem ráðnir hafa verið í þessar stofnanir horfi ekki upp á það að öll verkefni fari til Reykjavíkur ,,af því bara``, af því að það er enginn farvegur, enginn mótaður farvegur hverju á að sinna hvar í þessari dýru þjónustu.
    Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að nefna það líka að félmn. sameinaðs þings hefur verið að athuga svonefnda heilbrigðisáætlun, ég held ég fari rétt með það, heilbrigðisáætlun sem er ætlað að gilda til ársins 2000 og marka þar stefnu. Nefndin hefur ekki afgreitt þetta mál frá sér og er með það enn í athugun. Í rauninni hefði verið þörf á því að mínu mati að byrja þar með stefnumarkandi áætlun fyrir næstu tíu ár eða svo, og þingið tæki afstöðu til þess. Svo kæmu lagabreytingarnar sem varða málaflokkinn. En í rauninni er þetta ekkert tengt saman. Og ég tel það mjög miður og alls ekki þau vinnubrögð sem ætti að viðhafa í svo stórum málaflokki.
    Þörf er á því að taka þessi mál, heilbrigðismálin og heilsugæsluna í landinu, miklu fastari og ákveðnari tökum en gert hefur verið um langt skeið. Ég er ekki að gagnrýna núverandi málsmeðferð sérstaklega, þetta er í rauninni þróun í gegnum alllangt tímabil. Það væri þörf á því að vinna þetta upp frá nýjum grunni og átta sig mun betur á því hvernig eigi að skipa þessum málum. En alltaf má lögum breyta og ég ætla ekki að leggjast gegn því að þetta frv. verði lögfest, miðað við að góð samstaða sé um það. En ég vek áthygli á þessum þáttum. Það er ástæða til að líta mjög gagnrýnið á þessa uppbyggingu alla og nauðsynlegt að þingið taki sér tíma til þess, hvort sem það verður nú eða á næsta þingi.