Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Við gerð kjarasamninga 1. febr. sl. tókust samningar á milli aðila vinnumarkaðarins og bænda um landbúnaðarverð á samningstímanum. Bændur lögðu þar áherslu á að áburður mætti ekki hækka um meira en 12% á þessu ári. Því máli var vísað til ríkisstjórnarinnar í þeim viðræðum sem ríkisstjórnin átti við aðila vinnumarkaðarins og bændur. Við athugun á áburðarverðshækkunarþörf taldi ríkisstjórnin að 12% væri að vísu í þrengra lagi en gæti þó gengið.
    Við gerð fjárlaga var talið, og það kemur fram í forsendum fjárlaga, að áburðarverð á árinu 1990 þyrfti að hækka um 16,9%. Sú ákvörðun var hins vegar byggð á allt öðrum forsendum en orðnar voru 1. febr. Við gerð fjárlaga var gert ráð fyrir því að verðbólga á árinu 1990 yrði um 11%, en eftir kjarasamningana um 7%. Við gerð fjárlaga var jafnframt gert ráð fyrir því að gengið þyrfti nokkuð að breytast á árinu 1990, sem er eðlilegt með meiri verðbólgu. En eftir gerð kjarasamninganna og við spár um minni verðbólgu var hins vegar ljóst að gengið gæti orðið stöðugt, ef ekki fast, á árinu 1990. Og með tilliti til þess að Áburðarverksmiðjan er með sínar skuldir fyrst og fremst í erlendum gjaldeyri, m.a. er rekstrarfé erlend lán, er ljóst að þetta léttir töluverðri greiðslubyrði af Áburðarverksmiðjunni.
    Í lögum segir að áburðarverð skuli ákveðið af stjórn verksmiðjunnar í samráði við landbrh. Að vísu má geta þess að nokkurt misræmi er á milli þessa lagaákvæðis og skipunarbréfs stjórnarmanna. Í skipunarbréfi segir að stjórnarmenn skuli gera tillögu um áburðarverð til landbrh. sem tekur
endanlega ákvörðun. Ríkisstjórnin telur hins vegar ljóst að þarna hljóti lögin að ráða.
    Þegar tillaga kom frá stjórn Áburðarverksmiðjunnar um áburðarverð var þar lagt til að hækkun áburðarverðs yrði 22,3%. Það kom satt að segja mjög á óvart, bæði með tilvísun til þess sem forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir og með tilvísun til þeirra breytinga sem höfðu orðið á forsendum í þjóðarbúskapnum frá því að sú áætlun var gerð. Þetta hefur síðan verið ítarlega athugað, bæði á rekstraráætlun verksmiðjunnar sem verksmiðjan sjálf hefur gert og einnig hefur verið gerð áætlun sem Fjárlaga- og hagsýslustofnun hefur farið yfir. Nokkuð bar á milli að vísu og eru ýmsar ástæður til þess, m.a. hvað ætla má að áburðarsala verði mikil, 50 eða 52 þús. tonn. En í grófum dráttum virðist að með 12% hækkun áburðar verði fjárvöntun upp á 108--120 millj. kr.
    Í útreikningum verksmiðjunnar var gert ráð fyrir töluverðri fjárfestingu, eða upp á 105 millj. kr. Sú fjárfesting er nokkurn veginn sú sama og hallinn er áætlaður. Í áætlun verksmiðjunnar yfir fjárfestingar er gert ráð fyrir að ljúka smíði ammoníaksgeymis sem kostar 19,9 millj., ljúka við tölvuvæðingu upp á 2,3 millj. kr., byggja stjórnstöð fyrir 3 millj. kr., setja upp rafgreina fyrir 66,4 millj. kr. og svo er ýmis

vélbúnaður fyrir 13,4 millj. kr.
    Með fjárveitingu til ammoníaksgeymisins nýja er byggingu hans lokið og hefur þá sá geymir verið greiddur út af rekstri. Ég er ekki að mæla gegn því að svo sé á málum haldið. Það er vitanlega mjög æskilegt að geta haft reksturinn það góðan að unnt sé að ráðast í fjárfestingu upp á 105 millj. kr. sem að sumu leyti er viðhald, við getum sagt að nýr ammoníaksgeymir sé viðhald, en að sumu leyti er þar um framkvæmdir að ræða sem munu bæta rekstur verksmiðjunnar og rekstrarafkomu hennar, framleiðniaukandi framkvæmdir. Miðað við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu má hins vegar eins færa rök fyrir því að ekki sé óeðlilegt að tekið sé lán til svona framkvæmda.
    Í þessu sambandi verður vitanlega að skoða efnahag verksmiðjunnar. Í ljós kemur að hann er allgóður. Eigið fé verksmiðjunnar er rúmar 1200 millj. kr., skuldir hennar um 700 millj. kr. en verksmiðjan er metin á yfir 2 milljarða kr. Eiginfjárstaða verksmiðjunnar er því góð og hún þolir þess vegna nokkra lántöku. Engu að síður þótti sjálfsagt í viðræðum hæstv. landbrh. við verksmiðjustjórnina, og kemur fram jafnframt í samþykkt ríkisstjórnarinnar, að hafa þar varnagla. Í samþykkt ríkisstjórnarinnar þar sem samþykkt er að leggja til 12% hækkun, segir jafnframt svo, með leyfi forseta:
    ,,Gerð verði ítarleg úttekt á rekstrarafkomu og stöðu Áburðarverksmiðjunnar fyrir næsta haust og metnar forsendur fyrir nauðsynlegum verðbreytingum á framleiðslu ársins 1991 til að vinna upp rekstrartap á þessu ári. Fyrirsjáanlegt rekstrartap ársins sem ekki sýnist svigrúm til að bæta upp á næsta ári verður tekið til meðferðar við afgreiðslu fjáraukalaga á síðari hluta ársins.``
    Ríkisstjórnin tjáði sig þannig fúsa til að skoða afkomu verksmiðjunnar eftir þeim leiðum sem var bent á, m.a. í stuttri umræðu hér á þingi, að fara mætti nú, þ.e. að veita fjármagn á fjáraukalögum og greiða áburðinn þannig niður. Ríkisstjórnin telur hins vegar að ekki liggi ljóst fyrir að afkoma verksmiðjunnar verði svo slök á árinu að það þurfi að gera nema þá að mjög litlu leyti.
    Í því sambandi vil ég m.a. benda á að þarna fer mjög eftir sölu áburðar. Í þeirri áætlun sem Áburðarverksmiðjan sjálf hefur gert kemur fram að ef tækist að selja 5 þús. tonn til viðbótar, t.d. til landgræðsluátaks eða skógræktar sem við erum nú sumir að stuðla að hér, mundi rekstrarafkoma verksmiðjunnar batna um 50 millj. kr. Það má því vel vera að fleiri leiðir geti orðið til þess að stuðla að bættri rekstrarafkomu. Auk þess er Áburðarverksmiðjan með mjög viðamikið átak til að bæta sinn rekstur, auka hagræðingu, tölvuvæða, koma upp betri stjórnklefa o.s.frv., sem allt mun svo sannarlega bæta reksturinn á næstu árum. Þá mun Áburðarverksmiðjan bera betur að þessu leyti en hún hefur gert einhverjar lántökur.
    Ríkisstjórnin telur að sjálfsögðu ekki annað koma til greina en að standa við það sem samið var um í

kjarasamningum, og ég vil undirstrika það hér ef einhver efast um það. En eins og ég hef nú rakið, og ætla að stytta mál mitt, þá telur ríkisstjórnin við ítarlega yfirferð á afkomu og stöðu Áburðarverksmiðjunnar og m.a. með tilvísun til þess sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og breyttra þjóðhagsforsendna að Áburðarverksmiðjan þoli að áburðarverð hækki ekki nema um 12%. Ríkisstjórnin er þó reiðubúin að skoða afkomu verksmiðjunnar síðar á árinu og bæta það sem óhjákvæmilegt getur þá talist eða koma til Alþingis með ósk um að það verði lagfært.
    Ég vil ekki hafa þetta lengra mál þó að margt fleira mætti vitanlega segja um rekstur Áburðarverksmiðjunnar. Ég sleppi því en vil leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.