Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Það er nú mál til komið að taka á þessum málum því að Íslendingar eru orðnir frægir um Norðurlönd a.m.k. fyrir kæruleysi og skeytingarleysi í þessum efnum. Það er vitað t.d. að sérstaklega Svíar, jafnvel Norðmenn, flytja ekki inn frá sumum þessum löndum öðruvísi en undir ströngu eftirliti og reyna að komast fram hjá því. Það er því ánægjulegt ef nú verður gerð gangskör að því að taka á þessum málum yfirleitt. Það er engin launung á því að í sambandi við innflutning á blómum hafa komið inn hin og önnur kvikindi, sem er erfitt að eiga við, fyrir eftirlitsleysi. Það er alveg sama með matvælin. Ég vona því að hæstv. landbrh. gangi hart fram í því að herða þetta eftirlit eftir því sem hann hefur frekast tök á.