Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Í þeirri von að ég geti örlítið upplýst hv. síðasta ræðumann á þeirri einu mínútu sem kannski lifir eftir af áætluðum fundartíma vil ég fyrst byrja á því að upplýsa að áður en frv. var lagt fram var, af minni hálfu að sjálfsögðu, haft samband bæði við viðskrn. og utanrrn. og óskað sérstaklega eftir því að þeir aðilar færu yfir það hvort gjaldtaka af þessu tagi væri ekki fyllilega í samræmi við þátttöku okkar í fríverslunarsamtökum og alþjóðlega tollabandalaginu. Svo var úrskurðað, bæði af utanrrn. og viðskrn. Þar þekktu menn í raun ekki nema eitt dæmi um að slík gjaldtaka hefði valdið deilum. Það eru Svisslendingar sem hafa farið dálítið langt út á þá braut að láta gjaldtöku af innflutningi standa straum af sjúkdómsvarnaaðgerðum innan lands, ekki í sjálfum innflutningnum. Það hefur þótt brjóta í bága við almennar heimildir til slíkrar gjaldtöku.
    Ég bendi á að hér er ekki heimilt að fara hærra en í 2% þannig að um eitthvað sem umtalsverð vernd fælist í getur naumast orðið að ræða, enda alls ekki hugsunin heldur fyrst og fremst að greiða raunkostnað við eftirlitið og efla það. Reglugerð er því miður ekki fullbúin í ráðuneytinu, en landbrn. hefur haft forgöngu um það, og ég hygg ég megi segja öðrum ráðuneytum fremur, að hafa samráð við fagnefndir Alþingis um svona vandasamari reglugerðarútgáfu, eins og ég veit að einhverjir hv. þm. þekkja. Það er sjálfsagt mál að senda landbn. drög að þessari reglugerð, sem væntanlega yrði undirbúin í sumar og gefin út með haustinu, áður en gildistakan fer fram 1. jan. nk.
    Að lokum eingöngu þetta. Hér er fyrst og fremst verið að efla þetta sjúkdómaeftirlit. Það er rétt sem hv. 1. þm. Reykv. sagði. Það þarf að taka betur á ýmsum málum á þessu sviði og það er reyndar verið að gera það og, eins ég nefndi áðan, kom til að mynda út eftir mikla vinnu núna á dögunum viðamikil reglugerð um innflutningsmálefni á ávöxtum, grænmeti, plöntum og öllu því. Og það verður áfram unnið að endurskoðun löggjafar til að mynda um varnir gegn smitsjúkdómum í búfé og fleira því um líkt er allt til endurskoðunar í ráðuneytinu nú. Ég vonast til þess að innan svo sem eins til tveggja ára verði lokið heildaryfirferð yfir lagaákvæði og reglugerðir sem lúta að sjúkdómavörnum, innflutningi og forvörnum öllum á þessu sviði.