Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er fyrir margra hluta sakir gott skólabókardæmi um það hvernig vinstri stjórnir halda á efnahags- og fjármálum. Þetta er einnig skýrt dæmi um það hvernig núv. hæstv. ríkisstjórn hefur haldið á efnahags- og fjármálum, skýrt dæmi um það hvernig ákvarðanir hún hefur tekið í þeim efnum, í stórum hlutum sem smáum. Ég ætla ekki að leggja mælikvarða á stærð þessa máls, sem hér er til umræðu í dag í hlutfalli við önnur, en eftir stendur að það er lýsandi dæmi um vinnubrögðin.
    Við höfum oft áður haft vinstri ríkisstjórnir í landinu. Á árunum 1956--1958 sat ein slík stjórn. Að henni stóðu að mestu sömu flokkar og að núv. hæstv. ríkisstjórn. Í henni sátu sömu fjölskyldurnar og í núv. hæstv. ríkisstjórn. Hún beitti sömu efnahagslegu úrræðum og núv. hæstv. ríkisstjórn og flest bendir til að hún muni fá sömu eftirmæli og sú hæstv. ríkisstjórn er þá sat.
    Pétur Benediktsson bankastjóri skrifaði og gaf út þekkt rit á þeim tímamótum í stjórnmála- og efnahagssögu Íslands þegar vinstri stjórnin fór frá 1958 og upphaf viðreisnar hófst. Sú bók fékk nafnið Milliliður allra milliliða og var öðrum þræði uppgjör við vinstristjórnarstefnuna, sem fylgt hafði verið og menn töldu að Íslendingar hefðu kvatt fyrir fullt og allt, en á hinn bóginn var þessi bók stefnuyfirlýsing nýs tíma, nýrra viðhorfa og nýrra vinnubragða í efnahagsmálum, frjálslyndra viðhorfa og tengsla við aðrar þjóðir um mótun efnahagsstefnu og efnahagssamvinnu. Í inngangi bókarinnar segir Pétur Benediktsson þetta, með leyfi forseta, um þá vinstri ríkisstjórn sem nýlega hafði látið af völdum:
    ,,Ríkisstjórn sú sem sjálf skreytti sig með nafninu stjórn hinna vinnandi stétta, án þess þó að gera grein fyrir hvaða stéttir á Íslandi það eru sem ekki vinna, gekk fyrir ætternisstapa í desember 1958. Hún er talin hafa verið lánminnsta stjórn þessa lands síðan á tímum Friðriks VI. og má gefa henni hið sama eftirmæli sem Þorsteinn Erlingsson gaf honum: ,,Þú sefur nú vært og sofðu í eilífri ró.`` En þótt ríkisstjórnin skildi við skildi hún vandamálin óleyst eftir.``
    Þetta er lýsing Péturs Benediktssonar á þeim tíma á viðskilnaði þáv. vinstri stjórnar. Í þessari bók er mjög glögg skilgreining á eðli vinstristjórnarstefnunnar sem Íslendingar héldu að þeir hefðu kvatt endanlega á þessum tímamótum fyrir um 30 árum, en hefur nú gengið aftur í núv. hæstv. ríkisstjórn undir forustu sömu ættar og fyrrum. Ég ætla að lesa hér stuttan kafla sem sýnir skilgreiningu Péturs Benediktssonar á vinstristjórnarstefnunni eins og hún var þá. Ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að það sama á við enn í dag um núv. hæstv. ríkisstjórn. Í bók Péturs Benediktssonar segir svo:
    ,,Einstaklingur sem gefur út ávísun sem engin innistæða er fyrir fer strax að hlusta eftir því hvort ekki sé farið að marra í tugthúsdyrunum. Verði hinu

opinbera peningavaldi hin sama yfirsjón á þarf það ekki að óttast neina hegningu. Hún lendir á þeim sem taka við ávísununum. Til þess að þurfa ekki að horfast í augu við staðreyndirnar um raunverulegt gengi krónunnar og til þess að komast hjá því að stugga við vísitölunni hefur styrkjaleiðin verið valin. En styrkirnir þýða nýja skatta, skattarnir þýða aukna dýrtíð í landinu, aukin dýrtíð þýðir hærri vísitölu framfærslukostnaðar, hærra kaupgjald, hærri styrki, hærri skatta, aukna dýrtíð o.s.frv. í hið óendanlega.
    Skattarnir þýða aukna dýrtíð. Aukin dýrtíð þýðir hærri vísitölu framfærslukostnaðar. Þar kom ég fallega upp um mig að fylgjast ekki með almæltum tíðindum. Hafði ég þá aldrei frétt af því að á þessu ári hafa meiri nýir skattar verið lagðir á þjóðina en nokkru sinni fyrr og hafði ég ekki nýverið heyrt einn af valdamestu mönnum þjóðarinnar skýra frá því að dýrtíðin í landinu hefði aðeins aukist um fjögur vísitölustig eða sem næst 2%? Hafði ég ekki heyrt sama valdsmann segja að þessi óverulega hækkun stafaði að langmestu leyti af verðhækkunum erlendis?
    Jú, raunar hafði ég heyrt allt þetta. En ég hafði einnig á sínum tíma heyrt það sem Púlli sagði: Engin dýrtíð á Vopnafirði, allt skrifað. Og hagspekina í hvoru tveggja hafði ég lagt nokkuð að jöfnu.``
    Hér hefur eðli vinstristjórnarstefnu verið lýst með mjög skilmerkilegum hætti. Engin verðbólga á Vopnafirði, allt skrifað. Engin verðbólga á Íslandi, allt skrifað. Engar verðhækkanir í Áburðarverksmiðjunni, allt skrifað. Þetta er kjarninn í efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Engin verðbólga af völdum erfiðleika í sjávarútvegi, allt skrifað. Þetta er kjarninn í efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar sem ætlar að skilja við, að ég hygg, um það bil 5 milljarða gjaldþrot í aðeins þremur millifærslusjóðum sem hún hefur komið á fót á starfstíma sínum. Í þeim samanburði, því 5 milljarða gjaldþroti, sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að skilja eftir í þessum þremur millifærslusjóðum, er þetta mál kannski ekki stórt. En það er mjög lýsandi um eðli stefnunnar og afleiðingar hennar fyrir íslenskt þjóðarbú. Og það er athygli vert að Alþfl., sem gekk af trúnni fyrir 30 árum síðan og tók þátt í
viðreisn efnahagslífsins með auknu frjálsræði, skuli nú, þegar ævintýrið frá því fyrir 30 árum er endurtekið, taka þátt í þessum vinnubrögðum af öllu því afli sem hann á til og skuli hvergi iðrast, skuli í engu iðrast. Það er kannski fyrst og fremst athygli vert í þessari stöðu nú þegar verið er að endurtaka það sem Íslendingar héldu að þeir hefðu yfirgefið fyrir 30 árum, af sömu flokkum og sömu ættum í enn einni vinstri stjórninni.
    Af hálfu hæstv. ríkisstjórnar er því haldið fram að óhjákvæmilegt hafi verið að taka völdin af stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins með flutningi lagafrv. af þessu tagi í þeim tilgangi að standa við gefin fyrirheit í kjarasamningum í byrjun ársins. Svo er mál með vexti að hæstv. ríkisstjórn bauð fram í þessum kjarasamningum að áburðarverð hækkaði ekki meir en um 12% og það er að sönnu rétt að það tilboð var

ein af forsendum þess merka samkomulags þar sem aðilar vinnumarkaðarins, forustumenn launþega og atvinnurekenda í landinu, gátu ekki sætt sig við efnahagsforsendurnar sem fyrir lágu í stefnu ríkisstjórnarinnar, tóku höndum saman um að brjóta efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á bak aftur og knýja fram nýjar forsendur með lægri verðbólgu og minni kaupmáttarskerðingu en orðið hefði ef efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefði náð fram að ganga.
    Óumdeilt er að hér var gert mjög markvert samkomulag og eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn vilji fyrir sitt leyti freista þess að standa við þann hluta sem á hennar reikning skrifaðist þegar aðilar vinnumarkaðarins höfðu sett henni nýjar forsendur. En þegar á hólminn er komið hleypur hæstv. ríkisstjórn frá málinu og segir við Alþingi Íslendinga: Við getum ekki leyst þetta mál. Við ætlum að gera enn eina Egilsstaðasamþykktina um það hvað áburðarverðið á að hækka mikið. Við ætlum hins vegar ekki, þó að við tökum völdin af stjórn verksmiðjunnar, að hafa neinar áhyggjur af því þó að sú Egilsstaðasamþykkt þýði að það verði verulegt bil á milli tekna og gjalda í rekstri verksmiðjunnar. Og flokkurinn, sem einu sinni tók þátt í viðreisn efnahagslífsins, sagði að sjálfsagt væri að standa á þann veg að rekstri þjóðarbúskaparins og rekstri ríkisverksmiðju eins og Áburðarverksmiðjunnar. Sjálfsagt væri að hún safnaði skuldum, sjálfsagt væri að þær skuldir tækju á sig verulegan fjármagnskostnað. Sjálfsagt væri að vísa lausn þess vanda inn í framtíðina.
    Hæstv. fjmrh. hefur nú á kostnað ríkissjóðs efnt til áróðursfunda um landsbyggðina þar sem hann segir að bannað sé að spyrja hann um liðinn tíma. Það er meira að segja óheimilt að spyrja hann um núliðna tíð á þeim fundum, en það má spyrja um framtíðina. Ef til vill vegna þess að hæstv. ráðherra hefur ekki gert sér grein fyrir því að sú framtíð sem við blasir vegna þeirra ákvarðana sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið er milljarða gjaldþrot í millifærslusjóðum sem mun lenda á ríkissjóði og skattborgurum landsins vegna ákvarðana núverandi vinstri stjórnar. Sú framtíð sem landsmenn mega spyrja hæstv. fjmrh. um felur m.a. í sér að annaðhvort eiga bændur og neytendur eftir að greiða þá skuld sem Áburðarverksmiðjunni er gert að stofna til, ásamt með fjármagnskostnaði, í hærra áburðarverði en ella hefði þurft að verða og meiri verðbólgu í landinu, eða gamli hugsjónaflokkurinn, Alþfl., sem einu sinni talaði um lækkun skatta, ætlar að koma á jólaföstu þriðja árið í röð og segja við kjósendur sína: Enn einu sinni hefur okkur brugðist stjórnlistin. Enn einu sinni höfum við orðið valdir að stórslysi. Enn einu sinni ætlum við að hækka tekjuskattinn. Þetta á að vera boðskapur Alþfl. á næstu jólaföstu. Það er með þessum hætti sem hæstv. ríkisstjórn stendur að ákvörðunum í þessu efni.
    Það er ekki ágreiningur við okkur sjálfstæðismenn um það að nauðsyn beri til að hæstv. ríkisstjórn standi við gefin fyrirheit um að áburðarverð hækki ekki nema um 12% í útsölu til bænda. Það er enginn ágreiningur við okkur þar um. Þvert á móti er krafa

okkar sú að hæstv. ríkisstjórn standi við þetta fyrirheit. En öll vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar, allar ákvarðanir hennar í því efni, og síðast ræða hæstv. forsrh. við upphaf þessarar umræðu, staðfesta að það er hæstv. ríkisstjórn sem ætlar að hlaupa frá þeim vanda, ætlar að skjóta þeim vanda inn í framtíðina, leggja þann vanda á nýja ríkisstjórn, vísa þeim vanda á skattgreiðendur eða neytendur eftir atvikum, þeir geta ekki einu sinni svarað því á þessari stund, inni í framtíðinni.
    Það er okkar krafa, þrátt fyrir þessa hæstv. ríkisstjórn, að Alþingi taki á þessu máli og leysi það, og það er hægt á þessu þingi með þeirri einu leið sem kostur er á en hæstv. ríkisstjórn vill ekki fara. Hér eru til meðferðar fjáraukalög þar sem verið er að fjalla um fjármálaaðgerðir hæstv. ríkisstjórnar vegna kjarasamninga, en hæstv. ríkisstjórn neitar að taka þennan hluta af aðgerðum vegna kjarasamninganna inn í það dæmi vegna þess að hún getur ekki leyst málið. Og það er sú staðreynd sem hér liggur fyrir. Ágreiningur okkar er því á þann veg að við viljum að hæstv. ríkisstjórn og Alþingi leysi þetta mál. Við höfnum því að það sé afgreitt með Egilsstaðasamþykkt sem síðar mun annaðhvort leiða til meiri hækkunar á áburðarverði og verðlagi í landinu eða þá að því verði velt yfir á skattgreiðendur með enn einni hækkuninni á tekjuskattinum. Það er þetta sem við erum að hafna. Og það er svolítið fróðlegt að hæstv. forsrh. hefur á
stundum sett á miklar ræður um það að ótækt sé hvað fjármagnskostnaður sé mikill, ótækt sé að velta fjármagnskostnaði yfir á atvinnuvegi landsmanna.
    En hvað felst í þeirri ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn er að taka og hæstv. forsrh. er að beita sér fyrir? Í þeirri ákvörðun felst ný lántaka með miklum fjármagnskostnaði sem hæstv. forsrh. ætlar að velta yfir á bændurna í landinu og síðan yfir á neytendurna. Það eru vinnubrögð af þessu tagi sem koma atvinnuvegunum og neytendum illa. Það eru vinnubrögð af þessu tagi sem hækka verðlag, auka verðbólgu og rýra kaupmátt.
    Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Áburðarverksmiðja ríkisins lendir í erfiðleikum vegna pólitískra ákvarðana um áburðarverð. Í þeirri ríkisstjórn sem sat undir forustu núv. hæstv. forsrh. á árunum 1983--1987 var unnið að því að bæta rekstrarstöðu verksmiðjunnar með margvíslegum hætti. Það var óhjákvæmilegt að leysa hluta af þeim vandamálum með framlögum úr ríkissjóði sem skattgreiðendur í landinu urðu að standa undir. Þegar þær ákvarðanir voru teknar voru gefin um það skýr fyrirheit af þáverandi yfirstjórn
landbúnaðarmála, þáv. landbrh. og stjórn verksmiðjunnar að ekki yrði á nýjan leik gengið inn á þá braut að stofna til hallareksturs með lántökum sem aftur leiddu til þess að annaðhvort þyrfti að hækka áburðarverð svo óhóflega að engin leið væri fyrir bændur og neytendur að standa undir því eða velta því yfir á skattborgarana. Þáv. landbrh. tók þátt í fyrirheitum af þessu tagi, þáverandi stjórnendur verksmiðjunnar og forstjóri hennar. Þær ákvarðanir sem þá voru teknar voru grundvöllur að því mikla

hagræðingarátaki sem núverandi forstjóri verksmiðjunnar hefur gert og skilað hefur verulegum árangri, enda er áburðarverð nú lægra að raungildi en það var 1985 vegna þessara aðgerða. En þær aðgerðir sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að efna til munu leiða til þess að raungildi áburðarverðsins mun fara hækkandi á nýjan leik. Að gera Egilsstaðasamþykkt án þess að leysa mál er að pissa í skóinn sinn.
    Þegar umræður fóru fram í ársbyrjun 1988 um þá hættu sem stafað gæti af ammoníaksgeymi við verksmiðjuna var gerð sérstök úttekt á rekstrarlegri stöðu verksmiðjunnar og skipuð var sérstök nefnd í því skyni. Niðurstaða hennar varð sú að nauðsynlegt væri að tryggja öruggan rekstur, greiða mjög verulega niður skuldir ef telja ætti þjóðhagslega hagkvæmt að reka verksmiðjuna áfram. Nú hefur það ekki blandast inn í þessa umræðu hér að á ný hafa komið upp spurningar um áframhaldandi rekstur verksmiðjunnar og af hálfu borgaryfirvalda í Reykjavík hafa verið settar fram kröfur um að henni verði lokað. Þeirri kröfu hefur verið fylgt eftir með flutningi þingsályktunartillagna hér á Alþingi, m.a. af forseta sameinaðs Alþingis sem er eins konar höfuð ríkisstjórnarflokkanna hér inni á Alþingi. Og hæstv. forsrh. hefur gefið til kynna að eðlilegt geti verið að hætta starfrækslu verksmiðjunnar þar sem hún er nú.
    Ég ætla ekki að draga þennan þátt málsins inn í umræðurnar þó að það væri um margt eðlilegt vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur vísað á hækkandi áburðarverð í framtíðinni til lausnar á því máli sem hún getur ekki leyst nú. Hins vegar er fullljóst að í þeirri skýrslu sem gerð var á þessum tíma um rekstur verksmiðjunnar var það lagt til að skuldastaða verksmiðjunnar yrði lækkuð og m.a. á þeim grundvelli var ákveðið að byggja hinn nýja geymi, ammoníaksgeymi, á rekstrartekjum verksmiðjunnar en hægja á endurgreiðslu annarra lána. Það er þess vegna ekki rétt að bygging nýja geymisins sé alfarið greidd af rekstrartekjum. Á móti var hægt á endurgreiðslu eldri lána. Og fullyrðingar hæstv. forsrh. um þetta efni, að bygging hins nýja geymis hafi engin áhrif haft á lánastöðu fyrirtækisins, eru þess vegna ekki réttar í þessu ljósi. Um þetta voru allir sammála á sínum tíma, þar á meðal hæstv. forsrh. og þáv. landbrh. Framsfl., að á þennan veg yrði að standa að rekstri verksmiðjunnar. En nú sitja þessir sömu hæstv. ráðherrar og þingmenn Framsfl. í vinstri stjórn og þá er horfið frá öllum skynsamlegum aðferðum við stjórn fjármála og efnahagsmála, allt látið reka á reiðanum, skuldasöfnunin í algleymingi sem mun síðan kynda undir nýju verðbólgubáli og stórhækkuðum sköttum ofan á allt annað. Núna er hlaupið frá því sem þeir þá voru sammála að því er varðar aðgerðir til þess að treysta rekstrarstöðu þessa fyrirtækis.
    Það er nauðsynlegt, herra forseti, í umræðu um frv. að fara aðeins yfir aðdraganda þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið.
    Á fundi í verksmiðjustjórninni í október 1989 gerir framkvæmdastjórinn grein fyrir afkomunni á fyrstu átta mánuðum þess árs. Þar kemur fram að

rekstrarhalli á árinu 1989 er áætlaður um 80 millj. kr. Á sama fundi leggur framkvæmdastjóri fram drög að verðútreikningi áburðar fyrir árið 1990 en þar er gert ráð fyrir 10% samdrætti í sölumagni miðað við yfirstandandi ár eða 50 þúsund tonna árssölu. Miðað við 20% almenna verðlagshækkun milli ára þarf áburðarverð að hækka um 22% frá meðalverði ársins 1989. Þá ber að hafa í huga, segir í bókun verksmiðjustjórnar, að ekki er gert ráð fyrir framlagi til rekstursins úr ríkissjóði en á árinu 1989 nam rekstrarframlag úr ríkissjóði 20 millj. kr.
    Fram kom í þeim umræðum sem þarna fóru fram í verksmiðjustjórninni að gera þyrfti ráð fyrir 87 millj. kr. vegna ýmissa endurbóta og lagfæringa, þar af 72 millj. kr. vegna endurnýjunar rafgreina og 72 millj. kr. vegna afborgana af langtímalánum.
    Hér kemur með öðrum orðum þá þegar fram hvaða afleiðingar það hafði að hæstv. ríkisstjórn tók þá ákvörðun í fyrra að neita verksmiðjustjórninni um þá verðlagshækkun sem nauðsynleg var til þess að tekjur og gjöld stæðust á, en þá þegar hóf hæstv. ríkisstjórn þau afskipti af verðákvörðunum sem fólu í sér skuldasöfnun, lántökur, aukinn fjármagnskostnað og valda því að verðhækkunarþörfin nú er meiri en ella hefði þurft að vera. Á stjórnarfundi 22. jan. er þetta bókað:
    ,,Framkvæmdastjóri lagði fram verðútreikning áburðar fyrir 1990. Kom þar m.a. fram að gert er ráð fyrir 52 þúsund tonna áburðarsölu á meðalverðinu 22.600 kr. sem er 22,3% hækkun frá fyrra ári. Alls er því gert ráð fyrir sölutekjum að upphæð 1 milljarður 175 millj. kr. en útgjöldum að upphæð 1 milljarður 173 þús. kr. Helstu útgjaldaliðir eru vinnulaun, hráefni, orkukostnaður og annar reksturskostnaður en afskriftir 202 millj. kr. Framkvæmdastjóri upplýsti að um 17 prósentustig af 22,3% hækkunarþörf væru vegna hækkandi framleiðslukostnaðar milli ára. Hinn hluti hækkunarþarfar skýrðist af of lágu söluverði á sl. ári en þá var aðeins heimiluð 29,5% hækkun þegar Áburðarverksmiðjan mat þörfina á 36,17%.``
    Með öðrum orðum, hér liggja fyrir alveg skýr dæmi um það hvaða afleiðingar það hefur að taka ákvarðanir af því tagi sem hér er verið að gera, skýr dæmi um það að ákvarðanir af þessu tagi leiða síðar til hærra áburðarverðs en ella hefði þurft að vera. Enn fremur segir í bókun verksmiðjustjórnar frá 22. jan.:
    ,,Í áætluðu fjármagnsstreymi kom fram að til afskrifta eru áætlaðar 202,2 millj. kr. og 1,8 millj. í rekstrarafgang eins og fyrr er getið. Til fjárfestinga eru áætlaðar 105 millj. kr., í afborganir 77,6 millj. og aukning veltufjár því 21,5 millj. Stærstu fjárfestingarliðir eru vegna endurnýjunar rafgreina, 66,4 millj., og kostnaður við að ljúka ammoníaksgeyminum um 20 millj. kr.
    Í framhaldi af þessu lagði framkvæmdastjóri fram kafla þann úr fjárlögum 1990 er snertir Áburðarverksmiðjuna. Er þar m.a. gert ráð fyrir 50 þús. tonna árssölu að meðalverði 21.600 kr. hvert tonn og rekstrarhalla um 65,4 millj. kr. og lántöku að upphæð 50 millj. kr.``

    5. febr. er svohljóðandi bókun gerð í verksmiðjustjórninni:
    ,,Umræður héldu áfram þar sem frá var horfið á síðasta fundi. Framkvæmdastjóri ítrekaði að hækkandi framleiðslukostnaður frá síðasta ári krefðist 17% verðhækkunar meðan almennt verðlag hefði hækkað um sem næst 23%. Hækkunarþörf verksmiðjunnar væri samt sem áður 22,3% er skýrðist af of lágu söluverði á sl. ári, en þá var Áburðarverksmiðjunni synjað um umbeðna nauðsynlega hækkun áburðarverðs. Þá skýrði framkvæmdastjóri frá því að við gerð nýjustu kjarasamninga milli aðila vinnumarkaðarins hefði ríkisstjórnin lofað að áburðarverð 1990 mundi ekki hækka meir en um 12% miðað við verð sl. árs. Í umræðu um þetta atriði kom fram að slík ónóg verðhækkun hefði í för með sér 112--115 millj. kr. fjárvöntun fyrir Áburðarverksmiðjuna.
    Að þessum umræðum loknum var framkvæmdastjóra falið að kynna landbrh. verðútreikning Áburðarverksmiðjunnar og leita staðfestingar á fyrirhuguðu áburðarverði sem miðaðist við 22,3% hækkun frá sl. ári að meðaltali.``
    Hér kemur m.a. skýrt fram að í verksmiðjustjórninni á þessum tíma er full samstaða um nauðsyn hækkunar vegna aukins framleiðslukostnaðar og vegna taps í kjölfar ákvarðana hæstv. ríkisstjórnar á síðasta ári. Og fulltrúar núverandi stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka í verksmiðjustjórninni eru á einu máli um þessa stöðu. Enginn ágreiningur er þeirra á milli um það hversu mikið bil þarf að brúa á milli tekna og gjalda. Og fyrir liggur að um 23% af hækkunarþörfinni nú er vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra um að verða ekki við hækkunarbeiðni, um 23% af hækkunarþörfinni. Það sýnir best hvaða afleiðingar það hefur þegar ríkisstjórnir pissa í skóinn sinn með þeim hætti sem núv. hæstv. ríkisstjórn er að gera. Slíkar ákvarðanir koma niður á bændum og neytendum með fullum þunga. Og það verður ekki dregið nema í eitt ár að það komi í dagsljósið. En hæstv. ráðherrar vita auðvitað að þá hafa kjósendur vísað þeim á dyr.
    8. mars tekur verksmiðjustjórnin þetta mál enn fyrir. Þá er komið bréf frá hæstv. landbrh. og í því bréfi segir m.a. þetta:
    ,,Þann 27. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin að beina því til stjórnar Áburðarverksmiðju ríkisins að hækkun áburðarverðs verði ekki meiri en 12%. Þessi samþykkt er gerð með því fororði að landbrh. áskilur sér rétt til að taka málefni Áburðarverksmiðjunnar upp í ríkisstjórninni leiði þessi verðákvörðun af sér að tap verði á rekstri verksmiðjunmar. Landbrh. mun þá sækja um stuðning ríkissjóðs við reksturinn til að mæta því tapi.``
    Með öðrum orðum, hæstv. landbrh. viðurkennir í þessu bréfi að það er aðeins ein leið til að leysa þennan vanda. Og þetta bréf er skrifað 1. mars. Hæstv.
landbrh., sem hér situr, skrifaði 1. mars bréf þar sem

hann viðurkennir að það er aðeins ein leið til að leysa vandann, þar sem hann viðurkennir að það er ekki hægt að leysa vandann með einfaldri Egilsstaðasamþykkt um að verðið skuli bara vera ákveðið 12% hærra og svo gerist ekkert meir. Þetta liggur hér fyrir skjalfest, viðurkenning hæstv. ráðherra. En 8. mars fjallar stjórn verksmiðjunnar um þetta bréf m.a. og þar segir:
    ,,Miklar umræður urðu um málið og ljóst að Áburðarverksmiðjan er sett í mikinn vanda með aðgerðum ríkisstjórnarinnar og svör landbrh. við bréfi Áburðarverksmiðjunnar 7. febr. sl. með öllu ófullnægjandi.`` Verksmiðjustjórnin er öll sammála því: Svör landbrh. með öllu ófullnægjandi. Og það er í þeirri stöðu sem málið stendur hér í dag. Ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar eru enn með öllu ófullnægjandi. Það hefur ekkert breyst af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og það er það svar sem hún er að senda launafólkinu í landinu. Ófullnægjandi viðbrögð við þeim merku kjarasamningum.
    Enn tekur stjórn Áburðarverksmiðjunnar þetta mál fyrir á fundi sínum 3. apríl. Þar er m.a. gerð grein fyrir ársreikningi sl. árs og fram kemur að skuldir verksmiðjunnar námu þá 745 millj. kr. Þar af voru langtímaskuldir 216 millj. og skammtímaskuldir 529 millj. en erlendu rekstrarlánin nema 321 millj. kr. Erlend rekstrarlán standa í 321 millj. kr. Og samt á enn að bæta við. Samt á enn að auka fjármagnskostnað bænda með því að búa til ný lán, enn að auka fjármagnskostnað bænda sem sumir hæstv. ráðherrar hafa nú kvartað yfir að væri ívið of mikill. En þeir ætla enn að auka á þann vanda.
    Þá liggur fyrir enn eitt bréfið frá hæstv. landbrh., dags. 30. mars. Þar segir svo:
    ,,Gerð verði ítarleg úttekt á rekstrarafkomu og stöðu Áburðarverksmiðjunnar fyrir næsta haust og metnar forsendur fyrir nauðsynlegum verðbreytingum og
framleiðslu ársins 1991 til að vinna upp rekstrartap á þessu ári. Fyrirsjáanlegt rekstrartap ársins sem ekki sýnist svigrúm til að bæta upp á næsta ári verður tekið til meðferðar við afgreiðslu fjáraukalaga á síðari hluta ársins.``
    Hér hörfar hæstv. ráðherra. Í hinu fyrra bréfi viðurkenndi hann að aðeins ein leið væri til að leysa málið en hann hefur ekki fengið stuðning innan ríkisstjórnarinnar til að leysa málið á þann eina veg sem hægt er. Þar hefur hæstv. landbrh. verið borinn ofurliði og nú kemur loðin yfirlýsing um að skoða eigi hvort hugsanlega megi leysa þann hluta vandans, sem ekki verði velt á næsta ári yfir á bændur með fjármagnskostnaði til viðbótar, með fjáraukalögum á hausti komanda. Þó liggja fyrir, þegar þetta bréf er skrifað, allar tölulegar upplýsingar um stöðu verksmiðjunnar, öll gögn um það hvert tapið verður á þessu ári miðað við þær forsendur sem fyrir liggja. Engin þörf á að skjóta þeim ákvörðunum fram á haustið af því að staðreyndirnar liggja allar á borðinu. Það kemur ítarlega fram í áliti verksmiðjustjórnarinnar að svo er. En hæstv. ráðherra landbúnaðarmála hörfar

á einum mánuði vegna þess að hann er ofurliði borinn innan hæstv. ríkisstjórnar. Sennilega er það hin nýja efnahagsstefna Alþfl. undir forustu hæstv. viðskrh. sem leitt hefur til þess að hæstv. landbrh. hefur verið borinn ofurliði í þessu efni. Ég óska af því tilefni, herra forseti, eftir því að hæstv. viðskrh. verði viðstaddur þessa umræðu vegna þess að flest bendir til þess að hann beri verulega ábyrgð á því hver endanleg niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar er í þessu máli. Ég óska eftir því að hann verði kallaður hér til fundarins. ( Forseti: Forseti veit ekki betur en að hæstv. viðskrh. sé hér staddur í næsta herbergi og mun freista þess að fá hann til að sitja hér í salnum.) Ég sé ekki hæstv. viðskrh. en má vera að hann telji heppilegra að vera ósýnilegur eins og stöðu Alþfl. er komið. Við það geri ég ekki athugasemdir, en óska eftir því að hann verði viðstaddur þennan þingfund.
    Síðan fer þetta mál að taka á sig meiri pólitískan svip eftir að verksmiðjustjórnin hefur fjallað um þetta mál vikum saman á faglegan hátt svo sem henni ber lagaleg skylda til og fulltrúar stjórnarflokkanna í verksmiðjustjórninni hafa allir tekið þátt í þeirri umræðu með mjög ábyrgri afstöðu, raunsærri afstöðu, afstöðu sem er í samræmi við þær lagaskyldur sem hvíla á verksmiðjustjórninni. En þegar hér er komið sögu fer pólitískur þrýstingur ríkisstjórnarflokkanna að hafa áhrif á suma fulltrúa þeirra í verksmiðjustjórninni.
    Á fundi hennar 18. apríl leggur formaður verksmiðjustjórnarinnar fram tillögu þar sem þetta segir m.a.:
    ,,Stjórn Áburðarverksmiðjunnar telur mjög miður að ríkisstjórnin skyldi við gerð síðustu kjarasamninga gefa fyrirheit um að verð á áburði hækkaði ekki meir en 12% án þess að hafa um það nokkurt samráð við Áburðarverksmiðjuna. Samkvæmt lögum ber stjórn Áburðarverksmiðjunnar að ákveða verð á áburði í samráði við landbrn. en ekki ríkisstjórnina. Fulltrúum ríkisstjórnarinnar í viðræðum um kjarasamninga var fyllilega ljóst að fyrirheit um 12% verðhækkun á áburði mundi leiða til stórfellds taps á rekstri verksmiðjunnar. Því er erfitt að trúa að ríkisstjórnin hafi ætlað Áburðarverksmiðjunni að greiða 130 millj.
kr. af eigin fé sínu fyrir loforð ríkisstjórnarinnar við gerð almennra kjarasamninga.``
    Hér kemur m.a. fram í tillögu formanns stjórnar verksmiðjunnar sem allt fram að þessu hefur unnið að þessu máli á fullkomlega eðlilegan hátt að ríkisstjórninni var kunnugt um það, þegar hún lofaði 12% verðhækkuninni, að það kostaði að brúa þyrfti bil upp á 130 millj. kr. Þá þegar lágu þær upplýsingar fyrir alveg skýrar og viðurkennt af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna sjálfra. En nú vefja þeir tungu um höfuð sér og segja að málið sé svo flókið að það þurfi enn frekari skoðunar við. Það er eins og þessir menn geti ekki gert sér grein fyrir augljósustu staðreyndum um rekstur í ekki stærra fyrirtæki en þessu. Og þó liggur það fyrir að fulltrúar hennar sjálfrar í verksmiðjustjórninni hafa gert sér grein fyrir þessari staðreynd og þurfa ekki neitt frekari athugunar

og skoðunar verkefna við til þess að komast að þessari niðurstöðu.
    Þegar málið er komið á þetta sig kjósa tveir af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna að verða við tilmælum ríkisstjórnarinnar um Egilsstaðasamþykkt án þess að fyrir liggi lausn á málinu þó að þeir beri fram mjög harða gagnrýni á hæstv. ríkisstjórn fyrir að leysa ekki málið. Aðrir fulltrúar í verksmiðjustjórninni, þar á meðal einn af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, einn af trúnaðarmönnum ríkisstjórnarflokkanna, telja sér skylt að taka ákvörðun í samræmi við lögin þannig að verksmiðjunni sé ekki stefnt á ný í hallarekstur. Og það varð niðurstaða meiri hluta verksmiðjustjórnarinnar. Síðan er haldinn fundur í verksmiðjustjórninni 23. apríl. Til þess fundar kemur hæstv. landbrh. Hann segir á þeim fundi að e.t.v. væri unnt að bæta Áburðarverksmiðjunni upp rekstrartap sem af 12% verðhækkun leiddi í verðlagningu næsta árs. Ef til vill. Ef þetta stóra ef yrði nú ekki að veruleika, hvað á þá að gera? Hvað segja hæstv. ráðherrar um það? Hvað á þá að gera? Síðan sagði hæstv. landbrh. að ,,ekki væri unnt að taka þetta inn við gerð fjáraukalaga nú þar sem nú væri eingöngu verið að gera nauðsynlegar breytingar á ýmsum rekstrarliðum fjárlaga til leiðréttinga og samræmis við gerð kjarasamninga.`` En um hvað er verið að fjalla hér? Er ekki verið að fjalla hér um ráðstafanir vegna kjarasamninga? En þá er ástæðan talin sú fyrir því að ekki er hægt að fjalla um málið, að verið sé að taka á ákvörðunum vegna kjarasamninganna. Ég hef aldrei séð nokkra menn fara jafnmikið í kringum sjálfa sig eða taka stærri kollhnísa. Sennilega hefur hæstv. ráðherra farið í kleinu áður en hann lét þessi ummæli falla.
    Að lokum segir í þessari bókun: ,,Óskaði ráðherra þess að ákvörðun um 18% hækkun áburðarverðs yrði endurskoðuð til að komast hjá vandræðum en tók fram að ekki mætti reka verksmiðjuna til langframa með halla.`` Hvers vegna má ekki reka hana til langframa með halla? Af hverju má gera það núna? En það má kannski ekki reka hana með halla þegar kjósendur eru búnir að vísa honum á dyr og aðrir eru teknir við? Á þá að skipta um skoðun? Er það þá sem ekki má reka verksmiðjuna með halla?
    Á þessum fundi kom fram hjá Agli Jónssyni sem er einn fulltrúa Sjálfstfl. að hann væri þeirrar skoðunar að verksmiðjustjórnin hefði þegar tekið áhættusama ákvörðun með 18% verðhækkun í stað 22,3% vegna fyrirsjáanlegs halla á rekstrinum. 12% hækkun á áburðarverði nú þýddi í reynd allt að 20% verðhækkun umfram verðbólgu á næsta ári ef jafna ætti upp tap af þessari verðhækkun einni. Og hvernig ætla menn þá að horfa framan í bændur, spurði þessi stjórnarmaður í Áburðarverksmiðjunni. Þessi ákvörðun felur í sér 20% hækkun á næsta ári sem e.t.v. er hægt að leyfa verksmiðjunni að taka á næsta ári, eins og hæstv. landbrh. segir. En ef það er ekki hægt, hvað á þá að gera?
    Það kemur einnig fram í þessari fundargerð frá einum fulltrúa Sjálfstfl., Bjarna Helgasyni, að létt væri

fyrir ríkisstjórnina að standa við fyrirheit sitt við bændasamtökin um 12% hækkun áburðarverðs einmitt við gerð fjáraukalaga nú, t.d. með því að leggja fram fé sem næmi mismuninum á 12% og 18% verðhækkun. En hvert er svar hæstv. landbrh. bókað á fundi í stjórn Áburðarverksmiðjunnar við þessari ábendingu? Hvert er svar hæstv. landbrh.? ,,Lýsti ráðherra því þá yfir að engar forsendur eða möguleikar væru til að koma slíku í gegn. Hann væri bara einn af 11 ráðherrum og áburðarverðið yrði ekki hækkað um meira en 12%.`` Áburðarverðið yrði ekki hækkað um meira en 12% af því að hann væri bara einn af 11 ráðherrum. Í þessu felst sama viðurkenning og í hinu fyrsta bréfi til stjórnar Áburðarverksmiðjunnar að í hjarta sínu gerir hæstv. landbrh. sér grein fyrir því að málið verður að leysa og ég trúi því sem hér kemur fram að hann hafi haft vilja til þess að leysa málið innan hæstv. ríkisstjórnar. Hér kemur hins vegar fram að það var ekki hægt af því að hann var bara einn af 11 ráðherrum í hæstv. ríkisstjórn. Og nú er ástæða til þess að spyrja: Hverjir voru það úr hópi hinna 10 sem eftir sitja, þegar hæstv. landbrh. er frátalinn, sem komu í veg fyrir það að hann gæti leyst málið svo sem hann óskaði eftir og hafði í upphafi gefið fyrirheit um og talið nauðsynlegt? Hverjir voru það? Voru það e.t.v. ráðherrar Alþfl.? Er þetta hin nýja efnahagsstefna Alþfl. að stefna ríkisfyrirtækjum í hallarekstur með
þessum hætti og auka þannig verðbólgu þegar til lengri tíma er litið? Það væri ástæða til þess að hæstv. viðskrh. lýsti því hvernig þetta kæmi heim og saman við efnahagsstefnu hans flokks og hvort það sé rétt mat að það hafi einmitt verið krafa Alþfl. í ríkisstjórninni að brjóta hæstv. landbrh. á bak aftur með þessum hætti. Er flokkurinn sem þjóðin hélt að hefði sagt skilið við óráðsíu vinstri hugmynda í efnahagsmálum fyrir 30 árum og tók þátt í viðreisn efnahagslífsins á þeim tíma aftur sokkinn endanlega í sama farið? Það væri fróðlegt að heyra hæstv. viðskrh. gera nokkra grein fyrir því.
    Það liggur sem sagt fyrir í þessu máli og er kjarni þess að stjórn Áburðarverksmiðjunnar, bæði fulltrúar stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðuflokkanna, eru sammála um að brúa verði bilið milli tekna og gjalda og það sé ekki unnt að skilja við málið án þess að leysa það. En tveir þessara fulltrúa fallast á að gera Egilsstaðasamþykkt í trausti þess að hæstv. ríkisstjórn leysi málið einhvern tíma. Aðrir telja sér skylt að knýja fram lausn á málinu strax til þess að unnt sé að standa við fyrirheitin sem launafólkinu í landinu voru gefin, til þess að koma í veg fyrir að það standi í óvissu um hvort efna eigi þessi fyrirheit, því að í stöðunni eins og hún er í dag þegar vísað er á verðhækkanir síðar eða skattahækkanir síðar, þá er verið að segja við launafólkið: Við ætlum ekki að leysa málið sem við lofuðum að leysa.
    Í annan stað liggur það fyrir að hæstv. landbrh. hafði í byrjun mars viðurkennt að ríkisstjórnin yrði að leysa málið og gæti ekki gert það öðruvísi en með því að veita fjármunum úr ríkissjóði til verksins og menn

hlutu að skilja það bréf svo, eins og það var orðað, að það ætti að gera samhliða ákvörðun svo sem venja er þegar menn taka skynsamlegar ákvarðanir.
    Í þriðja lagi liggur svo fyrir að mánuði síðar eða í lok mars hefur hæstv. landbrh. hlaupið frá málinu, ekki vegna þess að hann hafi skipt um skoðun heldur vegna þess að einhverjir aðrir samráðherrar hans hafa knúið hann til undanhalds og neytt hann til að standa frammi fyrir því að koma með málið hér inn á Alþingi án lausnar.
    Í fjórða lagi liggur fyrir að Alþingi getur leyst þetta mál með ákvörðunum í fjvn. þar sem fjáraukalög eru til meðferðar sem einmitt fjalla um ráðstafanir vegna kjarasamninga.
    Þetta eru hinar einföldu staðreyndir sem fyrir liggja. En hæstv. ráðherrar og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ætla sér að hlaupa frá málinu.
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé hægur vandi að taka nú ákvörðun um niðurskurð á útgjöldum upp á rúmar 100 millj. kr. og leysa þetta mál þegar svo miklir hagsmunir eru í húfi, að efna loforð og fyrirheit við launafólkið í landinu. En hæstv. ríkisstjórn kærir sig kollótta um það. Hún gefur fyrirheit og ætlar að leysa það með Egilsstaðasamþykktum að hefðbundnum hætti vinstri stjórna í landinu.
    Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna geta verið að dunda sér við það í fjvn. að ræða um það hvort ekki sé nauðsynlegt að veita heimild til að kaupa hér hús fyrir Alþingi út og suður. Mér skilst að ríkisstjórnarliðið hafi haft mestan áhuga á því að kaupa Hótel Borg fyrir ekki minni upphæð en kostar að leysa vanda Áburðarverksmiðjunnar og standa við loforð sín. Og þá gengur hæstv. forsrh. út og skil ég það mætavel. En þetta geta stjórnarflokkarnir setið á rökstólum um. Það er sjálfsagt að koma hér með tillögur í kjölfar kjarasamninga og segja: Við ætlum að skera niður útgjöld Alþingis til þess að standa við fyrirheitin, koma svo nokkrum vikum seinna og segja: Við ætlum að samþykkja þingsályktunartillögur sem gefa Alþingi heimild til húsakaupa, a.m.k. fyrir þá upphæð sem verið er að tala um til lausnar á þessu máli. Enginn vandi. Engin fyrirstaða. Haldnir fundir í fjvn. og deildafundir tafðir af þessum sökum. Engin fyrirstaða. Það stendur ekki á fulltrúum Alþfl. að taka þátt í umræðum af því tagi. Þá er hægt að taka ákvarðanir um útgjöld úr ríkissjóði. Þá þarf ekki frekari skoðunar við eða athugunar. En ef á að standa við loforð sín til launafólksins í landinu, þá þarf að skoða málið, þá þarf að setja málið í nefnd, þá þarf að segja ef og kannski, einhvern tíma í framtíðinni.
    Staðreyndir þessa máls liggja því mætavel fyrir. Auðvitað á Alþingi að taka á þessu máli á þann veg að leysa það. Auðvitað á Alþingi af þessu tilefni að sýna ríkisstjórninni að þó að hún sé ófær um að leysa mál, þá geti Alþingi gert það. Hv. 10. þm. Reykv., einn helsti talsmaður í Framsfl. fyrir kröfunni um nýja efnahagsstefnu, lýsti því hér fyrir nokkrum dögum í umræðum hvernig þingmenn gátu tekið höndum saman þrátt fyrir hæstv. ríkisstjórn og komið fram

mikilvægum breytingum í skattamálum til þess að örva einstaklinga til kaupa á hlutabréfum og auðvelda fyrirtækjum að auka eiginfjárstöðu sína með hlutabréfasölu í kjölfar skattalegra breytinga. Þessi forustumaður Framsfl. sem gert hefur kröfu um nýja efnahagsstefnu vakti á því athygli sérstaklega hér á hinu háa Alþingi að hæstv. ríkisstjórn hefði hvergi komið nálægt því máli, ekkert frumkvæði haft, en þurft hafi þingmenn úr hinum frjálslyndari armi Framsfl. og úr Sjálfstfl. til að knýja málið fram með þverpólitískri
samstöðu. Og það er einmitt þetta sem þarf að gerast núna. Þrátt fyrir hæstv. ríkisstjórn vitum við það að innan Framsfl. a.m.k. er frjálslyndur armur sem getur tekið hér ábyrga afstöðu á þingi og við eigum af þessu tilefni, þingmenn, að taka á þessu máli í fjvn., við afgreiðslu fjáraukalaga, og leysa vanda verksmiðjunnar þannig að Alþingi geti þá staðið við þau fyrirheit til launafólksins sem hæstv. ríkisstjórn hefur gefist upp við.
    Herra forseti. Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu máli og afstöðu minni í því efni, en ég hygg að flestir geti verið á einu máli um að fá mál eru skýrari og ljósari dæmi um efnahagsstefnu vinstri stjórnar, um fortíðargöngu núv. hæstv. ríkisstjórnar, um það hvernig ákvarðanir hennar á öllum sviðum í efnahags- og fjármálum skilja eftir gjaldþrot og skuldasöfnun sem munu þegar á næsta ári lenda á atvinnurekendum, bændum sem öðrum, neytendum og skattgreiðendum. Þetta mál er dæmigert fyrir gjaldþrotastefnu þessarar hæstv. ríkisstjórnar sem ætlar að skilja við með sama hætti og vinstri stjórnin 1958, ríkisstjórn sem stóð saman af sömu flokkum, sömu fjölskyldum, beitti sömu vinnubrögðum og fær sömu eftirmælin.