Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Eftir afar ítarlega ræðu hv. 1. þm. Suðurl. get ég að sjálfsögðu stytt mál mitt nokkuð frá því sem ella hefði orðið, en í hans máli var þetta mál rakið afar skilmerkilega og meginsjónarmið okkar sjálfstæðismanna komu þar fram.
    Það liggur fyrir að frv. sem hér er á dagskrá er sérstætt mál, býsna sérstætt mál og óvenjulegt. Ég hygg að það hafi ekki gerst í annan tíma að ríkisstjórn hafi lagt fram frv. til laga um ákvörðun áburðarverðs. Og ég minnist þess ekki að nokkru sinni áður hafi það gerst að ekki hafi tekist niðurstaða á milli stjórnar Áburðarverksmiðjunnar annars vegar og landbrh. hins vegar þannig að til þess hafi komið að þessi mál yrði að leysa á Alþingi.
    Nú er þetta svo, og gerir þetta mál afar sérstætt, og ég hlýt að lýsa því að það er afar óheppilegt að geta ekki starfað að þessum málum með þeim hætti sem lög kveða á um, sem sé að áburðarverð sé ákveðið af stjórn verksmiðjunnar í samráði við hæstv. landbrh. Það liggur fyrir að hæstv. ríkisstjórn gaf um það fyrirheit í tengslum við kjarasamninga að áburðarverð hækkaði ekki umfram 12%. Í sjálfu sér hafði hæstv. ríkisstjórn þetta á valdi sínu ef hún hefði þá um leið ætlað sér að brúa það bil sem var á milli ákvörðunar verksmiðjustjórnarinnar annars vegar og þessarar ákvörðunar hins vegar með því að leggja fram fé, en að öðru leyti hafði hæstv. ríkisstjórn enga heimild til að ákveða eða lofa því hvert áburðarverðið yrði. Það var ekki hennar hlutverk, heldur þeirra aðila, verksmiðjustjórnar og landbrh., sem það ákvarða eftir lögum. Þetta liggur samt fyrir og þetta loforð mun hafa verið gefið fulltrúum bænda í tengslum við þá kjarasamninga og e.t.v. aðilum vinnumarkaðarins.
    Eins og fram kom í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. var það samdóma álit verksmiðjustjórnarinnar að til þess að rekstur verksmiðjunnar gæti verið í jafnvægi þyrfti áburðarverðið að hækka um 22,3%. Fjárlög gerðu hins vegar ráð
fyrir því að áburðarverðið hækkaði um 18% og eftir það þóf sem átt hefur sér stað um þetta mál verður það niðurstaðan að meiri hluti verksmiðjustjórnarinnar gerir tillögu um 18% hækkun á áburðarverðinu en á það treystir ríkisstjórnin sér ekki til að fallast.
    Nú er rétt að gera sér alveg grein fyrir því að ef áburðarverðið hækkar um 12% og ekki verður um neinar ráðstafanir af hálfu ríkisstjórnarinnar að ræða til þess að bæta stöðu verksmiðjunnar er reiknað með að halli á rekstrinum verði á þessu ári um 129 millj. kr. Mismunurinn í tekjum verksmiðjunnar eftir því hvort verðið hækkar um 12% eða 22,3% er 129 millj. kr. Ef áburðarverðið hækkaði um 18%, eins og meiri hluti stjórnar verksmiðjunnar gerði tillögu um og gerði samþykktir um, er mismunurinn á milli tekna verksmiðjunnar frá 12% hækkun áburðarverðs upp í 18% um 63 millj. kr.
    Ég tel að það sé óviðunandi að stefna að hallarekstri verksmiðjunnar á þessu ári upp á allt að 130 millj. kr. eins og fyrir liggur að yrði ef

áburðarverðið hækkar um 12% og ekki koma aðrar ráðstafanir til til að bæta rekstrarstöðu fyrirtækisins. Þetta er gjörsamlega óviðunandi vegna þess að með þessum hætti væri verið að velta þessum vanda yfir á næsta ár og það þýddi að á sama tíma og verðlag hækkaði kannski um 7--10%, um 7% segir hæstv. ríkisstjórn, mundi þurfa að hækka áburðarverðið um 20--30% og það sjá allir að slík niðurstaða er gjörsamlega óviðunandi. Það er enda margföld reynsla fyrir því hjá fyrirtækjum sem safna upp halla að það kostar miklu meira að vinna hallareksturinn upp heldur en ef haldið hefði verið á verðlagningu á afurðum þeirra með þeim hætti að verðlagningin væri nokkurn veginn í samræmi við annað verðlag í landinu.
    Nú hefur hv. 1. þm. Suðurl. rakið það hvernig um þessi mál hefur verið fjallað á fundum verksmiðjunnar og það hefur komið glöggt í ljós að lengst af hefur verið algjör samstaða um málið í verksmiðjustjórninni og um það hvernig á því skyldi haldið. Í einu af bréfum þeim sem vitnað var til hér áðan, þ.e. bréfi frá hæstv. landbrh. sem ritað er 30. mars sl., segir svo, með leyfi forseta, og ítreka ég þar það sem fram kom í máli hv. 1. þm. Suðurl.:
    ,,Gerð verði ítarleg úttekt á rekstrarafkomu og stöðu Áburðarverksmiðjunnar fyrir næsta haust og metnar forsendur fyrir nauðsynlegum verðbreytingum á framleiðslu ársins 1991 til að vinna upp rekstrartap á þessu ári.`` Enn segir: ,,Fyrirsjáanlegt rekstrartap ársins sem ekki sýnist svigrúm til að bæta upp á næsta ári verður tekið til meðferðar við afgreiðslu fjáraukalaga á síðari hluta ársins.``
    Það kemur fram í þessu bréfi að meginsjónarmið hæstv. landbrh., sem ritar þetta bréf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, er það að við verðlagningu fyrir árið 1991 eigi að meta nauðsynlegar breytingar á verði til þess að vinna upp rekstrartapið á þessu ári. Það er meginatriðið. Og það er þetta sem er fordæmanlegt af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, að halda nú niðri verðinu og gera ekki ráðstafanir til þess að unnt sé, eins og hér hefur komið fram, að standa við loforð hæstv. ríkisstjórnar í tengslum við kjarasamninga og halda þó rekstri fyrirtækisins í sæmilegu horfi og ætla sér að velta þessu yfir á næsta ár með þeim afleiðingum að það mundi þýða milli 20 og 30% verðhækkun á
áburðinum á næsta ári þó að verðlag hækkaði ekki nema um 7%. Þetta er fordæmanlegt og þetta er ekki viðunandi niðurstaða.
    Hæstv. ríkisstjórn virðist skáka í því skjólinu að þá verði hún farin frá völdum og það komi í hlut annarra að taka á sig þessar byrðar. Það komi í hlut annarra og annarrar ríkisstjórnar að taka við þeim vanda sem það hefur í för með sér að mæta því meðal bænda og meðal neytenda að meðan verðlag hækkaði um 7% hækkaði áburðarverðið um 20--30%. Þessi niðurstaða getur ekki gengið að mínum dómi og ég ítreka mjög alvarlega þær áskoranir sem fram komu í máli hv. 1. þm. Suðurl. til hæstv. forsrh. og til hæstv. ríkisstjórnar að taka nú fyrir þinglok ákvarðanir um að bæta upp það rekstrartap sem verksmiðjan verður fyrir vegna

loforðs hæstv. ríkisstjórnar um 12% hækkun áburðarverðsins. Þetta er þeim mun augljósara að er eðlilegt að gera nú í tengslum við fjáraukalög fyrir árið 1990 sem eru til meðferðar í hv. fjvn. að þetta fjáraukalagafrv. hefur að undirfyrirsögn að það sé flutt vegna kjarasamninga í febrúar 1990. Inn í þetta fjáraukalagafrv. á því beint að taka allar þær ráðstafanir í fjármálum ríkisins sem eru í beinum tengslum við afleiðingar kjarasamninganna. Þetta var rækilega skýrt af hálfu hæstv. forsrh. þegar hann mælti fyrir þessu frv. hér í febrúarmánuði. Ég ítreka því þessi tilmæli og eindregnu áskorun og ég vil gjarnan láta þess getið að verði hæstv. ríkisstjórn ekki við þessum áskorunum, þá mun ég beita mér fyrir flutningi tillögu hér á hv. Alþingi til að koma þessu fram. Það verður þá að ráðast hvernig um það mál fer.
    Nú liggur það fyrir að þrátt fyrir að það sé einróma mat verksmiðjustjórnarinnar að áburðarverðið hefði þurft að hækka um 22,3% til þess að halda jafnvægi í rekstri fyrirtækisins þá tók meiri hluti stjórnar ákvörðun um að leggja til að verðið hækkaði um 18% með tilliti til þess sem kveðið var á um við afgreiðslu fjárlaga. Ég gæti fyrir mína parta gengið inn á það, og væri það samkomulagstillaga af minni hálfu, að hæstv. ríkisstjórn legði fram fé á fjáraukalögum fyrir þetta ár til að brúa bilið á milli 12% og 18%. Og að sá halli sem þá myndast vegna þess mismunar sem er upp í 22,3% stæði þá út af að þessu sinni. Þessi fjárhæð er, eins og ég sagði áður, 63 millj. kr. Ég tel með tilliti til tillagna meiri hluta stjórnar, sem auðvitað eiga rætur í afgreiðslu hæstv. ríkisstjórnar og hv. meiri hluta stjórnarflokkanna hér á hinu háa Alþingi við afgreiðslu fjárlaga sem tekið var tillit til, að hægt sé að ganga til samkomulags um að á þann veg verði á málinu haldið. En það verður ekkert samkomulag um að láta þessi mál liggja í salti, taka til athugunar við verðlagsforsendur á framleiðslu verksmiðjunnar á næsta ári hvað
hægt sé þá að bera uppi af hallarekstrinum í verði sem þarf væntanlega að vera 20--30%. Og í öðru lagi að huga að því með haustinu hvort rétt sé að taka þá eitthvað inn í fjáraukalög. Um þá niðurstöðu verður ekkert samkomulag.
    Ég hlýt að beina þessu í fullri alvöru og einu sinni enn til hæstv. forsrh. sem stendur auðvitað fyrir flutningi þessa frv., og sem oddvita sinnar ríkisstjórnar, að þetta verði grandskoðað og ákvörðun tekin um þetta nú þegar vegna þess að það er nú mjög rekið eftir því í fjvn. að afgreiða út úr nefndinni frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1990. Ljóst er að það verður ekki dregið marga daga, enda þinglok fyrir dyrum.
    Hæstv. forsrh. sagði hér í sinni framsöguræðu að hann teldi að verksmiðjan þyldi 12% hækkun. Ég veit það að hæstv. forsrh. hefur að ýmsu leyti kynnt sér málefni verksmiðjunnar. Hann er þeim ekki ókunnugur frá fyrri tíð. Ég verð þó að segja að þetta er meira en hæpin fullyrðing. Ég verð að segja að þrátt fyrir það að hæstv. forsrh. sé án efa nokkuð kunnugur stöðu

verksmiðjunnar, þá trúi ég þó betur stjórnendum fyrirtækisins og framkvæmdastjóra og öðrum þeim tæknimönnum sem vinna við að leggja upp fjárhagsáætlanir fyrirtækisins.
    Hæstv. ráðherra sagði í sinni framsöguræðu að hagur fyrirtækisins mundi verða betri en ætlað var við fjárlagaafgreiðslu vegna þess að eftir kjarasamningana yrðu verðlagsbreytingar minni en áður hafði verið áætlað. Verðlagsbreytingar sem áætlaðar voru við afgreiðslu fjárlaga 11% ættu að verða miðað við áætlanir eftir kjarasamninga um 7%.
    Nú er þessu ekki nema að litlu leyti svo varið. Þannig vill til að Áburðarverksmiðjan selur framleiðslu sína til bænda og lánar hluta af verðinu. Áburðarverksmiðjan fær þess vegna verulegar vaxtatekjur. Og ef þetta gengur eftir með verðlagsþróun, að verðhækkanir verða 4% minni en gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga, og það gengur eftir sem hæstv. ríkisstjórn hefur áætlað, að vextir lækki í samræmi við það, þá lækka þessar vaxtatekjur Áburðarverksmiðjunnar. Það var áætlað samkvæmt útreikningum, sem gerðir voru m.a. af Fjárlaga- og hagsýslustofnun, að þessi lækkun í tekjum fyrirtækisins yrði um 33 millj. kr. vegna minni vaxtatekna. Á hinn bóginn tekur Áburðarverksmiðjan rekstrarlán og á henni hvíla rekstrarlán, eins og fram kom í máli hv. 1. þm. Suðurl., og það eru erlend lán. Og vextir á erlendum lánum verða væntanlega óbreyttir. Verðlag innan lands hefur ekki áhrif á vexti á erlendum lánum þannig að þarna hallar á í rekstri verksmiðjunnar miðað við þær
verðlagsforsendur, sem hæstv. forsrh. greindi frá í ræðu sinni, um 33 millj. kr. sem staða fyrirtækisins verður verri vegna þessara vaxtabreytinga.
    Nú held ég að það sé tvímælalaust að á þessum tíma sé hægt að sjá nokkuð fyrir um þessa rekstrarniðurstöðu þannig að ekki skakki háum fjárhæðum. Hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að ef til vill mætti fara aðrar leiðir. Það kynni að vera hægt að auka tekjur verksmiðjunnar með því að stuðla að meiri sölu á áburði og ef til að mynda, eins og hann gat um, selt væri 5000 tonnum meira af áburði en áætlanir standa til um til landgræðslustarfa þá mundu tekjur verksmiðjunnar aukast um 50 millj. Hið rétta er að þær mundu væntanlega aukast um 40--50 millj. Látum svo vera. En til þess að þetta sé mögulegt þarf að leggja fram fé. Til þess að þetta sé mögulegt þarf hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að Landgræðsla ríkisins og aðrir þeir aðilar sem geta notað áburð til landgræðslustarfa, fái fé til að kaupa þennan áburð fyrir. Mér sýnist, miðað það verðlag á áburði á þessu ári sem hér liggur fyrir í gögnum, að til þess að selja fimm þúsund tonnum meira og stofnanir, er sinna landgræðslustörfum, geti keypt það magn, þá þurfi að veita úr ríkissjóði fé sem er ekki minna en 110--120 millj. kr. Þessi leið er því erfiðari fyrir ríkissjóð þó að hún gæti vonandi komið gróðurfari og gróðurríki landsins til góða. En ef þetta væri nú meiningin þá þarf að taka þetta fé inn á fjáraukalögin.

    Ég vænti þess að hæstv. forsrh. og hæstv. landbrh. geti í dag og á morgun tekið um það ákvörðun hvora leiðina þeir vilji fara og láti ekki þessi mál synda til haustsins í algerri óvissu með óviðunandi afleiðingum fyrir þetta fyrirtæki, fyrir bændur og fyrir neytendur í landinu. Ég held að þegar um er að ræða fyrirtæki sem reynsla er fyrir rekstri á, eins og það sem hér á hlut að máli, sé hægt að byggja upp trúverðugar áætlanir. Þetta er ekki fyrirtæki af því tagi sem þarf að gera áætlanirnar eftir á. Það er hægt að byggja upp trúverðugar áætlanir fyrir fram og það þarf ekki að fara í það að byggja upp áætlanirnar eftir á þegar reynslan liggur fyrir og þegar skuldasúpan hefur safnast fyrir.
    Ég hlýt að benda á hvað það í rauninni þýðir sem hæstv. forsrh. var að segja hér í ræðu sinni, að það er ekki rétt að staða verksmiðjunnar batni þó að það hafi hægt á verðlagsþróun, vegna halla á vaxtareikningi sem beinlínis hlýst af því. Ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að hlutast til um það með framlögum úr ríkissjóði til stofnana, Landgræðslu ríkisins og annarra aðila sem gætu unnið að landgræðslustörfum, að sala á áburði verði 5000 tonnum meiri en ella væri, þá kostar það fé úr ríkissjóði sem er ekki minna en 110--120 millj. kr. og er dýrara fyrir ríkissjóð en sú sáttaleið sem ég boða hér um það að vega upp mismuninn á milli 12% og 18% hækkunar áburðarverðs.
    Það er eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn vilji standa við þau orð sem sögð voru og þau loforð sem gefin voru í tengslum við kjarasamninga þó svo að hæstv. ríkisstjórn hefði ekki á þeim tíma neina heimild til að ákveða að áburðarverðshækkunin yrði ekki nema 12%. Það liggur hins vegar fyrir að hæstv. ríkisstjórn hefur fulla heimild til þess og getur komið fram ráðstöfunum til þess að útvega fjármagn úr ríkissjóði til þess að bera uppi þennan mismun.
    Ég vil enn ítreka það að það er sú sáttaleið sem er fær í þessu máli og sú eina niðurstaða sem er viðunandi miðað við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hér verði 12% hækkun.
    Ég þarf ekki vegna ítarlegrar ræðu hv. 1. þm. Suðurl. að blaða frekar í þeim gögnum sem við höfum í höndum og eru opinber gögn, þ.e. fundargerðir stjórnar þessa ríkisfyrirtækis. Það hefur borið aðeins á því í umræðum um þessi mál að það væri óvissa um þjóðhagslega hagkvæmni þessa fyrirtækis. Það er ekki langt síðan athugun var gerð á hagkvæmni fyrirtækisins því að þann 9. júní 1988 skilaði áliti nefnd sem landbrh. hafði skipað til að kanna hagkvæmni í rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins. Meðal meginniðurstaða úr því nál. er að við samanburð á innflutningi og innlendri framleiðslu sé ekki hægt að staðfesta að innfluttur áburður sé ódýrari en innlend framleiðsla. Í gögnum sem fyrir liggja sést einnig að áburðarverð frá Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi er mjög svipað eða sambærilegt við áburðarverð úti í Noregi og þarf þá væntanlega að bæta við flutningskostnaði. Mér þykir því rétt að láta þessa getið vegna efasemda og jafnvel fullyrðinga, sem fram hafa komið í blöðum, um að þetta fyrirtæki

sé ekki þjóðhagslega hagkvæmt. Þess er og að geta að framleiðslukostnaður er að meiri hluta innlendur við framleiðslu á áburði verksmiðjunnar en að minni hluta erlendur og hefur það ekki lítið að segja í sambandi við þjóðhagslega hagkvæmni þessa fyrirtækis.
    Undir nál. þeirrar nefndar, sem skilaði áliti 9. júní 1988, skrifa Gunnlaugur M. Sigmundsson, Vilhjálmur Egilsson og Kristinn Ó. Magnússon.
    Ég hef óskað eftir því í hv. fjvn. að fjáraukalög fyrir árið 1990 verði ekki afgreidd úr nefndinni fyrr en fyrir liggi hvort hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. tekur ekki þetta ráð, sem ég hef hér lagt mjög þunga áherslu á, að leggja til breytingar á þeim lögum á þann hátt að inn í lögin verði tekið fé sem þarf til að brúa það bil í rekstri verksmiðjunnar sem hlýst af hækkun
áburðarverðsins um 12% í staðinn fyrir 18%. Þetta er, eins og áður sagði, um 63 millj. kr.
    Ég veit ekki hvort meiri hl. fjvn. fellst á að bíða öllu lengur með afgreiðslu þessa frv. því að vitaskuld eru fáir dagar til stefnu og allmörg mál eftir að afgreiða úr nefndinni og það allstór mál. En ég vænti þess þó ef hæstv. ríkisstjórn fellst á að taka þessa ákvörðun nú í dag eða á morgun þá verði ekki gefið út nál. eða brtt. fyrr en hægt verði að koma þessari breytingu inn. Víst er að þó svo að hv. meiri hl. fjvn. hefði skilað áliti áður en málið er afgreitt getur ríkisstjórn hvenær sem er lagt fram sína brtt.
    Gerist það ekki mun ég beita mér fyrir flutningi slíkrar tillögu og endurtek: Það er sú eina leið sem er fær í þessu máli. Að skilja verksmiðjuna eftir með þann hallarekstur sem fyrirsjáanlegur er án annarra aðgerða er ófær og gersamlega óviðunandi leið og til þess gerð að komast létt út úr hækkun áburðarverðsins á þessu vori og telja sig þar með vera að gera bændur og neytendur í landinu ánægða, vitandi það að hækkunarþörfin verður a.m.k. tvöföld eða meiri á næsta ári sem bændur og síðan neytendur þurfa þá að bera uppi vegna áhrifa á verðlagsþróun.