Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það hefur þegar verið rakið nokkuð ítarlega út á hvað þetta frv. gengur, sem hér er til umræðu, um breytingu á nýsettum lögum frá 28. febr., um ráðstafanir vegna kjarasamninga. Ég fæ þetta mál til meðferðar í nefnd ásamt öðrum þingmönnum sem sitja í hv. fjh.- og viðskn. og fæ þess vegna tækifæri til að kynna mér málið betur þar. Ég tel þó ástæðu til þess þegar við 1. umr. málsins að segja nokkur orð vegna framsöguræðunnar sem flutt var hér í upphafi og annarra skyldra mála sem hljóta að vakna í huga manns þegar maður heyrir þær röksemdir sem koma fram í máli hæstv. forsrh. Fyrst vil ég þó segja það að ég tel óþarfa að flytja þetta frv. Hefði verið þörf á því var augljóst að slíkt frv. hefði átt að koma í kjölfar kjarasamninganna eða sem hluti af því frv. sem þá var lagt fram, rann á mjög hraðri ferð í gegnum þingið og endaði með gildistöku hinn 28. febr. sl.
    Ekkert nýtt hefur gerst í þessu máli því að í plöggum frá ríkisstjórninni, reyndar frá hæstv. fjmrh. og dags. eru 27. og 28. jan., sést mjög greinilega að hæstv. ríkisstjórn gerði ráð fyrir því að hækkun áburðarverðs yrði 1. maí 12%. Við það yrði áætlað tekjutap 140 millj. en verðlagsáhrifin yrðu 0,1%.
    Í samkomulagi Stéttarsambands bænda, Alþýðusambandsins, BSRB, VSÍ og VMS um málefni landbúnaðar segir skýrt og skorinort, eins og vitnað hefur verið til, að samkomulagið byggist á því fyrirheiti ríkisstjórnarinnar að verðhækkun áburðar verði ekki umfram 12% við verðlagningu vorið 1990. Á það hefur verið bent að hæstv. ríkisstjórn hafi ætlað sér að standa við þetta fyrirheit sitt. Spurningin, sem auðvitað er meginspurningin, er sú hvort ástæða sé til að gera það með því að flytja frv. á borð við það sem hér liggur fyrir til umræðu eða hvort eðlilegra hefði verið, þar sem menn sjá vel fyrir hvert tekjutapið verður, að gera ráð fyrir þessu fjármagni sem verksmiðjan tapar í fjáraukalögum sem eru til meðferðar nú á hv. Alþingi. Mín skoðun er skýr. Ég
tel að það hefði verið eðlilegra og reyndar sjálfsagt mál að ríkisstjórnin tæki nú þegar ábyrgð á þessari ákvörðun sinni, en ýtti henni ekki, eins og öðrum vandamálum, inn í framtíðina og helst fram yfir næstu kosningar. Þessi hæstv. ríkisstjórn sem hefur setið hér um hríð hefur í allt of miklum mæli ýtt vandamálum á undan sér. Það má minna í því sambandi á hallann á ríkissjóði.
    Það hefði kannski verið æskilegt, virðulegi forseti, að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Mig langar að vita hvort hann er staddur í húsinu. ( Forseti: Forseti upplýsir að hæstv. ráðherra er ekki staddur í þinghúsinu.) Ég vil geta þess að ég hef grun um að hæstv. ráðherra hafi ekki einungis farið úr húsinu heldur hafi hann bókstaflega farið úr bænum því að hann hugðist halda fund á Sauðárkróki í dag, áróðursfund fyrir sig á kostnað fjmrn., og setur þann fund á þeim tíma sem ætlast er til að hv. þm. séu við störf á hinu háa Alþingi. Ég vil, virðulegi forseti, að

það verði staðfest hér að mér finnst aldeilis óviðeigandi að hæstv. fjmrh. ætlist til þess að á meðan verið er að ræða mál sem hefur þýðingu fyrir ríkissjóð, að okkar áliti, þá noti hann þann tíma á sjálfum þingfundartímanum til þess að halda áróðursfundi úti á landi. Ég tel að hæstv. ráðherrar verði að gæta þess við þinglok að láta slíkan fund ekki rekast á við störf Alþingis. Það hefði verið hægt að halda slíkan fund á morgun eða 1. maí, en að gera það núna á laugardegi þegar allir vissu fyrir nokkru síðan að þing mundi standa er afskaplega óviðfelldið.
    Ég ætlaði, og fyrst hæstv. fjmrh. er ekki við verð ég að líta svo á að hæstv. landbrh. og hæstv. forsrh. komi í hans stað, að láta það koma fram að hér er verið að beita sömu vinnubrögðunum og hefur verið beitt hjá hæstv. ríkisstjórn í hallarekstri ríkissjóðs. Það er verið að safna skuldum. Ríkissjóður hefur safnað slíkum skuldum að undanförnu að þær hafa þrefaldast á nokkrum árum. Fyrir örskömmu síðan hlustuðum við á umræður um jarðgöng á Vestfjörðum sem út af fyrir sig er kannski ekki frásagnarvert nema vegna þess að hæstv. ráðherrar, og þó einkum hæstv. fjmrh., lýstu því yfir að það ætti að greiða lántökukostnað og vexti vegna flýtingar á jarðgangagerð á Vestfjörðum með því að byggðaframlög rynnu til Vestfirðinga en ekki til annarra á næstunni. Þannig hefur hæstv. ríkisstjórn í hinum ýmsu málum verið að ráðstafa fjármunum framtíðarinnar og koma í veg fyrir það að næsta ríkisstjórn hafi ráðstöfunarrétt á slíkum fjármunum. Ég minni enn fremur á að það er talið að hæstv. ríkisstjórn hafi að undanförnu í gegnum þrjá sjóði, Verðjöfnunarsjóð, Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð, notað tíu milljarða til þess að halda fyrirtækjum á floti, án þess að tryggt sé að fyrirtækin lifi af. Það liggur fyrir í frv. sem er nú til meðferðar í hv. sjútvn. að ríkissjóður ætlar sér að taka yfir skuldbindingar Verðjöfnunarsjóðs upp á á þriðja milljarð. Þær skuldbindingar urðu til þegar hæstv. ríkisstjórn ákvað að taka erlend lán til að greiða niður útflutningsverð á fiski, greiða með fiskinum vegna þess að hæstv. ríkisstjórn neitaði að lagfæra gengið eins og þurfti haustið 1988. Talsverðar fjárhæðir, nokkrir milljarðar, hafa farið í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og til að kóróna síðan vitleysuna hefur hæstv. ríkisstjórn beitt sér fyrir því gagnvart a.m.k. tveimur fyrirtækjum að
Atvinnutryggingarsjóður breyti lánum sínum í hlutdeildarskírteini Hlutafjársjóðs. Þannig er búið að kóróna þetta sköpunarverk hæstv. ríkisstjórnar því að það er augljóst mál að slík B-skírteini eru einskis virði. Ég vil nefna í því sambandi að þeir bankar sem hafa tekið B-skírteini hafa afskrifað þessi skírteini að fullu. A-skírteinin hafa þeir afskrifað að hluta vegna þess að þau eru vaxtalaus en þó með ríkisábyrgð, en B-skírteinin eru talin einskis virði.
    Þannig hefur hæstv. ríkisstjórn farið að, ýtt á undan sér vandanum, komið honum yfir á næstu ríkisstjórnir, en á sama tíma standa hæstv. ráðherrar fyrir fundahaldi úti á landi, af því að þeir hirða ekki um starfsskyldu sína hér, til þess að hæla sér af því hvað

þeir hafi staðið sig vel gagnvart atvinnulífinu. Í raun og veru er slík framkoma fyrir neðan allar hellur. Það hlýtur að vera gagnrýnisvert, virðulegur forseti, þegar svona stendur á, þegar milljörðum á milljörðum ofan er ýtt inn í framtíðina, þá skuli hæstv. ráðherrar, eins og hæstv. fjmrh., vera úti á landi til þess að hæla sér af því að atvinnulífið úti á landi gangi vel vegna afskipta ríkisstjórnarinnar. Þetta er alvarlegt, en svona eru þessi mál samt.
    Hæstv. forsrh. sagði í sinni framsöguræðu í dag að eiginfjárstaða Áburðarverksmiðjunnar væri svo góð að hún þyldi lántöku. Ja, ef hæstv. ráðherra hugsaði nú þetta út í hörgul, er þá þannig komið í þessu landi að menn sem halda að það sé hægt að stýra öllu með handafli, menn sem standa í þeirri meiningu að þeir einir viti hvernig eigi að reka atvinnufyrirtækin, þeir eigi að taka ákvarðanir um það hvenær viðkomandi atvinnufyrirtæki eigi að taka lán og hvenær ekki? Megum við búast við því til að mynda að hæstv. ríkisstjórn segi á næstunni að nú megi ekki hækka sement vegna þess að eiginfjárstaða Sementsverksmiðjunnar sé góð og þess vegna eigi að taka lán sem á að borga á næsta kjörtímabili vegna þess að það megi ekki hækka sementið í landinu.
    Ég segi þetta ekki að tilefnislausu. Ég segi þetta vegna þess að eftir nokkurra ára góðan rekstur Sementsverksmiðjunnar kom eitt ár, árið í fyrra, þar sem um hallarekstur var að ræða. Og ef hæstv. ríkisstjórn ætlar að fara að ráðum hæstv. forsrh. þá mun áreiðanlega næsta skrefið verða það að segja: Það þarf ekkert að taka tillit til þess hvort hlutir eru reknir með tapi. Við sem erum í hæstv. ríkisstjórn, við sem höfum sýnt það góða fordæmi að reka ríkissjóð með bullandi halla og erlendum lántökum ætlumst auðvitað til þess að öll atvinnufyrirtækin í eigu ríkisins geri slíkt hið sama. Og svo ætla þeir að segja: Við höfum bjargað öllu. Það hefur aldrei gengið betur en nú með því að taka bara erlend lán. Ef við fylgdum nú þessari stefnu eftir þá ættu þeir sem eiga fyrirtæki og reka hér í borg og út um allt land að fara að dæmi hæstv. ríkisstjórnar og segja: Við tökum bara einhverja peninga að láni þó að við töpum. Og heimilin sem hafa nú minna á milli handanna en oftast áður eiga þau ekki líka að safna skuldum fram í framtíðina, skrifa þennan halla hjá ríkisstjórninni eða næstu ríkisstjórn? Eða síðustu ríkisstjórn sem hæstv. iðnrh. átti líka sæti í. Ef hann vill að það sé gert á hans kostnað þá er það allt í lagi mín vegna.
    Þetta voru meginröksemdirnar, en síðan bætti hæstv. ráðherra við fleiri röksemdum. Annars vegar: eiginfjárstaðan er svo góð, jafnvel þótt einhver hallarekstur verði, þótt vanti 140 millj., þá á að taka erlend lán. Hins vegar sagði hæstv. ráðherra: Ríkisstjórnin ætlar að standa við yfirlýsingarnar sem hún gaf í kjarasamningunum. Má ég spyrja hér: Hefur hæstv. forsrh. staðið við yfirlýsingar sem hann hefur gefið í kjarasamningum? Það er ekki von að hann segi eitt einasta orð því að svo er ekki.
    Fyrir ári síðan voru gerðir kjarasamningar og

hæstv. ríkisstjórn gaf út yfirlýsingu. Hún lofaði því að jöfnunargjald af innfluttum vörum yrði hækkað tímabundið en fellt niður þegar virðisaukaskattur kæmi til framkvæmda, svo að ég lesi úr bréfi sem hæstv. forsrh. sendi í tilefni kjarasamninga. Hefur verið staðið við þessa yfirlýsingu? Kannast einhver við það hér inni að það hafi verið staðið við þessa yfirlýsingu? Nei. Það hefur ekki verið staðið við hana. Hæstv. ríkisstjórn lagði fram fjárlagafrv. þar sem gert er ráð fyrir því að hálft árið verði heimt jöfnunargjald og nú er svo langt gengið að innan ríkisstjórnarinnar er verið að baksa við það að ná í 500 millj. í viðbót gegn öllum þinglegum vilja því að fjárlög voru afgreidd allt öðruvísi og þvert á þær yfirlýsingar sem gefnar voru í kjarasamningum fyrir einu ári. Ég segi bara: Kunna þessir menn ekki að skammast sín? Er virkilega hægt að bjóða þjóðinni og þinginu upp á það að menn komi hér fram og noti það sem rök að þeir ætli að standa við yfirlýsingar sínar sem þeir gefa í kjarasamningum á sama tíma og þeir sjálfir ganga á bak orða sinna sem þeir gáfu út við sams konar kjarasamninga fyrir ári síðan? Nei, hæstv. forsrh. Því miður er það svo að menn treysta ekki slíkri röksemd. Og menn treysta þess vegna ekki heldur því sem hefur komið fram hjá hæstv. ráðherrum að í haust verði þetta dæmi gert upp í fjáraukalögum einfaldlega vegna þess að við höfum þá reynslu af hæstv. ríkisstjórn að hún hefur ekki staðið við orð sín sem hún gaf í kjarasamningum.
    Þess vegna er það krafa okkar sjálfstæðismanna að málið sem hér er til umræðu verði afgreitt öðruvísi á þinginu en hér er lagt til. Við teljum ekkert athugavert við það að áburðarverðið hækki ekki meira en 12%. En við teljum að þeir sem gáfu það loforð, stjórnvöldin í landinu, hæstv. ríkisstjórn, verði þá að greiða þann mun strax, en ekki skrifa það á framtíðina, eins og ætlunin er að gera. Það er um þetta meginatriði sem þetta mál snýst.
    Ég þarf ekki, virðulegur forseti, að fara nákvæmar ofan í þetta mál. Það hafa aðrir gert hér á undan. En ég tel mig hafa fært nokkuð ítarleg rök fyrir því að ástæðulaust sé að treysta orðum hæstv. ríkisstjórnar. Ég hef sýnt fram á það að orð hæstv. ríkisstjórnar, jafnvel þau sem gefin voru í kjarasamningum, hafa reynst marklaus. Hvers vegna í ósköpunum skyldum við þá treysta því að þessi mál verði tekin upp í fjáraukalögum í haust? Hvernig stendur á því að hæstv. ríkisstjórn getur ekki tekið á þessu máli í því fjáraukalagafrv. sem nú liggur fyrir þinginu? Það er um þetta traust á hæstv. ríkisstjórn sem menn eru að fjalla þegar við erum að ræða þetta frv. sem hér er til umræðu.
    Virðulegur forseti. Ég hef tækifæri til þess í nefndinni að fjalla ítarlegar um málið. Ég sé ekki hina minnstu ástæðu til þess að þetta mál sé tafið í langan tíma, enda er það ekki ætlunin. En það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir okkur sem höfum lýst yfir andstöðu við málið að koma á framfæri okkar rökum og sýna fram á haldleysi þeirra raka sem notuð eru í málflutningi þeirra sem þetta mál flytja.