Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Þetta frv. sem hér er til umræðu er einmitt dæmigert sýnishorn af vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar þar sem verið er að taka ákvörðun um ríkisútgjöld sem á síðan að velta fram í tímann og láta komandi stjórnvöld um að leysa þann vanda sem skapast. En jafnframt hafa þeir hugsað sér að fremja hér óhæfuverk, þó lítið sé, með því að þynna út gjaldmiðil landsins um þá fjárhæð sem hér er um að ræða með því að afla ekki tekna fyrir þessum útgjöldum. Slík ráðstöfun felur í sér útþynningu á gjaldmiðli þjóðarinnar upp á væntanlega þær 130 millj. sem vantar upp á að endar nái saman í rekstri verksmiðjunnar. Með því er einmitt verið að þynna út þá kjarasamninga sem voru gerðir. Menn þykjast vera að standa við yfirlýsingar í sambandi við kjarasamninga, en eru um leið að fremja óhæfuverk með hinni hendinni og þynna út þessa sömu kjarasamninga. Ég tel rétt að minna hæstv. forsrh. á 41. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum og þessi umræða snýst um það hvort hæstv. ríkisstjórn hafi heimild til þess að láta þessa fjárhæð af hendi. Í hv. fjvn. eru til meðferðar fjáraukalög fyrir árið 1990 og mjög auðvelt að setja þar inn þá fjárhæð sem upp á vantar þannig að endar nái saman. En það vilja þessir hæstv. ráðherrar ekki gera. Þeir ætla bara að láta prenta þessar 130 millj. sérstaklega fyrir sig, þynna út gjaldmiðilinn, enda eru þeir búnir að vera duglegir við þessa prentun frá 1988 þegar þeir tóku við völdum. Fróðlegt væri að komast að því hversu mikið þeir hafa prentað síðan þá. Flestar þeirra ráðstafanir í gegnum opinbera sjóði hafa einmitt byggst á --- hæstv. forseti, er þetta ríkisstjórnarfundur hjá ráðherrum eða umræðufundur? Hæstv. ráðherrar fara létt með að nota mörg skilningarvit í einu og þá vita menn það.
    Ég var að minna hér áðan á 41. gr. stjórnarskrárinnar um að það þyrfti heimild til þess að gera þessa aðgerð og þessarar heimildar vilja þeir ekki afla hjá hv. Alþingi. Hæstv. fjmrh. er margoft búinn að koma og talaði alltaf um tímamótaaðgerðir í nútímahagfræði, það eru alltaf einhverjar tímamótaaðgerðir. Þetta eru þessar tímamótaaðgerðir. Það er að gera einmitt ekki það sem hann segist alltaf ætla að gera. Hann lagði hér fram fjáraukalög og hefur oft gert og er það hið besta mál, en því í ósköpunum á allt í einu að fara að hopa af hólmi í þeirri stefnu að fara að leggja hér fram fjáraukalög?
    Ég tel að stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins hafi einmitt sýnt það að hún sé skyldum sínum vaxin. Stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins er þingkjörin stjórn. Hún er kosin af hv. Alþingi til að gæta þess að verksmiðjan sé rekin með sómasamlegum hætti. Alþingi hefur trúað þessari stjórn fyrir þessum fjármunum. Alþingi hefur trúað stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins fyrir því að reka verksmiðjuna af ábyrgð og stjórnarmenn

verksmiðjunnar hafa ótvírætt sinnt skyldum sínum. Það vantar 130 millj. til þess að hægt sé að ná þeim markmiðum sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér, en hæstv. ríkisstjórn neitar að afhenda þessar 130 millj. Og hér á að fara að nota stjórnarmeirihlutann eina ferðina enn til að fremja óhæfuverk og þynna út gjaldmiðil þjóðarinnar upp á 130 millj.
    Þetta mál snýst einmitt um það grundvallaratriði hvenær stjórnvöld hafa heimild til að láta fé af hendi og hvenær ekki. Það virðist fara ákaflega illa í hrossakaupadeild Framsfl. að þurfa að sinna þessum skyldum. Þeir vilja hafa öll þessi grundvallaratriði eins og þeim sýnist, prenta seðla þegar þeim sýnist, úthluta fjármunum í gegnum sjóði án heimilda, gjafapeningum sem ekki er nein heimild fyrir. Nú væri athugandi að meta höfuðstóla þeirra sjóða sem hæstv. ríkisstjórn hefur komið sér upp svo þjóðin fái að vita hvað þeir eru búnir að gefa mikla peninga án nokkurra heimilda. Þetta er einmitt rétti tíminn til að láta meta slíkar athafnir, á þeim tímum sem ríkisstjórn er uppi, en fara ekki að gera það löngu eftir á. Þjóðin þarf að fá að vita strax hvað þessir menn eru að gera. Það er löngu tímabært að það verði stöðvað að menn sukki hér með peninga, eins og þeim sýnist, á kostnað skattborgaranna. Því það leiðir einungis af sér skerðingu á lífskjörum þjóðarinnar fram í tímann.
    Ég vil því leyfa mér að lokum, hæstv. forseti, að mótmæla harðlega svona vinnubrögðum því þau verða einungis til þess að skerða lífskjör íbúa þessa lands í framtíðinni.