Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Þessi umræða hefur leitt mjög greinilega í ljós að það er hæstv. ríkisstjórn sem er að svíkja gefin fyrirheit við aðila vinnumarkaðarins, launafólk og atvinnurekendur með því að neita að leysa það viðfangsefni, sem hún lofaði, að brúa bilið á milli tekna og gjalda í rekstri Áburðarverksmiðjunnar þannig að áburðarverð til bænda þyrfti ekki að hækka nema um 12%. Það er athygli vert að hér hafa þau fátæklegu rök sem hæstv. forsrh. færði fram verið hrakin með öllu og enginn af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar hefur treyst sér til þess að standa upp og liðsinna hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstjórn í þessari umræðu.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. vék að því að hann væri mér ósammála um að stjórn Áburðarverksmiðjunnar hefði fari rétt að. Hún hefði fremur átt, ef ég skildi hann rétt, að fresta ákvörðun og bíða þess að hæstv. ríkisstjórn leysti vandann. Um sumt gæti ég verið sammála þessu og við venjulegar aðstæður hefði þetta sennilega verið rétt ákvörðun af stjórn Áburðarverksmiðjunnar. En ég hygg að stjórn Áburðarverksmiðjunnar hafi gert sér grein fyrir því að þau eru orðin þó nokkuð mörg loforðin sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur svikið í tengslum við kjarasamninga, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti hér á. Blygðunarlaust hefur hún gefið slík loforð og svikið. Stjórnin hefði, ef hún hefði farið að þessu ráði, staðið frammi fyrir því að stöðva áburðarsölu og bíða þess að ríkisstjórnin ræddi það á fundum hvað eftir annað, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, hvort og hvenær ætti að gera athugun og hvenær ætti að skoða og hvenær ætti að fá skýrslur, án þess að komast nokkurn tíma að niðurstöðu. Það er í ljósi þessara afbrigðilegu aðstæðna, að við höfum í landinu ríkisstjórn sem starfar með þessum hætti, sem ekki verður á það fallist að við þessar aðstæður hefði verið rétt af stjórn Áburðarverksmiðjunnar að fara að á þann veg.
    Hér er um að ræða fjárhagsmálefni, málefni sem snertir fjármálastjórn ríkisins. Það liggur fyrir að hæstv. landbrh. hefur viðurkennt að einhverjir af tíu samráðherrum hans, eða allir, hafi komið í veg fyrir að hann gæti leyst þetta verkefni og efnt loforð ríkisstjórnarinnar. Það var gengið eftir því hér fyrr í umræðunni að fá svör við því hverjir það væru innan hæstv. ríkisstjórnar sem komið hefðu í veg fyrir að landbrh. næði sínu máli fram. Því að ljóst er að landbrh. var sammála þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram í gagnrýni á ríkisstjórnina, en var ofurliði borinn innan hennar. Það var óskað eftir svörum um þetta, en þau hafa ekki fengist enn sem komið er í umræðunni. Hverjir voru það innan hæstv. ríkisstjórnar sem sneru hæstv. landbrh. niður? Það var spurt hvort það hefðu verið ráðherrar Alþfl. Ekkert svar. Það er ástæða til að inna eftir því hvort það hafi verið hæstv. fjmrh. og hver sé afstaða hans í málinu. Þegar hefur komið fram tillaga um það frá hæstv. forsrh. að þessu máli sé vísað til fjh.- og viðskn. Þegar af þeirri

formlegu ástæðu má ljóst vera að þetta er fjárhagsmálefni sem hæstv. fjmrh. kemst ekki hjá að tjá sig um og efnislega má öllum vera ljóst að hér er um að ræða fjárhagsmálefni þar sem Alþingi á rétt á að fá fram afstöðu hæstv. fjmrh.
    Það hefur verið leitt í ljós í þessari umræðu að það er ekki hægt að leysa málið og efna loforð ríkisstjórnarinnar á annan veg en að taka um það ákvörðun í fjáraukalögum nú í vor að svo verði gert. Ef Alþingi gerir það ekki, þá er það að staðfesta svik hæstv. ríkisstjórnar. Þess vegna er óhjákvæmilegt, herra forseti, að kalla inn úr hliðarherbergjum bæði hv. formann fjvn., sem fjallar um fjáraukalagafrv., og hæstv. fjmrh., sem greinilega hefur haldið sig í hliðarherbergjum undir þessari umræðu og kosið að víkja sér undan því að sitja í þingsalnum sjálfum. Ég óska eftir því að þeir verði kallaðir úr hliðarherbergjum inn í fundarsalinn til þess að svara þeim fyrirspurnum sem hér liggja fyrir og fá fram afstöðu þeirra, því að þetta mál heyrir undir þessa tvo forustumenn ríkisstjórnarinnar og verður ekki leyst nema fyrir þeirra atbeina.
    Ég óskaði eftir að fá bæði hæstv. fjmrh. úr hliðarbergi og hv. formann fjvn. ( Forseti: Það hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að kalla á hv. formann fjvn., en það hliðarherbergi sem hæstv. fjmrh. er í er ekki í þessu húsi. Mér er tjáð að hann sé kominn norður í land.)
    Herra forseti. Ég trúi ekki því sem nú er sagt af forsetastóli. Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt á það verulega áherslu að þetta mál nái fram að ganga. Reyndar var það svo að að hefja átti umræður um þetta mál kl. 10 í morgun, en bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. heilbrrh. komu í veg fyrir það með því að þeir óskuðu eftir að önnur mál hefðu forgang. Það var engin athugasemd gerð við það af minni hálfu og ég veit ekki til þess að athugasemdir hafi verið gerðar við það. Drjúgum tíma deildarinnar var varið í umræðu um eitt af málum hæstv. fjmrh. hér í morgun, sem endaði með því að þeirri umræðu var þó frestað og er ekki lokið. Ég get ekki trúað því að það sé rétt sem forseti segir, að hæstv. fjmrh. hafi svo hlaupist úr höfuðborginni til fundahalda. Ég minnist þess þó að hafa séð að hann var búinn að auglýsa áróðursfundi Alþb., eða einhvers
klofningsarms Alþb., á kostnað fjmrn. í dag. En það kemur mér satt að segja á óvart að slíkir fundir séu látnir hafa forgang fram yfir málefni ríkisstjórnarinnar og að mál sem er fjárhagsmál skuli rætt hér og hæstv. fjmrh. ætli að koma í veg fyrir að umræðu um þetta mál ljúki með því að gera áróðursfundi á vegum flokks, sem borgaðir eru af ríkissjóði og skattborgurum, að forgangsverkefni. Ég minnist þess ekki að á þennan veg hafi verið staðið að verkstjórn undir lok þinghalds, að ráðherra sem fer með það málefni sem hér er til umfjöllunar, því að þetta er fjárhagsmálefni og er vísað til fjh.- og viðskn., skuli taka áróðursfundi flokks eða flokksbrota fram yfir þingstörf.
    Herra forseti. Það er býsna erfitt um vik þegar

þessi staða er komin upp. Við sjálfstæðismenn höfðum fyrir okkar leyti á það fallist að ljúka þessari umræðu, töldum reyndar að það væri hægt að gera það einhvern tíma upp úr hádegi miðað við það að umræðan hefði hafist kl. 10. En ég átti ekki von á því að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að koma í veg fyrir og hindra þinglega meðferð málsins. Við erum efnislega á móti málinu, en töldum eðlilegt og rétt að í dag lyki þessari umræðu og vísa mætti málinu til nefndar. En að hæstv. ríkisstjórn ætlaði að hindra framgang málsins, á það var ekki minnst einu orði af hálfu ríkisstjórnarflokkanna hér í gær að hæstv. fjmrh. ætlaði að koma í veg fyrir að málið yrði afgreitt. Á það var ekki minnst einu orði af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í gær að hún tæki áróðursfundi Alþb. fram yfir afgreiðslu þessa máls nú við lok þinghalds. Þess vegna mælist ég til þess að fá að gera hlé á ræðu minni þar til hæstv. fjmrh. sér ástæðu til að greiða fyrir framgangi þingmála og gegna skyldum sínum hér.