Ráðstafanir vegna kjarasamninga
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Forseti (Geir H. Haarde):
    Í tilefni af þessari athugasemd hv. ræðumanns vill forseti taka það fram að hann getur að vísu ekki borið ábyrgð á því hverju ræðumaður trúir og hverju ekki af því sem fram kemur af forsetastól. Forseti hefur það engu að síður fyrir satt að hæstv. fjmrh. sé kominn til fundar norður í landi. Hins vegar hafa verið gerðar ráðstafanir til að hv. formaður fjvn., sem hefur setið á skrifstofu sinni, komi til fundarins og veit ég ekki annað en svo verði.
    Forseti vildi í allri vinsemd beina því til hv. ræðumanns að hann ljúki nú máli sínu þannig að unnt verði að ljúka þessari umræðu. Hér sitja fyrir svörum þrír ráðherrar sem þessu máli eru tengdir, þ.e. hæstv. forsrh. sem flytur þetta mál, hæstv. landbrh. sem er yfirmaður verksmiðjunnar, sem þetta mál snýst um, og svo hæstv. viðskrh. sem hefur verið beðið um að væri hér viðstaddur umræðuna vegna áhrifa þessa máls á verðlagsmál. Forseti telur að allvel sé séð fyrir viðveru ríkisstjórnarinnar að því er varðar afgreiðslu þessa máls og vill beina því til ræðumanns að hann ljúki sinni ræðu þannig að þetta mál megi í dag fara til fjh.- og viðskn. Gera má ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur 2. umr. málsins og síðari meðferð og að við það tækifæri megi koma til hans athugasemdum um málið.