Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér er til umræðu var lögð fyrir Alþingi fyrir allnokkru síðan og var hún um heimild til handa forsetum Alþingis til að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg eða öðru húsnæði í næsta nágrenni við Alþingishúsið ef hagkvæmara þætti. Fjvn. hefur því haft tillöguna til meðferðar um allnokkurt skeið. Hún fékk til viðræðna við sig um efni tillögunnar fulltrúa eigenda Hótel Borgar, fulltrúa borgarstjóra og skipulagsyfirvalda Reykjavíkurborgar, svo og núverandi rekstraraðila og hótelstjóra Hótel Borgar. Einnig fóru fjárveitinganefndarmenn og skoðuðu þetta húsnæði.
    Í umræðum í nefndinni komu fram mjög skiptar skoðanir um hvort rétt væri að Alþingi festi kaup á Hótel Borg og var ekki meiri hl. í nefndinni fyrir afgreiðslu tillögunnar eins og hún lá fyrir. Hins vegar var gert um það samkomulag í nefndinni að afgreiða málið nokkuð samhliða afgreiðslu fjáraukalaga fyrir árið 1990, þannig að nefndarmenn voru sammála um að stuðla að því að Alþingi fengi málið til afgreiðslu á þessu þingi þó svo að meiri hl. nefndarmanna hafi ekki verið ásáttur um málið eins og það var upphaflega lagt fram.
    Nú hefur sem sé afgreiðsla málsins farið fram í fjvn. og leggur meiri hl. hennar til að tillagan verði afgreidd með nokkrum breytingum, m.a. í ljósi þeirrar stöðu sem upp hefur komið.
    Meiri hl. nefndarinnar flytur brtt. sínar á sérstöku þingskjali og varða þær bæði efnisgrein tillögunnar og fyrirsögn hennar. Þessar brtt. eru á þskj. 1104 og í meiri hl. fjvn. eru auk mín hv. alþm. Margrét Frímannsdóttir, Alexander Stefánsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Ásgeir Hannes Eiríksson og Ólafur Þ. Þórðarson. Þessir þingmenn leggja til að tillögugreinin verði umorðuð, svo og fyrirsögn tillögunnar. Við leggjum til að tillögugreinin orðist svo:
    ,,Alþingi ályktar að heimila forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup eða leigu á húsnæði fyrir Alþingi í næsta nágrenni við Alþingishúsið, eftir því sem hagkvæmara þykir.
    Hafa skal samráð við fjvn. um ákvarðanir.``
    Og í samræmi við þessa hljóðan tillögugreinarinnar verði fyrirsögn tillögunnar:
    ,,Till. til þál. um heimild til handa forsetum Alþingis til þess að kaupa eða leigja húsnæði fyrir Alþingi.``
    Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um efni tillögunnar, frú forseti. Það liggur fyrir og hefur verið bent á að möguleikar fyrir Alþingi til að kaupa eða leigja húsnæði hér í næsta nágrenni eru allnokkrir. Að sjálfsögðu þarf að gera einhverjar breytingar á því húsnæði og verður að kanna hvað henti best í þessum efnum og hvort best henti að leigja eða kaupa. Og með þeirri heimild sem lagt er til að forsetum Alþingis verði gefin, verði þessi tillaga meiri hl. fjvn. samþykkt, ættu þeir að fá fullgildar heimildir í hendurnar til þess að geta gengið til afgreiðslu þess máls í samráði við fjvn. og svo að sjálfsögðu með því

að ráð sé fyrir því gert að við næstu afgreiðslu fjárlaga verði þau útgjöld til færð sem kynnu að verða af þeim niðurstöðum sem af þeirri athugun kynnu að leiða.