Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Svo sem fram kom í máli frsm. meiri hl. fjvn. var tillaga flutt snemma á þessu þingi um heimild til handa forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg. Sú tillaga var mjög í sama horfi og sú sem flutt var hér á hinu síðasta þingi en náði þá eigi fram að ganga. Það er einnig hárrétt sem fram kom í máli hv. 5. þm. Vestf., að fyrir þessari tillögu, eins og hún var flutt nú, var ekki meiri hl. innan fjvn. Nú hefur það gerst að Hótel Borg hefur verið seld og Reykjavíkurborg hefur keypt það húsnæði, þannig að ekki er um það að tefla að taka hér einhverjar ákvarðanir um hugsanleg kaup á því húsi. Eigi að síður er það skoðun minni hl. nefndarinnar að ástæða sé til að taka þetta mál upp í breyttu formi og það í sama formi eða svipuðu formi og fólst í brtt. minni hl. fjvn. við afgreiðslu málsins úr nefnd á síðasta þingi.
    Meiri hl. nefndarinnar gengur nokkuð lengra en þetta og á það hefur minni hl. ekki fallist. Meiri hl. nefndarinnar, eins og hv. frsm. meiri hl. greindi hér frá, leggur til að Alþingi heimili forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup eða leigu á húsnæði fyrir Alþingi. Svo vill til að minni hl. fjvn. er þeirrar skoðunar að svo mikill áhugi hafi reynst vera hjá hv. stjórnarliðum og hæstv. ríkisstjórn fyrir húsakaupum hér í Reykjavík á undanförnum mánuðum og missirum að það sé ástæðulaust að veita slíka heimild þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir að ákvörðun sé tekin í samráði við hv. fjvn. Í sumum tilvikum hefur það ekki reynst nægur þröskuldur eða nægilegt hald í þegar um húsakaup hefur verið að ræða sem orka mjög tvímælis. Minni hl. hefur því ekki fallist á þessa útfærslu málsins. Það er ekki sú tíð núna, um leið og hæstv. ríkistjórn er að leggja til verulegan niðurskurð á útgjöldum ríkisins til hinna þarflegustu mála í fjáraukalagafrv. fyrir árið 1990, þar sem um er að ræða niðurskurð útgjalda til verkefna sem allir bíða eftir og eru hin nauðsynlegustu að dómi minni hl. fjvn., að ástæða sé til að hrapa um of að húsakaupum fyrir Alþingi eða aðrar stofnanir.
    Ég vek því athygli hv. þingmanna á því að við leggjum þetta mál upp fyrir hv. Alþingi í öðru formi, bæði á annan veg og um leið á ítarlegri máta. Það kemur fram í brtt. minni hl. nefndarinnar á þskj. 1118, en þær brtt. eru svo orðaðar, með leyfi hæstv. forseta:
,,1. Tillgr. orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela forsetum Alþingis að kanna hvaða möguleikar eru til aukinnar hagkvæmni í húsnæðismálum Alþingis og skila um það skýrslu til formanna allra þingflokka á næsta haustþingi.
    Í skýrslunni skal koma fram:
    1. Möguleikar á leigu eða kaupum á húsnæði í grennd við Alþingishúsið.
    2. Áætlun um kostnað í hverju tilviki fyrir sig.
    3. Áætlun um nýtingu húsnæðis sem tekið kynni að vera á leigu eða keypt.
    4. Hvað af núverandi húsnæði Alþingis megi láta

af hendi.``
    Í samræmi við þetta yrði fyrirsögn tillögunnar: ,,Till. til þál. um könnun á húsnæðismálum Alþingis.``
    Ég lít svo til að full ástæða sé fyrir því að forsetar Alþingis fái slíka heimild til könnunar á því hvaða leiðir séu færar og mögulegar til úrbóta á húsnæðismálum Alþingis eins og nú standa sakir. Það liggur fyrir að Alþingi er nú með starfsemi sína í fleiri húsum en haganlegt og hentugt er. Ástæða væri til, ef skynsamlegir möguleikar finnast, að koma því fyrir með öðrum hætti. Slíka tillögu fluttum við, minni hl. í fjvn., á síðasta þingi og mér er ekki kunnugt um að hæstv. forsetar Alþingis hafi neitt starfað að því máli síðan sem væri þó hlutverk þeirra jafnvel þótt tillaga hefði ekki verið flutt um það. En það er undirskilið af okkar hálfu að niðurstöður slíkrar könnunar séu lagðar fyrir alla þingflokka þingsins og að það sé Alþingi í heild, allir þingflokkar, þar á meðal þingflokkar stjórnarandstöðunnar, sem komi að því að taka slíka ákvörðun en ákvörðun meiri hlutans sé ekki látin ráða. Og ef um kostnaðarsamar lausnir yrði að ræða væri það lagt fyrir á næsta haustþingi með þeim hætti að þá yrði séð fyrir fjármagni til þeirra breytinga sem um er að tefla á næstu fjárlögum eða fjárlögum ársins 1991. Þetta er hin eðlilega framrás málsins og eðlilegt að með þessum hætti sé að málinu unnið og ég vænti þess að þó að hv. meiri hl. fjvn. hafi séð ástæðu til að flytja aðra og verri tillögu, tillögu sem við viljum ekki samþykkja, sjái hv. meiri hluti Alþingis að þetta er hin rétta leið. Því vil ég beina því mjög til hv. alþm., hvort sem þeir skipa fylkingu stjórnarliða eða ekki, að þegar þeir líta á málin frá skynsamlegu sjónarmiði, og það alveg án pólitískra ýfinga því að þetta mál á ekki að vera pólitískt, sjái þeir það að tillaga minni hl. er hyggilegri og sú eðlilega leið sem á að fara í þessum málum.
    Hér verður ekkert af minni hálfu vikið að framtíðarhúsaskipun Alþingis sem væntanlega yrði skipað með byggingu á húsi sem gæti þá komið í stað ýmissa þeirra húsa sem Alþingi rekur nú starfsemi sína í. Sú bygging þarf að mínum
dómi að vera við hæfi og hófsamleg en hér verður ekki farið að flækja þetta mál með umræðum um þann þátt af minni hálfu.
    Ég legg svo til, hæstv. forseti, að þær brtt. sem eru fluttar á þskj. 1118 verði samþykktar.