Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Ég tel rétt að koma aðeins inn á þetta mál því að ég geri ráð fyrir að flestum hv. alþm. sé það kunnugt að þegar fyrst var rætt hér um kaup Alþingis á Hótel Borg lýsti ég þeirri afstöðu minni að ég væri algjörlega andvígur slíkum kaupum. Og sú afstaða hefur ekkert breyst eftir þá athugun sem gerð var á því máli, bæði af hálfu fjvn. og eins með þeirri skoðun sem var gerð á húsnæðinu. Þar af leiðandi þurfti ég ekki að breyta neitt um skoðun eða tefja fyrir framgangi tillagna hæstv. forseta hér á þinginu. Ég var reiðubúinn að greiða atkvæði gegn því að þessi kaup yrðu gerð á Hótel Borg.
    Það sem hefur hins vegar komið hér fram lýsir gangi mála í fjvn. Það var ljóst þegar þessi síðari beiðni kom að það var enginn meiri hluti til í fjvn. fyrir þessari ákvörðun forsetanna. Eins og hv. formaður fjvn. sagði hér áðan voru það í mesta lagi tveir til þrír af níu sem vildu fallast á þá meðferð þannig að eðlilegt var að skoða málið nánar og reyna að ná samkomulagi um einhverja afgreiðslu.
    Þegar ljóst var að þetta mál var raunar úr sögunni, eins og forsetar þingsins hafa lagt það fram, Hótel Borg var seld öðrum, var eðlilegt að taka málið upp aftur og niðurstaðan varð sú að reynt var að ná samstöðu í nefndinni um að afgreiða heimild til forsetanna því að auðvitað mælir enginn gegn því að tryggja þarf Alþingi húsnæði umfram það sem nú er eða a.m.k. ganga til þess verks af heilum huga.
    Samkomulag náðist um þetta mál og það kemur fram í því samkomulagi, eins og þar stendur, að ályktað er um það að heimila forsetum að ganga til samninga um kaup eða leigu á húsnæði í nágrenni við Alþingishúsið eftir því sem hagkvæmara þykir og í samráði við fjvn. um ákvarðanir. Hv. 2. þm. Norðurl. v. sleppti því úr að Alþingi á eftir að fjalla um það mál, þ.e. fjvn. og síðan Alþingi sjálft sem hefur síðasta orðið. Og það fara engin kaup eða leiga fram nema Alþingi samþykki þrátt fyrir heimild.
    Ég tel að það sé alveg ljóst að Alþingi þarf að fara að taka allt öðruvísi á þessu máli en gert hefur verið til þessa. Það er búið að eyða tugum milljóna í teikningar að nýju húsi sem er ekki lengur inni í myndinni og ég tel að það sé nauðsynlegt að forusta Alþingis láti nú vinna nákvæma úttekt á því hvernig eða hvort hægt er að tryggja aðstöðu Alþingis hér í miðborg Reykjavíkur til frambúðar. Það kæmi væntanlega í ljós hvort sú aðstaða er fyrir hendi hér í miðborg Reykjavíkur til framtíðar eða hvort leita þarf nýrra leiða um framtíðarskipan þessara mála, þ.e. aðsetur fyrir Alþingi Íslendinga. Þetta mál er miklu víðtækara en svo að hægt sé að gera þetta með kaupum á einu húsi eins og mál eru hér í miðborg Reykjavíkur. Ég tel að ýmsir möguleikar séu hér til að leigja eða kaupa hentugt húsnæði sem getur gengið til bráðabirgða en framtíðarlausnin ætti að vera sú að láta gera á þessu ítarlega könnun, í fyrsta lagi á þörf fyrir húsnæði og hvernig húsnæði, og ef ekki er hægt að fá það með leigu eða kaupum verði menn að taka

ákvörðun um það að leysa húsnæðismál Alþingis til frambúðar svo viðunandi sé. En að fara að gera kaup til bráðabirgða á húsnæði sem ekki hentar Alþingi er rangt að mínu mati. Þess vegna tel ég að þessi samkomulagstillaga sem hér er uppi leysi þetta mál að hluta til svo fremi Alþingi samþykkir þá ákvörðun þegar þar að kemur.